Gómsæt Rauðber eru sæt og safarík og vinsæl til sultugerðar.
Gómsæt Rauðber eru sæt og safarík og vinsæl til sultugerðar.
Rósa Margrét Tryggvadóttir rosa@mbl.is Rauðberjalyng hefur fundist víðar um land en áður en tegundin hefur nú numið land í Munaðarnesi í Borgarfirði og víðar í héraðinu. Þetta kemur fram á vefsíðu Skógræktarinnar.

Rósa Margrét Tryggvadóttir

rosa@mbl.is

Rauðberjalyng hefur fundist víðar um land en áður en tegundin hefur nú numið land í Munaðarnesi í Borgarfirði og víðar í héraðinu. Þetta kemur fram á vefsíðu Skógræktarinnar.

Líklega dreifst með fuglum

Rauðber hafa hingað til fundist aðallega á Austurlandi og við Öxarfjörð og hafa aðeins á síðari árum verið talin til flóru Íslands. Berin eru mjög algeng í Noregi, þar sem þau þekkjast undir nafninu tyttebær, og í Svíþjóð, þar sem þau kallast lingon, en í Skandinavíu hafa berin verið vinsæl til matargerðar. Þetta staðfestir grasafræðingurinn Hörður Kristinsson. Segist hann vita til þess að rauðberjalyng hafi verið gróðursett fyrir nokkrum árum bæði á Suður- og Vesturlandi en telur líklegt að fuglar hafi hjálpað til við dreifingu berjanna.

Hitastig hefur lítil áhrif

Segir hann hitastigið ekki hafa mikil áhrif á berjalyngið; dreifingin skipti mestu og að beit sé ekki of nærgöngul.

„Hitinn kemur til með að hafa áhrif í framtíðinni en það eru ekki mikil áhrif komin fram ennþá. Það tekur langan tíma fyrir plönturnar að breiðast út af þeim ástæðum,“ segir Hörður í samtali við Morgunblaðið. Segir hann að rauðberjalyngið dreifist hægt ef marka megi hversu langur tími líði milli nýrra fundarstaða.

Í lýsingu Harðar á Flóruvefnum kemur fram að rauðberjalyng sé lágvaxinn runni með hvít eða bleikleit blóm sem þroskist í rauð og safarík ber. Þar kemur jafnframt fram að auðvelt sé að rugla saman rauðberjalyngi og sortulyngi sem sé svipað í útliti þrátt fyrir að vera ekki af sömu ættkvísl. Tegundirnar sé auðvelt að þekkja í sundur á bragðinu því að rauðberin séu sæt og safarík en ber sortulyngs beisk og mjölkennd.

Rauðberjasulta verði algengari

Á vef Skógræktarinnar er útbreiðsla rauðberjalyngs talin fagnaðarefni enda auki tegundin fjölbreytni í skógum landsins og fóðri jafnframt fjölbreytilegra fuglalíf. Þar er sagt að fuglarnir ættu að geta dreift rauðberjum æ hraðar eftir því sem þau nemi land víðar.

Rauðber hafa verið algeng til sultugerðar í Noregi og Svíþjóð. Búast má því við að rauðberjasulta verði algengari á borðum Íslendinga í náinni framtíð, dreifist berin víðar um land.