Baksvið
Pétur Hreinsson
peturh@mbl.is
Nokkuð hefur hallað undan fæti hjá fyrirtækjum í veitingarekstri að undanförnu. Í gögnum Creditinfo, sem heldur utan um ársreikningaskil íslenskra fyrirtækja, sést að afkoma fyrirtækja í veitingageiranum hefur farið ört batnandi á síðustu árum en útlit er fyrir að samdráttur hafi orðið í rekstri þeirra á síðasta ári. Fréttaskýring Morgunblaðsins frá 8. ágúst síðastliðnum undirstrikar að hin slæma þróun er enn í fullum gangi. Þar kom fram að 14 veitingahúsum hið minnsta hafi verið lokað í miðborg Reykjavíkur frá sumrinu 2018.
Lakari afkoma
Kári Finnsson, viðskiptastjóri hjá Creditinfo, segir að tölurnar úr ársreikningum fyrirtækja frá 2018 í ISAT-flokkunum „veitingastaðir“ og „krár, kaffihús og dansstaðir“, sem skilað hefur verið á árinu, bendi til þess að afkoman sé á leið niður á við. „Þetta gefur einhverja mynd af því hver stefnan er,“ segir Kári og bætir því við að í lok júlí hafi 177 fyrirtæki skilað ársreikningi fyrir árið 2018 en það eru um 27% fyrirtækja úr fyrrnefndum flokkum sem skiluðu ársreikningi í fyrra.
Meðalhagnaður þessara 177 fyrirtækja fyrir skatta, afskriftir og vaxtagreiðslur (EBITDA) nam rúmlega 18 milljónum króna og lækkaði frá 23,5 milljónum króna árið 2017. Meðalrekstrarhagnaður árið 2018 nam tæpum 14 milljónum króna árið 2018 en um 19 milljónum árið 2017.
Eins og sést á grafinu hér að ofan hefur rekstur þeirra veitingastaða sem skilað hafa ársreikningi fyrir árið 2018 verið afar sveiflukenndur á undanförnum árum. Eftir jákvæða þróun frá árinu 2015 virðist afkoma veitingastaða aftur vera á leið niður á við. Einn mælikvarði á stöðugleika atvinnugreinar er að skoða hlutfall þeirra fyrirtækja sem eru í greininni og teljast til Framúrskarandi fyrirtækja Credtinfo. 865 fyrirtæki voru á þeim lista í fyrra, um 2% virkra fyrirtækja, en aðeins 20 þeirra teljast til ofangreindra ISAT-flokka. Eru það aðeins 2,3% af öllum framúrskarandi fyrirtækjum á landinu.
Kári segir einnig áhugavert að rýna í þróun fjölda veitingastaða á undanförnum árum. 666 fyrirtæki í geiranum skiluðu ársreikningi 2017 en af þeim voru 649 sem störfuðu árið áður.
„Ég hefði búist við því að það væri meira um brottfall og nýliðun í veitingahúsageiranum á milli ára. Að meðaltali hefur verið um 4% brottfall og 9% nýliðun á hverju ári frá 2010. Eins og gögnin sýna eru þetta ekki miklar sveiflur en það verður forvitnilegt að sjá hvernig árin 2018, og sérstaklega árið 2019, þróast.“
Mun sjást vel 2020
„Afkoma veitingageirans er að mörgu leyti tengd afkomu ferðaþjónustunnar og því má ætla að fjölgun og bætt afkoma veitingahúsa sé í takt við fjölgun ferðamanna síðustu ár,“ segir í greiningu Creditinfo. Því má gera ráð fyrir að áhrif af fækkun ferðamanna, sem nam 24% í júní á milli ára, muni sjást skýrar í gögnum Creditinfo um veitingageirann árið 2020 er ársreikningar fyrir árið 2019 berast.
Veitingageirinn
» 2,3% Framúrskarandi fyrirtækja Creditinfo teljast til veitingahúsa, eða 20 af 865.» Tölurnar úr ársreikningum þeirra fyrirtækja sem hafa skilað ársreikningi fyrir árið 2018 benda til þess að afkoman sé að versna á milli ára.