Arnar Pálmason fæddist 17. ágúst 1986. Hann lést 7. ágúst 2019.

Útför Arnars fór fram 16. ágúst 2019.

Ég man vel hringinguna frá Þorsteini lækni 19. mars 2009: „Sæll Halldór – það er Arnar frændi þinn! Ég var að ómskoða lifrina hans vegna hækkaðra lifrarprófa; þar er dökkur blettur sem á sneiðmynd lítur út eins og æxli.“ Arnar fór svo í umfangsmikla aðgerð hjá Sigurði lifrarskurðlækni; hann kvaðst hafa komist fyrir æxlið, sem væri af mjög sjaldgæfri tegund. „Það er bara heiður að vera einn af þessum fáu,“ sagði þá Arnar. Daginn eftir spurði ég: „Hvernig hefurðu það Arnar minn?“ „Bara fínt, en þú sjálfur?“ Við tók eftirlit og var niðurstaðan alltaf jafn gleðileg þar til 28. mars 2014, að blettur sást uppi í brjóstholi og staðfesti sýnataka dótturæxli. Þegar ég tjáði Arnari að Bjarni brjóstholsskurðlæknir ætlaði að fjarlægja það 5. maí – hann yrði þá opnaður eins og húddlok á bíl – var svarið:

„Þetta hljómar bara spennandi, frændi!“ Aftur náðist allt æxlið burt og ég gat sagt Arnari að hann væri jafn fallegur að innan sem utan. Öðru sinni brostum við breitt og allt leit vel út þar til 21. október 2015 að nokkrir pínulitlir blettir sáust í lungunum. Málið var sent til sérfræðiteymis og Arnar hitti Örvar krabbameinssérfræðing 3. nóvember. Þetta var ekkert venjulegt viðtal – heldur eins og tveir vinir að hittast eftir langa fjarveru.

Arnar sagðist hafa þau forréttindi að vera með mjög fágætt æxli – að öðru leyti liði sér vel. Niðurstaðan var að bíða og sjá hvað komandi rannsóknir leiddu í ljós. Leitað var álits Kristbjarnar röntgensérfræðings á að brenna hnútana og 28. apríl 2016 var ráðist í fyrri aðgerðina af tveimur. Arnar fylgdist með á skjánum: „Þvílík tækni, frændi, ég fann ekki neitt!“ Við eftirlit 20. janúar 2017 var ákveðið að byrja með lyf. Arnar var með eindæmum jákvæður að prófa eitt lyfið eftir annað: „Mér finnst sjálfsagt að auka á þekkingu vísindanna fyrir verkun þeirra og aukaverkunum, það munar um þessa vitneskju í framtíðinni!“ Líkami hans hafnaði fljótt þeim lyfjum sem talin voru bezt hverju sinni. Tekin var hvíld 26. júní 2018 og tíminn látinn hafa sinn gang. Þann 29. ágúst fékk Arnar háan hita og verk í olnbogann. Sýkingu var hleypt út og ekki mátti tæpara standa, því á næstu mínútum fékk hann sýklasótt og sjokk. Eftir gjörgæslumeðferð reif hann sig á fætur; „Þetta stóð tæpt, frændi!“ Þann 7. júní sl. var kominn mikill vökvi í vinstra brjóstholið sem búið var að tappa af áður – nú var sett slanga til að skapa sírennsli. Í kjölfar hennar kom svæsin sýking í brjóstholið með fjölkerfabilun sem ekki varð við ráðið og lagði hann að velli.

Það sem einkenndi Arnar í þessi 10 ár var einstakt æðruleysi hans yfir veikindum sínum og sú hugsjón að miðla af reynslu sinni til vísindanna sem kæmi öðrum til góða. Hann talaði í lausnum um vandamál, bar meiri umhyggju fyrir öðrum en sjálfum sér og uppörvaði þá sem í kringum hann voru. Ég kveð kæran frænda með djúpum söknuði og þakklæti fyrir allt sem hann kenndi okkur – megi viðhorf hans verða okkur að leiðarljósi. Við María og fjölskylda vottum Kristínu, sonum, foreldrum og ættingjum innilegustu samúð.

Halldór frændi

og fjölskylda.

Að eignast vin er ekki sjálfgefið.

Ég var svo heppin að kynnast Arnari fyrir nokkrum árum. Með okkur tókst vinátta sem er mér svo ómetanlega dýrmæt. Arnar var einstakur maður, ég á ekki til orð sem lýsa honum því hann var svo miklu meira en orðin ná yfir. Við áttum ófá samtöl þar sem við ræddum um bernskuna, flugvélar, ferðir, tónlist og allt á milli himins og jarðar. Við gleymdum okkur oft í samræðunum og stundum heyrðum við sagt, jæja, þá vissum við að það var mál tilkomið að hætta. Ég varðveiti allar þær stundir í hjarta mínu.

Arnari var margt til lista lagt, þar á meðal að baka. Ég man þegar ég heimsótti hann í desember, þá var hann að baka marsípankökur, ég hugsaði með mér, það er ekkert sem hann getur ekki gert. Þannig var það, það lék allt í höndunum á honum.

Umhyggja Arnars fyrir öðrum var aðdáunarverð. Ef hann vissi að hann gæti lagt hönd á plóginn var hann mættur og ef hann gat gert hlutina í dag frestaði hann þeim ekki til morguns.

Arnar kenndi mér margt þrátt fyrir ungan aldur. Fyrir það verð ég honum ævinlega þakklát.

Hver minning dýrmæt perla að

liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Kristín mín, synir og fjölskylda, megi góður Guð umvefja ykkur, leiða og styrkja í sorg ykkar.

Kæri vinur ég þakka þér af einlægni yndislega vináttu þína.

Minning þín er ljós í lífi mínu.

Anna Hjördís.

Arnar Pálmason var einn sá ljúfasti, yndislegasti maður sem ég hef kynnst. Nærvera hans var einstök. Ljúf og þægileg framkoma hans og virðing gagnvart öllum var öðrum til eftirbreytni. Það var svo gott og gaman að hitta hann, alltaf stutt í húmorinn og léttleikann þrátt fyrir þessi erfiðu veikindi og allt sem var búið að ganga á. Arnar kenndi okkur svo margt um lífið og tilveruna. Það er erfitt að finna réttu orðin á stundu sem þessari en efst í huga mínum er þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast þessum ljúfa manni sem var svo góður við konuna sína, börnin sín og ættingja og vini. Hann átti svo margt eftir, enda styrkurinn sem hann sýndi þegar hann átti góðan tíma í veikindunum einstakur, þá fóru þau hjónin með strákana um allt. Hann elskaði Ísafjörðinn sinn og endurnærðist í hvert sinn sem þau fóru þangað að hitta afa og ömmu, foreldra og vini. Hann var mikill útivistarmaður, elskaði fjöll og náttúruna. Það er búið að vera aðdáunarvert að fylgjast með samheldni Arnars og Kristínar. Samband þeirra var einstakt, uppfullt af ást, kærleika, vináttu og virðingu. Elsku Kristín mín, kletturinn í hans lífi sem vék ekki frá honum, var með allt á hreinu varðandi allt sem þurfti að gera. Styrkur hennar, kraftur og jákvæðni á sér enga hliðstæðu, það var einstakt að fylgjast með þeim. Það er mikið búið að leggja á ungu hjónin og elsku drengina þeirra, Ólaf Erni og Einar Atla, en minningin um yndislegan mann með stóra hjartað mun lifa í þeim að eilífu.

Elsku Kristín mín, Ólafur Ernir, Einar Atli og aðrir ættingjar og vinir, megi allar góðar vættir vernda ykkur og styrkja í þessari miklu sorg.

Erla Ólafsdóttir.

Hans hlátur, hans bros og bragur

var öllum sem hann þekktu svo kær

hann var þeim einlægur vinur

og stóð þeim alltaf nær.

(Katrín Ruth)

Það voru forréttindi að hafa fengið að kynnast og hafa Arnar, pabba hér í leikskólanum okkar. Minning hans lifir hjá okkur. Við þökkum þér vinur fyrir allt og allt.

Elsku Kristín, Ólafur Ernir og Einar Atli þið eruð ávallt í huga okkar og hjörtum.

Fyrir hönd starfsfólks Álftaborgar,

Anna Hjördís Ágústsdóttir.