[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Sumarið hefur verið okkar besti tími frá upphafi svo það má búast við enn frekari aukningu,“ segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi.

Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Sumarið hefur verið okkar besti tími frá upphafi svo það má búast við enn frekari aukningu,“ segir Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri Storytel á Íslandi.

Nýjustu veltutölur bókaútgefenda sem Hagstofan hefur birt sýna um 30% vöxt milli ára í mars og apríl. Eins og Morgunblaðið greindi frá snemmsumars sýndu sömu tölur fyrir janúar og febrúar vöxt í fyrsta sinn í mörg ár, eða um 8%. Þessi jákvæða þróun í bókaútgáfu heldur því áfram og hlýtur að gleðja marga því tekjusamdráttur í þessari grein undanfarinn áratug hefur verið nærri 40%.

Landið tekið að rísa á ný

Morgunblaðið hefur fjallað ítarlega um þessa þróun síðustu misseri. Þungt hljóð hefur verið í bókaútgefendum en með tilkomu nýrra laga um endurgreiðslu kostnaðar við útgáfu og þessar auknu rafrænu áskriftartekjur Storytel virðist landið vera að rísa á ný.

Ef tekjur Storytel væru dregnar frá þá væri um áframhaldandi samdrátt milli ára í bóksölu þessa fjóra mánuði sem Hagstofan hefur birt fyrir 2019 að ræða. Fyrstu tekjur Storytel á Íslandi urðu til í mars 2018 og eru samkvæmt tölum Hagstofunnar um 20% heildartekna á íslenskrar bókaútgáfu í mars og apríl.

Sumarið er tíminn... fyrir hljóðbækur

Stefán segir að ekkert lát hafi verið á innstreymi áskrifenda hjá Storytel á Íslandi. Hann segir að alltaf sé að bætast við efni hjá Storytel, bæði frá fleiri útgefendum og efnið komi fyrr en áður. Þannig hafi jólabækur síðasta árs, til að mynda bækur Ragnars Jónassonar og Yrsu Sigurðardóttur, notið mikilla vinsælda undanfarið. „Sumarið er góður tími fyrir hljóðbækur. Fólk er að ferðast mikið og vill hlusta í bílum, flugvélum og við sundlaugarbakkann. Ég á því von á enn frekari aukningu á tekjum. Það veit ég því hef tölur Hagstofunnar frá því í fyrra og veltutölurnar okkar í ár. Það er ekkert sem bendir til annars. Hefðbundna bóksalan kemur í lok ársins svo við spyrjum að leikslokum hvort heildaraukning verður. Vonandi stækkar heildarkakan. Vonandi verður endurgreiðslufrumvarpið til þess að sá bransi rétti úr sér líka. Þá getur orðið hér blómlegur bókmenntabransi.“

Fá inn nýja bókaunnendur

Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu eru yfir 20% viðskiptavina Storytel nýir lesendur, þ.e. þeir sem ekki lásu bækur áður en þeir hófu að greiða fyrir áskrift hjá Storytel. „Hér er því um að ræða nýjar tekjur sem skila sér beint í íslenska bókahagkerfið, rétthöfum og öðrum sem starfa í greininni til aukinna hagsbóta. Það er einnig áhugavert að skv. könnunum sem Storytel lætur gera reglulega meðal viðskiptavina sinna þá lesa um 80% viðskiptavina Storytel einnig hefðbundnar bækur,“ segir í tilkynningu frá Storytel. Jafnframt segir þar að þetta sé sama þróun og hafi átt sér stað í Svíþjóð, stærsta markaði Storytel.

„Það sem er einna ánægjulegast við þessa þróun að þarna er stór hópur fólks sem las ekki bækur að byrja að njóta íslenskra bókmennta. Það er ekki aðeins jákvætt fyrir þessa atvinnugrein sem slíka heldur mjög mikilvægt fyrir íslenska tungu,“ segir Stefán.

Stefán Máni í 25 klukkutíma

Hjá Storytel á Íslandi eru í boði á annað hundrað þúsund hljóðbækur auk rafbóka. Áskrifendur greiða fast mánaðargjald og fá í staðinn ótakmarkaðan aðgang að efni Storytel.

Samkvæmt upplýsingum frá Stefáni Hjörleifssyni hjá Storytel er meðallengd hljóðbókar hjá veitunni um átta klukkutímar. „Þetta hefur verið að styttast aðeins. Átta klukkutímar er mjög hæfileg lengd fyrir hljóðbækur. Ef þú ferð mikið yfir tólf klukkutíma finnst fólki það of mikið.“

Það er þó ekki þar með sagt að slíka doðranta sé ekki að finna í ranni Storytel. Þannig segir Stefán að sumar bækur í Game of Thrones- og Harry Potter-seríunum séu yfir þrjátíu klukkutímar hver. Og bækur glæpasagnahöfundarins Stefáns Mána hafa náð 25 klukkutímum að lengd.