[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Pétur Kristinn Arason fæddist 17. ágúst 1944 á Landspítalanum í Reykjavík. Hann ólst upp á Laugavegi 45, en flytur 11 ára ásamt fjölskyldu sinni í Kópavog. Pétur fór á hverju sumri í sveit og var víða, m.a. í Skagafirði og Neskaupstað.

Pétur Kristinn Arason fæddist 17. ágúst 1944 á Landspítalanum í Reykjavík. Hann ólst upp á Laugavegi 45, en flytur 11 ára ásamt fjölskyldu sinni í Kópavog. Pétur fór á hverju sumri í sveit og var víða, m.a. í Skagafirði og Neskaupstað. Pétur gekk í Ísaksskóla og Æfingadeild Kennaraskólans og lauk gagnfræðaprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar

Pétur fer að starfa hjá föður sínum, Ara Jónssyni í Faco á Laugavegi 37, en Ari hafði stofnað Fatagerð Ara og co., sem framleiddi herraföt og stakar buxur. Var fataverslunin skammstöfun á því heiti. Faco rak einnig verslanirnar Fons í Keflavík, Fönn í Neskaupstað og Fídó á Akranesi.

„Þegar faðir minn deyr 1969 þá tek ég við rekstrinum ásamt bróður mínum Fjölni.“ Faco sá um dreifingu á Levi's-fatnaði og síðar fékk verslunin nafnið Levi's-búðin. Um tíma var enginn maður með mönnum nema hann gengi í Levi's-gallabuxum. „Levi's var mjög vinsælt á tveimur tímabilum, 1973-1975 og svo á 10. áratugnum en þá varð algjört æði. Svona tískubylgjur standa samt ekki yfir nema í fjögur ár.“

Meðfram verslunarrekstri hóf Pétur söfnun á myndlist um 1960. „Ég fór vikulega utan í viðskiptaferðir og skoðaði þá góð söfn í Amsterdam og London og fleiri borgum og gat aukið við þekkingu mína á myndlist. Faðir minn hafði áhuga á myndlist og kveikti áhuga minn.“

Pétur fór síðan að reka sýningarpláss sem nefndist Krókur og starfaði í fimm ár og svo opnaði hann árið 1992 sýningarrýmið Aðra hæð, eða Second Floor, ásamt Ingólfi Arnarssyni á heimili sínu og eiginkonu sinnar, Rögnu Róbertsdóttur, á Laugavegi 37. „Þar voru aðallega sýnd verk erlendra listamanna, en þeir komu ætíð til landsins að setja upp sýningarnar. þetta voru mjög þekkt nöfn í myndlistarheiminum eins og Donald Judd, Carl Andre, Dieter Roth, Lawrence Weiner, Dan Flavin og Louise Bourgeois. Hún var sú eina sem kom ekki til landsins en ég var í nánu sambandi við hana. Þetta var gríðarlega ánægjulegt tímabil og góður skóli,“ en sýningarrýminu var lokað 1997.

Pétur og Ragna héldu áfram að safna samtímamyndlist og árið 2003 opnuðu þau SAFN samtímalistasafn á þremur hæðum sömu byggingar. Um leið seldi Pétur umboð sitt fyrir Levi's-fatnaðinn og lokaði versluninni. Þau ráku safnið í samstarfi við Reykjavíkurborg og var það opið almenningi til ársins 2008. „Það var umdeilt að borgin kæmi að þessu en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri skildi vanda miðbæjarins og að safnið væri liður í að lífga hann við. Síðustu þrjú árin sem safnið var starfrækt heimsóttu það 70.000 manns.“ Í SAFNI var stór hluti safneignarinnar sýndur en jafnframt voru þar settar upp um 50 nýjar sýningar íslenskra og erlendra listamanna.

Sýningar úr safneign Péturs hafa einnig verið haldnar á öðrum söfnum eins og í Nýlistasafninu, Listasafni Íslands og Listasafni Reykjavíkur. Árið 2014 opnuðu Pétur og Ragna tvö sýningarrými; á Bergstaðastræti 52 í Reykjavík og Levetzowstrasse 16 í Berlín, og voru sýningar haldnar á þessum stöðum í nokkur ár.

Pétur hefur eingöngu safnað nútímaverkum frá 1960. „Maður getur ekki verið í öllu, ég held mikið upp á Kjarval en á ekkert verk eftir hann. Ég á reyndar ekki mörg málverk.“ Hann hefur einnig safnað bókverkum af ástríðu og hefur haldið sýningu á þeim.

Pétur er nýkominn úr Ketildölum í Arnarfirði, þar sem hann keypti eyðibýli og gerði það upp. „Maður er alveg endurnærður eftir að hafa komist út í náttúruna.“

Fjölskylda

Eiginkona Péturs er Ragna Róbertsdóttir, f. 3.4. 1945, myndlistarmaður. Þau gengu í hjónaband 1969. Foreldrar Rögnu voru hjónin Róbert Bjarnason, f. 31.10. 1917, d. 23.7. 2007, þingskrifari og síðar byggingaverkamaður í Reykjavík, og Ingibjörg Veturliðadóttir, f. 14.10. 1912, d. 24.5. 1997, húsfreyja.

Synir Péturs og Rögnu: Pétur Ari, f. 8.1. 1967, d. 15.11. 1967, og Kjartan Ari, f. 11.6. 1972, myndlistarmaður. Dóttir Kjartans og Maríu Rúnarsdóttur, en þau eru skilin, er Ísabella Róbjörg, f. 22.2. 2006.

Bræður Péturs eru Eysteinn Fjölnir Arason, f. 23.4. 1938, fyrrverandi kaupmaður, búsettur á Hvolsvelli, og Jón Arason, f. 15.7. 1947, fyrrverandi verslunarmaður, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Péturs voru hjónin Ari Jónsson, f. 15.10. 1911, d. 6.3. 1969, kaupmaður, og Heiðbjört Pétursdóttir, f. 12.3. 1910, d. 24.3. 1998, húsfreyja. Þau voru búsett í Reykjavík og Kópavogi.