Barátta Ungstirnin Ída Marín Hermannsdóttir og Eygló Þorsteinsdóttir eigast við á Víkingsvelli. Þórdís Elva Ágústsdóttir fylgist vel með gangi mála.
Barátta Ungstirnin Ída Marín Hermannsdóttir og Eygló Þorsteinsdóttir eigast við á Víkingsvelli. Þórdís Elva Ágústsdóttir fylgist vel með gangi mála. — Morgunblaðið/Arnþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Fossvogi Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Fylkiskonur unnu gríðarlega mikilvægan 2:0-sigur gegn HK/Víkingi þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í 14. umferð deildarinnar á Víkingvelli í Fossvogi í gær.

Í Fossvogi

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Fylkiskonur unnu gríðarlega mikilvægan 2:0-sigur gegn HK/Víkingi þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í 14. umferð deildarinnar á Víkingvelli í Fossvogi í gær. Sigur Árbæinga þýðir að nýliðarnir eru svo gott sem öruggir með sæti sitt í efstu deild á næstu leiktíð. Staða HK/Víkings heldur áfram að versna og liðið er nú sex stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Fylkiskonur hafa oft spilað betur en þær gerðu í gær. Árbæingar voru í talsverðum vandræðum með öfluga hápressu HK/Víkings og miðjumönnum liðsins gekk oft á tíðum illa að færa boltann upp völlinn. Eftir að liðið komst hins vegar yfir var í raun aldrei spurning hvorum megin sigurinn dytti. Þá voru miðverðir liðsins, þær Berglind Rós Ágústsdóttir og Kyra Taylor, mjög öflugar í öftustu línu og gáfu engin færi á sér. Þær eru orðnar eitt öflugasta miðvarðapar deildarinnar, þrátt fyrir að vera báðar miðjumenn að upplagi.

HK/Víkingur fékk fyrsta færi leiksins þegar Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir þrumaði í stöng fyrir nánast opnu marki. Leikurinn hefði getað þróast öðruvísi ef Svanhildur hefði skorað en eins og svo oft áður í sumar var þetta stöngin út. Þá sátu alltaf fimm leikmenn til baka hjá liðinu, allan leikinn, sem var óskiljanlegt enda þurfti liðið á þremur stigum að halda. Að sama skapi var HK/Víkingsliðið að vinna með löng innköst en það voru aldrei fleiri en tveir leikmenn liðsins mættir inn í teig til að taka á móti boltanum.

Fylkiskonur voru að vinna sinn fimmta leik í röð í deildinni og Kjartan Stefánsson hlýtur að koma til greina sem einn af þjálfurum ársins fyrir það eitt að ná að halda þessu unga og efnilega liði uppi í efstu deild. Að sama skapa hafa þjálfaraskiptin hjá HK/Víkingi ekki gert neitt fyrir liðið. Liðið er lélegra eftir að Þórhallur Víkingsson var rekinn og leikplanið er undarlegt. Þú liggur ekki til baka í stöðunni 2:0-undir, þegar þú ert í neðsta sæti deildarinnar.

HK/VÍKINGUR – FYLKIR0:2

0:1 Marija Radojicic 28.

0:2 Bryndís Arna Níelsdóttir 65.

Gul spjöld

Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir, Eygló Þorsteinsdóttir (HK/Víkingi), Marija Radojicic (Fylki).

Dómari : Helgi Ólafsson, 6.

Áhorfendur : Á að giska 210.

MM

Margrét Björg Ástvaldsóttir (Fylki)

M

Berglind Rós Ágústsdóttir (Fylki) Kyra Taylor (Fylki)

María Björg Fjölnisdóttir (Fylki) Marija Radojicic (Fylki)

Bryndís Anna Níelsdóttir (Fylki)

Gígja Valgerður Harðardóttir (HK/Víkingi) Hugrún María Friðriksdóttir (HK/Víkingi)

Karólína Jack (HK/Víkingi) Eygló Þorsteinsdóttir (HK/Víkingi)