Frábær „Það sem er sérstaklega undarlegt við þessa nýju Hjálma-plötu er að hún skuli ekki vera eiginleg „best-of“-plata, því næstum öll lögin hljóma eins og þau eigi heima á slíkri plötu,“ segir gagnrýnandi um plötu Hjálma sem fær fullt hús stiga, fimm stjörnur af fimm mögulegum, og þykir frábær.
Frábær „Það sem er sérstaklega undarlegt við þessa nýju Hjálma-plötu er að hún skuli ekki vera eiginleg „best-of“-plata, því næstum öll lögin hljóma eins og þau eigi heima á slíkri plötu,“ segir gagnrýnandi um plötu Hjálma sem fær fullt hús stiga, fimm stjörnur af fimm mögulegum, og þykir frábær.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Útgáfuár 2019. 10 lög, 45,31 mínúta. Hjálmar eru Þorsteinn Einarsson, Sigurður Guðmundsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson, Helgi Svavar Helgason og Guðmundur Kristinn Jónsson.

Útgáfuár 2019. 10 lög, 45,31 mínúta. Hjálmar eru Þorsteinn Einarsson, Sigurður Guðmundsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson, Helgi Svavar Helgason og Guðmundur Kristinn Jónsson. Á plötunni koma einnig fram: Samúel Jón Samúelsson á básúnu, Kjartan Hákonarson á trompet og Óskar Guðjónsson á saxófón. Í laginu „Tilvonandi vor“: DJ Flugvél og geimskip, söngur og hljómborð. Hljóðritað, hljómblandað og tónjafnað í Hljóðrita af Guðmundi Kristni Jónssyni og Sigurði Guðmundssyni. Aðstoð við upptökur: Friðjón Jónsson. Blástursútsetningar: Samúel Jón Samúelsson. Upptökustjórn: Guðmundur Kristinn Jónsson og Sigurður Guðmundsson. Myndverk: Kristof Kintera. Hönnun: Svavar Pétur Eysteinsson.

Það eru nokkur ár síðan piltarnir í Hjálmum sendu síðast frá sér breiðskífu en hafa samt unnið sleitulaust að tónlist og sent frá sér lög nær ár hvert. Þeir eiga jafnframt að baki frábæra samvinnu með finnska listamanninum Jimi Tenor sem skilaði sér í afar vönduðu verki, Dub of Doom , árið 2014. Þar að auki hafa liðsmenn Hjálma unnið að plötum og tónleikaferðum Ásgeirs Trausta í nokkur ár svo það hefur síður en svo verið rólegt í þeirra herbúðum. En nú er biðin á enda og komin út tíu laga plata sem inniheldur ný lög í bland við þau lög sem eingöngu voru fáanleg rafrænt áður.

Það sem er sérstaklega undarlegt við þessa nýju Hjálma-plötu er að hún skuli ekki vera eiginleg „best-of“-plata, því næstum öll lögin hljóma eins og þau eigi heima á slíkri plötu. Það er alls ekki alltaf betra að plata sé of grípandi við fyrstu hlustun, því þá eldast lög ekki eins vel, en hér er það fyrst og fremst styrkur. Styrkur Hjálma er lagasmíðarnar, spilamennskan og svo hinn einstaki hljómur bandsins sem nær manni á fyrstu nótum upphafslagsins, „Hvað viltu gera?“, eftir Þorstein Einarsson.

Siggi og Kiddi hafa unnið saman að hljómi sveitarinnar frá því á fyrstu Hjálma-plötunni, Hljóðlega af stað, sem kom út fyrir fimmtán árum. Sú plata var talin hljóma firnavel á sínum tíma og ákvað ég því að bera hana saman við þá nýjustu, mér til gamans. Það er hárrétt að fyrsta Hjálma-platan hljómar vel, en sú nýjasta gersigrar hana samt. Annað væri jú skrýtið, þar sem Kiddi og Siggi hafa, ásamt allri sveitinni, styrkst og þjálfast í hverju því sem kemur að lagasmíðum, upptökum, hljómblöndun og tónjöfnun. Einnig munar mikið um blástursútsetningar Samúels Jóns Samúelssonar og blásturssveitina, sem klæðir lögin í skikkjur og leggur niður hlýjar mottur, rétt eftir því sem við á.

Það er erfitt að nefna til sögunnar lög sem væru raunverulega betri en önnur á plötu eins og þessari, sem er svo vel til þess fallin að hlusta á í einu samhengi. Ég hef líka á tilfinningunni að Hjálma-aðdáendur séu margir og mismunandi og muni því fjöldamörg lög plötunnar lifa áfram, og þó kannski af mismunandi ástæðum. Titillagið, „Allt er ekkert“, er til dæmis ljúft og rómantískt með fögru ástarljóði á meðan æsispennandi og heitur taktur og bakraddir sem minna á Afríkustrendur eru ríkjandi í laginu „Græðgin“, en þar er kominn minn uppáhaldstexti plötunnar, eftir Einar Georg Einarsson.

Þrjú lög og textar eru eftir Sigurð Guðmundsson og öll eru þau hressandi og andrík, hvert á sinn hátt: „Hættur að anda“ inniheldur ljómandi skemmtilegan spilakafla í lok lags þar sem rytmaparið Helgi Svavar Helgason og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson fær aðeins að spreyta sig. „Undir fót“ er skotheldur og dansvænn diskóslagari með yndislegum ádeilutexta, og lokalagið, „Tilvonandi vor“, skartar engri annarri en Steinunni Eldflaug Harðardóttur, sjálfri DJ Flugvél og geimskip, sem tekur bókstaflega á loft með lagið!

Eftir allt of margar hlustanir og samanburðarhlustanir og vangaveltur um eina merkilegustu reggíhljómsveit Íslands, Hjálma, er niðurstaðan sú að ég held að þeir hefðu bara ekki getað gert betri plötu! Skyldueign.

Ragnheiður Eiríksdóttir

Höf.: Ragnheiður Eiríksdóttir