— Morgunblaðið/RAX
Nú lágu Danir í því!

Nú lágu Danir í því!

Hugtakið er þekkt en upptök þess ekki. Og Danir koma ekki við sögu frekar en aðrir. Og hér og nú tengist hún ekki áhuga Donalds Trumps á því að setja Grænland í innkaupakerruna með öðru því sem hann girnist.

En nefna má að þar vestra voru þeir gamansömu fljótir til að bæta fréttina dálítið:

„Trump forseti ætlar að kaupa Grænland og mun að láta Mexíkó borga það.“

„Tilboð Trumps forseta í Grænland sett á ís.“ „Herráðið kom saman í Pentagon og styður kaup Trumps á Grænlandi og einnig að Hvíta húsið verði flutt þangað, því að þá munu óvinir landsins ekki sjá það úr lofti. Það verður ósýnilegt eins og önnur snjóhús.“

Þarna lágu Danir í því

En Danir lágu sem sagt í því núna af ástæðum ótengdum Trump. Og þeir sem lágu í því eru að þessu sinni íslenskir, eins og frumlegasta notkunin á máltækinu til þessa, sem var þegar Sigurður Sig, hinn frábæri íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins sagði: „Nú lágu Danir í því,“ eftir 14-2 sigur þeirra á okkur.

En sem sagt þá hlupu margvísleg samtök og einstaklingar á sig í tilefni af frétt um yfirvofandi komu leiðtoga tveggja vinaþjóða. Þá bregður svo við að öðrum gestinum er tekið fagnandi en hinn fordæmdur.

Það er þekkt að sumir láta hatur á Bandaríkjunum heltaka sig af minna tilefni en þessu, einkum þó ef gestirnir eru ekki demókratar.

Það er auðvitað út í hött að fordæma heimsókn varaforseta Bandaríkjanna til Íslands, enda sýnir hún vinsemd og virðingu í garð lands og þjóðar. Mike Pence er varaforseti þjóðar sem hefur í sögulegu samhengi staðið betur með okkur en flestar ef ekki allar aðrar.

Yfirlýsing Roosevelts forseta um viðurkenningu á sjálfstæði Íslands skipti sköpum árið 1944. Það er mikilvægasta verkefni fyrir sjálfstætt ríki að tryggja öryggi þess í bráð og lengd.

Viðurkenning Bandaríkjanna og hervernd á válegustu tímum, var forsenda þess að umheimurinn tæki yfirlýsingu um sjálfstæði alvarlega.

Bandaríkin höfðu orðið við beiðni Íslands um hervernd áður en að þau gerðust beinir þátttakendur í stríðinu. Til er fræg mynd þar sem Roosevelt sjálfur hefur dregið mörk austur fyrir Ísland og rökstyður að ákvörðun sín sé tekin, þrátt fyrir hlutleysisstefnu, með hliðsjón af Monnroe-yfirlýsingunni frægu.

Vissulega er vitað að sú ákvörðun var ekki síst tekin vegna yfirvofandi innrásar herja Hitlers í Bretland og Churchill þrýsti mjög á að fá að losa breska herliðið héðan, svo að það gæti lagt sitt af mörkum við varnir lands síns. Íslendingar eru aðilar að Nato sem tryggir varnarumgjörð landsins. Meira að segja leiðtogar VG láta slagorðin víkja fyrir ráðherrastólum í þeim efnum. Og allir sem eitthvað vita skilja að Nato yrði lítils virði án Bandaríkjanna.

Trump forseti hefur jafnvel þurft að beita hörðu til að fá stórfjáð ríki eins og Þýskaland til að standa við marglofaðar skuldbindingar sínar gagnvart bandalaginu.

En skýringin sem gefin er fyrir ónotum og illindum í garð varaforseta þessa vinaríkis okkar nú er að hann hafi sem ríkisstjóri verið andvígur því að samkynhneigðir fengju að ganga í hjónaband. Sagt er að slíkir menn ættu ekki að fá að koma til landsins. Er mönnum alvara? Langflestir Íslendingar voru sömu skoðunar og Pence varaforseti í þessum efnum fyrir aðeins örfáum árum. Sjálfsagt eru ýmsir enn þessarar skoðunar og mega auðvitað vera það. Við hin, sem teljum að fyrrnefnd þróun hafi verið rétt og í takt við tíðarandann og miklu fremur fagnaðarefni en hitt, höfum sjálfsagt mörg verið annarrar skoðunar áður, eða kannski í flestum tilvikum ekki leitt huga sérstaklega að þessu álitaefni, því það var ekki uppi á borðinu fyrr en baráttumenn hristu upp í þjóðarsálinni. Það var svo margt sem þurfti að laga gagnvart þessum hópi, að hjónabandið kom ekki fyrr en nokkuð seint á þó hraðri þróun eftir að hún hófst fyrir alvöru. Áður en umræðan breytti almenningsálitinu voru þeir sem voru hugsandi eða á móti breytingunum örugglega í verulegum meirihluta.

Það, hversu hratt tókst að breyta veruleika sem staðið hafði um aldir sem óskeikull hluti tilverunnar, sýnir að afstaðan byggðist að hluta til á gömlum vana þótt hún hefði að nokkru sótt styrk í trúarlegan skilning.

Það er alveg fráleitt að banna mönnum að hafa þá afstöðu sem meginþorri þessar þjóðar hafði fyrir skömmu og að segja frá henni.

En hitt, þetta sem varð til þess að Danir lágu í því í þessu skrítna máli, er að reyndin er sú að Merkel kanslari hefur verið miklu virkari í sinni neikvæðu afstöðu en Pence varaforsti. Og Merkel gafst ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Afstaða hennar var ekki refsiverð eða fordæmanleg enda pólitísk sannfæring leiðtoga kristilegu flokkanna tveggja í Þýskalandi.

Sumir myndu segja að á þessum tíma hafi leiðtoginn ekki aðeins þurft staðfestu heldur einnig kjark þegar straumurinn hafði algjörlega snúist og styrkst. En Merkel varð undir í flokknum sem laut ekki flokksböndum lengur varðandi þetta stefnumál.

Samtök sem hatast út í afstöðu Pens varaforseta en fagna komu Merkel gefa til kynna að gamla, þreytta og hallærislega Bandaríkjahatrið ráði í rauninni ferðinni en ekki réttlætiskennd þeirra.

En auðvitað mega talsmenn samtaka hafa hvaða skoðun sem þeir kjósa á pólitískum leiðtogum, innlendum sem erlendum, og láta hana í ljósi. En það er þá stórmannlegra að segja frá því hvað ráði afstöðu þeirra og hvað ekki.

Smámál sem engu skiptir

Til eru menn sem skrifað hafa ótölulegan fjölda greina og birt hvar sem því verður við komið, um orkupakka þrjú. En það sérkennilega er að megininntak þeirra er að það mál skipti engu eða nánast engu og snúist ekki um neitt sem máli skiptir.

Það er eiginlega fagnaðarefni að þeir séu sannfærðir um þetta því ef þeir teldu að málið væri stórmál sem skipti sköpum fyrir fullveldi þjóðarinnar væru þeir vísir til að skrifa þúsundir greina um efnið til að koma því í gegn.

Dósent í lögfræði, sem áður hafði upplýst fjöldann um að ríki væri alltaf fullvalda, hvernig sem gengið væri á forræði þess yfir mikilvægum málaflokkum og hvaða boðvald ríkið færði öðrum, sagði Alþingi það nú síðast að yrði orkupakki ekki samþykktur hefði það afdrifarík póltísk áhrif!

Hæpið er að þingmenn hafi kallað á dósentinn til að segja sér fyrir um pólitíska þýðingu þessa máls. Það er þó aldrei að vita. Og sé svo þá skilst betur hvers vegna svo mikil lögfræðileg léttúð og barnaskapur einkennir málflutning baráttumanna um skerðingu fullveldis.

Þeir sem tala fyrir samþykkt málsins og jafnvel þeir áhrifamenn sem hafa snúist eins og skopparakringlur í málinu, og áður í Icesave, virðast hafa þá einu afsökun fram að færa að yrðu fyrirmælin frá Brussel ekki samþykkt þá myndi tilvera EES-samnings vera í hættu.

Hvaðan hafa þeir það?

Meira að segja dósentinn, sem hafði svo miklar pólitískar áhyggjur að hann vildi létta þeim af sér við þingheim, benti á að Ísland hefði aldrei (!) hafnað innleiðingu tilskipunar. Landinu væri það að vísu heimilt samkvæmt EES-samningnum en dósentinn taldi að sú heimild væri einungis til að bregðast við algjöru neyðarástandi. Hvaðan í ósköpunum hefur dósentinn það? Það er ekki fótur fyrir því. Og síst í samningnum sjálfum.

Inn og út um gluggann

Formaður Sjálfstæðisflokksins gaf enga skýringu á því hvers vegna hann umpólaðist á fáeinum dögum í Icesave, öllum á óvart, ef frá er talin dapurlega klisjan um „ískalt mat“.

Hann hafði talað á Alþingi af tilfinningahita og sannfæringu um fáránleika þess að samþykkja orkupakka 3. Upptakan er aðgengileg og full ástæða fyrir menn að hlýða á hana. Í hart nær ár var þetta boðskapurinn og hann stóð því ekkert annað var sagt.

Öllum var því rótt. Hvenær hringsnúningurinn varð í þetta sinn er ekki vitað og ekki heldur hvers vegna hann varð.

Eldsnemma á ferlinum var frú Thatcher ákölluð um að hringsnúast í frjálshyggjustefnu sinni. Svar hennar á því flokksþingi negldi hana niður sem annan mesta leiðtoga flokksins: „To those waiting with bated breath for that favourite media catchphrase, the 'U-turn', I have only one thing to say: 'You turn if you want to. The lady's not for turning!' I say that not only to you but to our friends overseas and also to those who are not our friends.“

Frú Thatcher var forsætisráðherra í rúman áratug.

Blekkingar

En hin eina handfasta skýring sem gefin er fyrir þessum vandræðagangi nú gagnvart flokkssystkinum og þjóð virðist vera sú að EES-samningurinn sé ella í fullkomnu uppnámi. Ísland hafi hingað til alltaf hlýtt. Það er auðvitað miklu fremur til skammar en boðlegt fordæmi.

En það er lágmarkskrafa að upplýst sé hver fullyrði þetta um EES-samninginn, þótt fullyrðingin stangist á við samninginn sjálfan og allt sem um hann var sagt við afgreiðslu hans á Alþingi.

Dósentinn hefur eins og fyrr segir ekkert fyrir sér í sinni „lögskýringu“ um neyðarástandið, enda hélt fræðimaðurinn að hann hefði verið spurður um pólitík!

Hitt er nær öruggt að hefði einhver spáð því við samþykkt EES-samningsins fyrir aldarfjórðungi að Ísland myndi aldrei nýta sér almenna heimild sína til að hafna kröfu um innleiðingu, og það þótt hvað eftir annað yrði höggvið nærri stjórnarskránni, þannig að samanlagt væri um mörg og ótvíræð brot að ræða, þá hefðu flokkarnir þar ekki afgreitt málið.

Sjálfstæðisflokkurinn myndi á þeim tíma hafa svarið að óhugsandi væri að „boðvaldið“ í orkumálum þjóðarinnar yrði flutt úr landi til yfirþjóðlegs valds, eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það sjálfur svo vel úr ræðustól Alþingis.

Ef svo ólíklega vildi til að þingið hefði, þrátt fyrir slíka stöðu, samþykkt samninginn þá leyfir bréfritari sér að fullyrða að þáverandi forseti Íslands hefði aldrei við þær aðstæður staðfest málið. Það hefði gengið í þjóðaratkvæði og verið kolfellt þar.

Nú eru stjórnmálamenn hins vegar af fullkomnu ábyrgðarleysi að leitast við að snúa almenningi í landinu gegn EES-samningnum með því að fullyrða að sjálfur öryggisventill hans hafi verið blekking frá upphafi. Sá sami sem var ein forsenda þess að sérfræðinefnd um lögmæti hans taldi að hann stæðist stjórnarskrá og forsenda þess að samningurinn var samþykktur.

Ef það er svo að öryggisventillinn sé bara innihaldslaust skraut til að plata íslenska þjóð þá stendur eftir að löggjafarvald þjóðarinnar hafi verið flutt úr landi. Enginn getur hafnað því að það væri ljótasta brot gagnvart stjórnarskrá landsins sem hægt væri að hugsa sér. Þjóð sem hefur ekki lengur vald yfir örfáum mikilvægum auðlindum sínum getur ekki hafa tapað þeim án þess að afsala sér hluta fullveldis síns um leið.

Ógæfulegt framhald

Sá orðrómur er hávær að nú standi yfir undirbúningur, með fullri aðkomu Sjálfstæðisflokksins, um að breyta stjórnarskránni þannig að auðveldara verði en nú er (!) að koma fullveldinu burt í hlutum. Því eru ekki hratt fækkandi flokksmönnum færðar upplýsingar um þá vinnu? Sumir, og það jafnvel starfsmenn í dómsmálaráðuneytinu, láta sig ekki muna um að ákveða að hluti dómsvaldsins hafi þegar verið fluttur úr landinu þótt það sé þvert á lög og þar með brot á stjórnarskrá. Og af hverju var lagaákvæðið um að Ísland væri óbundið af ákvörðunum Mannréttindadómstóls sett? Jú, því hefðu ráðherrar og forseti skrifað undir slíkt og því líkt hefðu þeir brotið stjórnarskrána og mál út af því væri skylt að sækja fyrir Landsdómi gagnvart ráðherrunum.

Hver var það sem sagði skjálfandi íslenskum ráðherrum það að EES-samningurinn væri fyrir bí ef Ísland hlýddi ekki nýjustu tilskipuninni af þeirri óboðlegu ástæðu að mikill meirihluti þjóðarinnar væri á móti henni?

Hver þá?

Bréfritari var í eitt ár utanríkisráðherra eftir að hafa verið á fjórtánda ár forsætisráðherra.

Þá fór þar fram efnislega eftirfarandi samtal:

E (embættismaður): „Ráðherra. Ég verð að upplýsa ráðherrann um að ESB hefur þungar áhyggjur af afstöðu Íslands út af umræddu máli og mun bregðast hart við ef ekki verður snarlega bætt úr.

R: Hefur hann sagt það?

E: Hver?

R: ESB?

E: Það, meinarðu?

R: „Það“ segir ekkert. Það er einhver sem segir það.

E. Já

R: Hver sagði það?

E: Við höfum það frá fyrstu hendi.

R: Fyrstu hendi hvers?

E: Á æðstu stöðum.

R: Fyrstu hendi hvers?

E: Ég þarf að kanna hvort mér sé heimilt að upplýsa það.

R: Þú færð hér með í senn heimild til þess og kröfu um að upplýsa ráðherra málaflokksins um það.

E: Okkar maður var staddur í síðdegisboði í skógarlundi og átti þar trúnaðarsamtal við náinn aðstoðarmann yfirlögfræðings ESB sem kom þessum skilaboðum áfram svo ekki varð misskilið.“

Hver nú?

Hver hefur núna hrætt íslenska ráðherra upp úr skónum með hótunum sem fá ekki staðist og skilið þá eftir í slíkri örvæntingu að aumkunarvert er upp á það að horfa?

Er ekki nauðsynlegt að upplýsa það?

Þetta er grundvallaratriði. Þetta er nefnilega eina röksemdin sem lifir í málinu.

Hvað sem menn sömdu um í vor, geta menn ekki lokið málinu nema upplýst sé hver heimildin fyrir þessum hótunum er.

Það gefur auga leið.

Það getur ekki verið að aðstoðarmaður yfirlögfræðingsins hafi aftur skokkað út í skóg.

Eða getur það verið.

Úti í skógi er mikið um full tré.

Hver á núna ekki í fullu tré við aðstoðarmanninn?

Á hans aumingjadómur að bitna á þjóðinni?

Hún mun ekki taka því.

Aldrei.