Ævar Ármannsson fæddist á Stöðvarfirði 2. október 1958. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði 31. júlí 2019.

Foreldrar hans voru Jóhanna Sólmundsdóttir, fædd í Laufási á Stöðvarfirði 19. ágúst 1932, og Ármann Jóhannsson, fæddur á Kirkjubóli í Fáskrúðsfirði 1. ágúst 1928.

Systkini Ævars: Ómar Ármannsson, f. 4.9. 1956, Óttar Ármannsson, f. 25.8. 1957, Örvar Ármannsson, f. 1.3. 1962, Guðrún Ármannsdóttir, f. 19.6. 1963, Ásdís Ármannsdóttir, f. 23.5. 1967, Hlynur Ármannsson, f. 26.1. 1975.

Á tvítugasta aldursári hóf Ævar sambúð með Helenu B. Hannesdóttur og kvæntist henni árið 1986. Þau byggðu sér hús að Borgargerði 2 á Stöðvarfirði og bjuggu þar þangað til Ævar lést.

Fyrir utan fjögur fyrstu æviárin á Fáskrúðsfirði ólst Ævar upp á Stöðvarfirði. Að loknum barnaskóla lá leiðin í Alþýðuskólann á Eiðum, þar sem hann var við nám í tvo vetur. Að því loknu tók við einn vetur í Menntaskólanum á Akureyri. Ævar fór á samning hjá Ágústi Sörlasyni húsasmíðameistara á Stöðvarfirði og lauk námi í húsasmíði við Iðnskólann í Reykjavík. Árið 2002 fékk hann svo löggildingu sem húsasmíðameistari. Ævar starfaði sem húsasmíðameistari á Stöðvarfirði til dánardægurs auk þess sem hann gerði út línu- og handfærabáta í nokkur ár. Hann og Helena kona hans áttu meirihluta í og ráku gistihúsið Söxu á Stöðvarfirði frá 2010 til 2019. Ævar var virkur í sveitastjórn Stöðvarfjarðar og seinna Austurbyggðar og sinnti nefndarstörfum fyrir Fjarðabyggð síðustu árin fyrir ævilokin. Hann kom að smíði og endurbótum margra bygginga á Stöðvarfirði og í nágrannabyggðum.

Ævar var víðlesinn og átti mikið safn bóka af ýmsu tagi. Hann lagði mikla rækt við veiðar, einkum lax- og silungsveiðar. Á yngri árum æfði hann knattspyrnu og var í vörninni hjá knattspyrnuliði Súlunnar í yfir áratug. Þá vann hann til margra verðlauna hjá Bridgesambandi Austurlands og víðar.

Útför Ævars fer fram frá Stöðvarfjarðarkirkju í dag, 17. ágúst 2019, klukkan 14.

Ég man vel eftir Ævari frá uppvaxtarárum hans, þrátt fyrir að verulegur aldursmunur væri á okkur. Hann varð fljótt kræfur fiskimaður og um afburðahæfileika hans við stangveiði síðar meir mætti hafa mörg orð. Hann undi sér vel við leiki með félögum og vinum en gat samt verið einrænn og dreyminn, líklega undir áhrifum frá bókum, sem hann sótti snemma í, enda hentaði það lunderni hans vel að gleyma sér með bók við hönd.

Eitt sinn sagði Ævar mér frá því að hann hefði mjög ungur að árum stolizt að heiman til fjalla í því skyni að kanna fjalllendið ofan við þorpið að leita merkja um ránsferðir Tyrkja um fjörðinn, samanber örnefnið Tyrkjaurð undir svonefndu Stórkeraldi. Hann komst að urðinni og byrjaði að fikra sig upp. Skjótt var hann kominn upp í neðsta hluta Stórkeraldsins en treysti sér ekki niður gjótuna aftur. Var þá fátt til ráða. Hann þarna staddur án þess að nokkur vissi um ferðir hans og við blöstu illfærir hamrar fyrir ofan. Ekki var annað til ráða en að fikra sig upp á við. Upp komst þessi smái en knái snáði og hélt stoltur til byggða. Hann kvaðst þó ekki hafa haldið afreki sínu á lofti af ótta við að fá bágt fyrir.

Ævar er í hópi eftirminnilegra nemenda frá kennaraferli mínum á Stöðvarfirði. Hann var afburða námsmaður eins og þau systkini öll en skorti þó stundum metnað hinna. Öflugur varð hann fljótt í íþróttum, bæði hinum vinsæla skotbolta og einnig knattspyrnu. Í þeirri íþróttagrein gekk hann fram af krafti og tók þátt í að skapa hið öfluga lið Umf. Súlunnar. Á þeim árum má segja að hálft liðið hafi verið „Logalandsættin“, þ.e. þeir bræður og mágur þeirra.

Eins og títt er um ungt fólk getur það verið óráðið um hvað það ætlar að taka sér fyrir hendur á lífsleiðinni. Ævar réðst ungur til starfa hjá húsasmíðameistara sem þá bjó á Stöðvarfirði og fljótlega lá fyrir að hann lærði til verka í þeirri iðngrein. Meðal verkefna hans í heimabyggð voru viðbygging Grunnskólans og nýbygging Stöðvarfjarðarkirkju í upphafi síðasta áratugar liðinnar aldar. Reyndi þar bæði á útsjónarsemi hans og verkkunnáttu.

Við Ævar áttum farsælt samstarf að sveitarstjórnarmálum meðan báðir bjuggu á staðnum. Hið sama gilti um stjórnarsetu okkar í stærsta atvinnufyrirtækinu þar.

Ævar hélt ótrauður áfram að vinna byggðarlaginu vel eftir að Stöðfirðingar sameinuðust öðru og síðar öðrum byggðarlögum. Þeim þætti í starfsævi hans munu aðrir gera skil.

Ævar fór ungur að spila bridds og vorum við oft félagar við græna borðið, m.a. nokkra undanfarna mánuði. Þegar vel gekk brosti hann gjarnan, hógvær á svip, en stundum sauð á keipum.

Hið vinalega bros, sem náði einnig til fagurra augna hans, sýndi hann mér í þau skipti sem ég heimsótti hann á Hjúkrunarheimilið Uppsali. Þar náðum við að fara saman yfir gamlar minningar og rifja upp áratuga langt samstarf okkar. Þannig kýs ég að muna þennan góða vin og félaga.

Um leið og við hjónin þökkum góð og ánægjuleg kynni sendum við eiginkonu hans, systkinum og öllum vinum þeirra samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Ævars Ármannssonar.

Björn Hafþór Guðm. mbl.is/minningar

Góður vinur og félagi, Ævar Ármannsson, er fallinn frá langt um aldur fram.

Viljum við með nokkrum orðum minnast Ævars.

Þá fyrst og fremst lýsa þakklæti fyrir að hafa átt með honum samleið á vettvangi sveitarstjórnamála með Fjarðalistanum um árabil. Samstarfið með honum var einkar ánægjulegt og lærdómsríkt. Ævar var mikill talsmaður jafnréttis-, velferðar- og atvinnumála hér í samfélaginu fyrir austan og alltaf tilbúinn að ræða málin með festu og heiðarleika að leiðarljósi.

Við minnumst hans með hlýju og söknuði.

Við sendum eiginkonu Ævars og fjölskyldu okkar innilegustu samúð á erfiðum tímum.

Fyrir hönd Fjarðalistans,

Eydís Ásbjörnsdóttir.