Halla Bergþóra vill að þjóðfélagið fari að hugsa betur um ungt fólk sem á í fíkniefnavanda og er jafnvel líka með geðsjúkdóma, en það fólk gistir oft fangaklefa þar sem það á ekki heima. Henni er umhugað um fólk í viðkvæmri stöðu.
Halla Bergþóra vill að þjóðfélagið fari að hugsa betur um ungt fólk sem á í fíkniefnavanda og er jafnvel líka með geðsjúkdóma, en það fólk gistir oft fangaklefa þar sem það á ekki heima. Henni er umhugað um fólk í viðkvæmri stöðu. — Morgunblaðið/Ásdís
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is Á Norðurlandi eystra hefur Halla Bergþóra Björnsdóttir gegnt stöðu lögreglustjórans síðan í ársbyrjun 2015. Hún hefur unnið ötullega í málefnum fólks sem orðið hefur fyrir heimilisofbeldi og var nýlega opnuð þar miðstöð fyrir þolendur. Halla nýtur sín vel í starfi enda hefur hún brennandi áhuga á löggæslumálum. Hún segir lögreglu eiga fyrst og fremst að þjóna almenningi, tryggja öryggi og hjálpa fólki í viðkvæmri stöðu.

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Á Norðurlandi eystra hefur Halla Bergþóra Björnsdóttir gegnt stöðu lögreglustjórans síðan í ársbyrjun 2015. Hún hefur unnið ötullega í málefnum fólks sem orðið hefur fyrir heimilisofbeldi og var nýlega opnuð þar miðstöð fyrir þolendur. Halla nýtur sín vel í starfi enda hefur hún brennandi áhuga á löggæslumálum. Hún segir lögreglu eiga fyrst og fremst að þjóna almenningi, tryggja öryggi og hjálpa fólki í viðkvæmri stöðu.

Það er notalegt að koma inn í eldhúsið heima hjá lögreglustjóranum á Akureyri. Halla Bergþóra Björnsdóttir býður upp á kaffi og eðalkonfekt frá Vínarborg sem er kærkomið eftir bílferðina norður til Akureyrar. Sólin skín norðan heiða þennan fína sumardag á umdæmið hennar Höllu, en það er reyndar geysistórt og nær lengst inn á hálendi. Halla er nýorðin fimmtug og er á hátindi ferilsins en hún hefur komið víða við á leið sinni í lögreglustjórastólinn. Sveitastúlkan frá Laxamýri er aftur komin heim á æskuslóðir, svo að segja, eftir áratugi í höfuðborginni.

Við hefjum spjallið á æskuárunum í sveitinni fyrir norðan.

Sveitastúlkan í borginni

„Ég er frá Laxamýri í Suður-Þingeyjarsýslu og ólst þar upp,“ segir Halla. „Þarna var félagsbú bræðra; pabbi var með kýrnar og bróðir hans með kindurnar. Ég var mikið með pabba í fjósinu og vann sveitastörf frá því að ég man eftir mér,“ segir Halla en á Laxamýri búa enn móðir hennar og bróðir sem er forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

„Ég fékk mjög gott uppeldi og það var yndislegt að alast upp í sveit.“

Halla sleit þarna barnsskónum; gekk í sveitaskólann Hafralækjarskóla og skóla á Húsavík og endaði svo í Menntaskólanum við Sund. Það má því segja að hún hafi flutt að heiman sextán ára.

„Þá sá maður hversu mikill lúxus það var að búa í foreldrahúsum; þarna þurfti ég að leigja íbúð og kaupa í matinn en þetta var auðvitað góður skóli og á meðan vinkonurnar fóru til Ibiza á sumrin þurfti ég að fara heim í sveitina að vinna til að eiga fyrir leigunni næsta vetur,“ segir hún og bætir við að sunnlensku krakkarnir hafi tekið sér vel.

„Þau sáu auðvitað að ég var sveitastelpa og fannst ég heldur róleg til að byrja með. En það átti eftir að breytast.“

Fyrsta kvenlöggan á Húsavík

Eftir menntaskólann ákvað Halla að taka sér ársleyfi frá námi og fór að vinna hjá Alþýðublaðinu og Pressunni. „Ég var í öllu; á símanum, útbúa reikninga, sjá um blaðburðarfólkið og skrifa smávegis um hvað væri á döfinni um helgina. Þetta var mjög skemmtilegur vetur,“ segir hún en segist samt sem áður ekki hafa viljað halda áfram á fjölmiðlabrautinni.

„Ég var búin að ákveða að verða annaðhvort ljósmóðir eða lögfræðingur. Það er ekki mjög líkt,“ segir hún og hlær.

„Ég valdi lögfræðina og ég held það hafi verið vegna réttlætiskenndar. Í menntaskóla hafði ég tekið lögfræði í valáfanga og fannst það skemmtilegt,“ segir Halla sem hóf nám í lögfræði eftir árið í fjölmiðlum.

Þegar kom að sumarvinnu leitaði hugurinn norður.

„Ég sótti um að leysa af í lögreglunni á Húsavík og var þá fyrsta konan sem vann sem lögreglumaður þar í bæ. Ég var þar í þrjú sumur í afleysingum og var almennt tekið mjög vel. Það var kannski einn og einn í samfélaginu sem fannst ég ekki eiga heima þarna sem kona,“ segir hún og hlær.

„Ég var til dæmis spurð hvernig ég sem kona ætti að ráða við drukkna menn.“

Halla segist hafa lært mikið þessi sumur í lögreglunni og greinilegt að áhuginn á löggæslu var kviknaður.

„Það var mjög þroskandi og margt sem kom á óvart. Það var mikið að gera enda stórt umdæmi. Ég lenti í öllu; umferðarslysum, heimilisofbeldi og slagsmálum. Svo auðvitað að aðstoða fólk,“ segir hún og segir starfið hafa heillað sig.

„Það er svo margt gott sem gerist í leiðinni og maður finnur tilgang með starfinu. Lögreglustarfið er mjög mannlegt starf,“ segir Halla.

Heilsar góðkunningjum í bíó

Eftir lögfræðinámið vann Halla einn vetur hjá sýslumanninum í Reykjavík og síðar á Húsavík þar sem hún sá um lögreglu- og ákærumál. Þaðan flutti Halla til Svíþjóðar þar sem hún nam Evrópurétt því hugurinn stóð til vinnu í ráðuneyti. Hún kom heim úr meistaranáminu árið 1999 og ári síðar kynnist Halla eiginmanni sínum, Kjartani Jónssyni rafmagnsiðnfræðingi, og eiga þau tvö börn á unglingsaldri. Undarlegt nokk var eiginmaðurinn úr sama landshluta og Halla.

„Hann er frá Húsavík. Ég þekkti hann aðeins áður en ekki mikið en við vorum aldrei saman í skóla sem börn eða unglingar. Ég hitti hann fyrst í gönguferð í Kverkfjöllum,“ segir hún og segir þau fyrst hafa verið í fjarsambandi þar sem hún bjó í höfuðborginni en hann fyrir norðan.

Eftir námið í Svíþjóð vann Halla um stund á lögmannsstofu en fór þaðan í dómsmálaráðuneytið.

„Ég byrjaði í einkamálunum og hélt utan um ættleiðingar- og fjölskyldumál. Svo fór ég yfir á löggæsluskrifstofuna og var þá með löggæslu- og fangelsismál, auk starfsmannamála ráðuneytisins. Það var mjög góð reynsla og svo var mikið um vinnufundi erlendis í samstarfi við lögreglu í Evrópu,“ segir hún en þarna vann hún í sjö ár.

Gekkstu með lögreglustjóradrauma í maganum?

„Nei, ekki beint þá en mig langaði að verða sýslumaður. Svo í hruninu, árið 2009, þegar var stofnað embætti sérstaks saksóknara, fór Ólafur Hauksson, sem hafði verið sýslumaður á Akranesi, í það embætti og ég var sett til bráðabirgða í sýslumannsembættið þar, sem var þá líka lögreglustjóraembættið,“ segir Halla og gegndi hún því starfi í sex ár.

„Ég bjó samt áfram í Reykjavík og keyrði á milli. Mætti Ólafi í göngunum,“ segir hún og hlær.

Halla naut sín vel á Akranesi og kynntist starfi sýslumanns og lögreglustjóra.

„Þetta var frábær tími. Það var mjög gaman að vera á Akranesi en ég hafði eiginlega aldrei farið þangað áður. Þar er indælt fólk, upp til hópa, en svo þekkti maður líka góðkunningjana. Ég var með öll ákærumálin þannig að ég þekkti þá menn ágætlega. Ef ég fór í bíó var ég stundum að heilsa ungum strákum og átti erfitt með að segja manninum mínum hvernig ég þekkti þessa ungu menn, enda bundin trúnaði,“ segir hún og hlær.

„Það er dálítið skrítið að þótt maður sé að ákæra menn þá heilsa þeir manni oftast mjög almennilega.“

Að fara í mál við yfirmanninn

„Á þessum tíma sótti ég um sýslumannsembættið á Húsavík en fékk ekki. Ég fór í mál og það fór fyrir kærunefnd jafnréttismála og ég vann málið. Það var karlmaður sem sótti á móti en sá var þá settur sýslumaður þar. Það var hringt í mig og ég spurð hvort ég væri ekki til í að afturkalla umsóknina af því fólki fannst það einfaldast. En ég vildi það ekki. Hann hélt starfinu en ég fékk einhverjar miskabætur. Þetta voru í raun engar bætur, en fyrir mér var þetta meira prinsippmál,“ segir hún og segir þetta hafa tekið á.

„Það var erfitt að þurfa að fara í mál við yfirmann minn hjá dómsmálaráðuneytinu, Ögmund Jónasson, af því ég var holl mínum vinnuveitendum. Hann hafði skipað í embættið, þannig að það var frekar skrítið,“ segir Halla og bætir við að klárt mál hafi verið að hún hafi verið hæfari umsækjandinn.

„Rétt skal vera rétt. Þetta var góð lífsreynsla og þroskandi. En ég upplifði aldrei neina reiði og ég fann fyrir miklum stuðningi. En sumir nefndu við mig hvort ég þyrfti nokkuð að vera með þetta vesen,“ segir hún og hlær.

Þrjátíu þúsund manna umdæmi

Fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar í löggæslumálum á Íslandi og sýslumanna- og lögreglustjóraembættin aðskilin.

„Umdæmin voru stækkuð, eins og hér fyrir norðan, og ráðinn einn sýslumaður og einn lögreglustjóri. Þannig var það að þeir sem voru sýslumenn og lögreglustjórar máttu sækja um störfin og ég sótti um hér sem fyrsta val. Mig langaði frekar að vera lögreglustjóri en sýslumaður; ég var búin að gera það upp við mig að ég hafði meiri áhuga á löggæslumálum,“ segir Halla, sem fékk þá starf lögreglustjórans á Norðurlandi eystra og flutti með fjölskylduna til Akureyrar.

„Ég hafði aldrei búið hér og þekkti mjög fáa. Það var mjög ljúft að koma hingað. Það er veðursæld hér og oft logn; það er mun vindasamara í Þingeyjarsýslu. Akureyri er mjög vinalegur og góður bær sem tekur vel utan um fólk.“

Halla segist hafa kynnst góðu fólki á Akureyri þótt klárlega vilji ekki allir eiga lögreglustjórann að besta vini.

„Ég er auðvitað búin að búa í Reykjavík síðan ég var sextán og maður finnur að þar er maður með rætur. Það kom eiginlega á óvart þegar ég flutti norður að finna það, af því ég er auðvitað að norðan. Ég hélt það yrði lítið mál en ég fann að þetta voru smá viðbrigði. En ég er fyrst og fremst Laxmýringur,“ segir Halla og brosir.

Eins og fyrr segir stækkaði umdæmi lögreglunnar til muna um það leyti sem Halla tók við sem lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.

„Áður fyrr náði löggæslan hér yfir Siglufjörð, Dalvík og Akureyri en við breytinguna bættist við Þingeyjarsýslan, bæði suður og norður, þannig að nú nær umdæmið allt frá Siglufirði til Bakkafjarðar auk mikils hálendis. Þetta er næststærsta umdæmið hvað flatarmál snertir,“ segir Halla og segir að á svæðinu búi um þrjátíu þúsund manns.

Að ná til þolenda ofbeldis

Hvaða vandamál fyrirfinnast hér?

„Það eru nákvæmlega sömu vandamál og í höfðuborginni, bara í minna mæli. Allt sem fylgir mannlegri hegðun. Líkamsárásir, kynferðisbrot, fíkniefnamál og heimilisofbeldi. Samfélagið hér er minna og hvað varðar heimilisofbeldi þá held ég að fólk sæki sér síður hjálp,“ segir Halla og segir ekki hafa gengið nægilega vel að ná til þessara þolenda.

„Við vorum að opna Bjarmahlíð núna í apríl, sem er miðstöð fyrir þolendur ofbeldis, og erum að vonast til að ná til fólks, en það gæti tekið tíma. Bjarmahlíð er byggð að bandarískri fyrirmynd en ég hef lengi velt fyrir mér hvernig við gætum mætt þessari þörf. Ég vil ná til fólks í viðkvæmri stöðu,“ segir Halla og segist hafa lagt áherslu á þessi málefni síðan hún tók við. Bjarmahlíð er samstarfverkefni margra aðila; ríkisstofnana, ráðuneyta, sveitarfélags og frjálsra félagasamtaka. Þetta verkefni sýnir að þegar aðilar sameina krafta sína er hægt að gera svo miklu meira og betur fyrir þá sem á þurfa að halda.

„Margir eiga erfitt með að ganga inn á lögreglustöð og við sjáum fólk koma í Bjarmahlíð sem hefði kannski aldrei komið til okkar,“ segir hún.

„Svo þurfum við að fara að hugsa betur um ungt fólk sem á í fíkniefnavanda og er jafnvel líka með geðsjúkdóma. Við erum dálítið aftarlega á merinni hérna á Íslandi varðandi þessi mál og margir að hugsa um að það þurfi að gera betur. Það eru of fá almennileg úrræði hér en oft endar fólk í þessum vanda í klefa hjá okkur þar sem við teljum að það eigi ekki heima. Við erum byrjuð að skoða hugmyndir um hvað sé hægt að gera. Sjúkrahúsið hér á Akureyri er ekki með lokaða öryggisdeild til að hýsa fólk sem er hættulegt sjálfu sér og öðrum og þarf þá að senda það suður. Fólk þarf þá að bíða hjá okkur og sama gildir um ungt fólk í fíknivanda,“ segir Halla og nefnir að í Bretlandi hafi mikið áunnist í þessum málum og vill hún gjarnan koma á verklagi sem virkar.

„Í Bretlandi voru þau í sömu aðstöðu og við; að vera með fólk í klefunum sem átti ekki heima þar. Þar var tekin ákvörðun um að þrjátíu mínútum eftir að lögreglan tekur andlega veikan einstakling, eða einhvern í viðkvæmri stöðu vegna fíkniefnavanda, á heilbrigðiskerfið að taka við honum. Þar voru sköpuð úrræði, en við erum auðvitað fá og þetta eru dýr úrræði. Það eru allir sammála um að bæta þetta.“

Aldrei dauð stund

Halla hefur nú gegnt embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra frá 1. janúar 2015. Um sextíu manns vinna hjá embættinu og þar af eru rúmlega fimmtíu lögregluþjónar, langflestir þeirra karlar.

„Fyrst þegar ég kom hingað voru mjög fáar konur í lögreglunni en þeim hefur mikið verið að fjölga. Nú í fyrsta skipti í september verður kona í rannsóknardeildinni hjá okkur og við erum að tala um árið 2019,“ segir Halla.

Sjálf segist hún aldrei hafa fundið fyrir því að fólki finnist eitthvað athugavert við það að kona sé í stöðu lögreglustjórans og finnur aðeins fyrir velvild og virðingu.

Hvernig er vinnudagur lögreglustjórans á Akureyri?

„Ég mæti og kanna hvað hefur verið að gerast daginn áður eða helgina áður. Svo er fundað og fjöldinn allur af tölvupóstum sem þarf að svara. Við höfum engan starfsmannastjóra þannig að ég sé um alls kyns málefni varðandi starfsfólkið, ásamt öðrum. Umdæmið er stórt þannig að ég fer reglulega til Húsavíkur og heimsæki lögregluna þar og á fleiri stöðum. Oft fer ég suður á samráðsfundi og svo er líka mikil vinna í sambandi við tilraunaverkefni, eins og með miðstöðina Bjarmahlíð. Það er oft mjög mikið álag og áreiti, allan sólarhringinn. Starfið er mjög fjölbreytt og aldrei dauð stund. Svo eru þúsund símtöl,“ segir hún og hlær.

„Nýlega var opnað útibú Barnahúss hér á Akureyri. Það er mjög gaman að taka þátt í svona verkefnum,“ segir Halla.

„Ég er líka að fara að berjast fyrir því að fá viðbyggingu við lögreglustöðina á Akureyri, hún er alltof lítil, enda byggð í kringum 1960. Það er mjög þröngt um okkur. Þá er mikilvægt að efla og fjölga lögreglumönnum hjá almennu deildinni og held ég að það þurfi ekki bara í mínu umdæmi heldur meira og minna á öllu landinu. Ég þarf að tala við fjármálaráðherra.“

Spurð um erfiðustu mál sem koma inn á borð lögreglustjórans svarar Halla: „Mér finnst alltaf erfiðust málin sem tengjast börnum.“

Viljum þjónusta fólk

Eftir að Halla tók við hafa verið settar upp eftirlitsmyndavélar á Akureyri sem hafa komið að góðum notum. Nefnir hún dæmi þar sem tveir ungir bræður týndust og var þá hægt að rekja ferðir þeirra með því að skoða myndbönd úr vélunum. Eins koma þær að gagni þegar glæpagengi mæta í bæinn, en auk þess hafa þær forvarnargildi.

„Nú hugsa ég að hinir bæirnir skoði þetta, eins og Siglufjörður, Dalvík og Húsavík. Nýlega opnuðum við nýja aðgerðarstjórn í almannavörnum hér á Akureyri; þar eru stórir skjáir og þar er hægt að koma saman ef eitthvað stórt gerist. Þetta er mikilvægt samvinnuverkefni okkar og sveitarstjórnanna hér í kring,“ segir Halla og augljóst er að hún hefur sett sitt mark á umdæmið eftir að hún tók við embættinu.

„Það er heilmikið búið að gerast hér eftir að ég tók við. Það er svo margt hægt að gera ef maður hefur svona mikinn áhuga á öllu sem tengist löggæslu. Til að ná árangri er mikilvægt að hafa gott og hæft starfsfólk en einnig að vera í góðu samstarfi almennt. Ég bý svo vel að það er til staðar.“

Almannavarnamál eru einnig á könnu lögreglunnar á Norðurlandi eystra og eftirlit með hálendinu.

„Þegar ég byrjaði hér var eldgos í Holuhrauni. Það voru þá margir sem spáðu í hvernig myndi takast að sameina lögregluna í Þingeyjarsýslu og lögregluna í Eyjafirði af því að í gamla daga var rígur á milli þessara sýslna. En það gekk mjög vel því eldgosið sameinaði fólk; það þurfti alltaf að vera vakt við Holuhraun. Tveir og tveir lögreglumenn voru saman í kofa við gosið í viku í senn,“ segir hún en stöðug löggæsla var við gosið svo fólk færi sér ekki að voða.

„Þetta er lengst í burtu; það er um átta tíma keyrsla þangað. Það er mjög mikið hálendi í okkar umdæmi og við erum einnig með hálendislöggæslu. Það var eitt af því sem við þurftum að berjast fyrir að fá og gekk í gegn. Það kom líka í ljós að þörfin var mikil því að ástandið á hálendinu varð allt miklu betra. Miklu meiri agi. Það eru alltaf tveir lögreglumenn í senn á vakt yfir sumartímann og búa þeir í Dreka þar sem er miðstöð ferðamanna. Þetta hefur líka gott forvarnargildi, að vita af þeim þarna,“ segir Halla.

Lögreglan á Akureyri sinnir einnig landamæragæslu á flugvellinum á Akureyri því flogið hefur verið beint frá Bretlandi til Akureyrar, þótt það gæti orðið hlé á því núna eftir að ferðaskrifstofan Super Break varð gjaldþrota. Aukinn straumur ferðamanna kallar á aukna löggæslu og fjölgar oft verulega í bænum þegar skemmtiferðaskipin leggjast að bryggju.

„Það er alltaf einhver þjónusta við ferðamenn; það er stolið af þeim, þeir lenda í slysum eða bílslysum. Svo týnast þeir og þá þarf að leita. Það er heilmikil vinna í kringum ferðamenn,“ segir Halla.

„Við viljum þjónusta fólk og vera nær því. Lögreglan er fyrir fólkið, eitt, tvö og þrjú. Við erum til staðar fyrir fólkið sem er hérna, bæði fólkið sem býr hér og hina sem eiga leið í gegn. Það er grundvallaratriðið; ekki að vera valdastofnun, heldur að þjóna fólki,“ segir Halla og bætir við: „Ég vil mæta öllum á jafnréttisgrundvelli. Maður þarf að sýna öllum virðingu. Það er ekki mitt að dæma, það eru aðrir sem sjá um það.“

Er alltaf hægt að ná í lögreglustjórann?

„Já, það er alltaf hægt.“