Dr. Freydís Vigfúsdóttir sækir hér kríu úr hreiðurgildru á meðan samstarfskonur hennar mæla hreiður og egg kríunnar. Með henni á myndinni eru Jo Morten doktorsnemi og dr. Lucy Hawkes dósent og samstarfskona frá Exeter Háskóla.
Dr. Freydís Vigfúsdóttir sækir hér kríu úr hreiðurgildru á meðan samstarfskonur hennar mæla hreiður og egg kríunnar. Með henni á myndinni eru Jo Morten doktorsnemi og dr. Lucy Hawkes dósent og samstarfskona frá Exeter Háskóla. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Krían er ókrýndur heimsmeistari í ferðalögum; ferðast allra dýra lengst á jörðinni, allt að 80 þúsund kílómetra á ári, ef marka má vísbendingar.

Krían er ókrýndur heimsmeistari í ferðalögum; ferðast allra dýra lengst á jörðinni, allt að 80 þúsund kílómetra á ári, ef marka má vísbendingar. Vísindamenn vita þetta þó ekki fyrir víst og höfuðmarkmið alþjóðlegrar rannsóknar, sem hleypt var af stokkunum í fyrra, er að kanna þetta mikla far á kríunni. Myndir: Kristinn Ingvarsson kri@hi.is Texti: Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Fram að þessu höfum við ekki haft tækjabúnað til að kanna nákvæmlega hversu langt kríurnar fara, hvaða leiðir þær fara og hversu oft þær stoppa á leiðinni, ef þær stoppa þá yfirleitt, hvað þær eru lengi á leiðinni og hversu hátt þær fljúga, svo dæmi sé tekið,“ segir dr. Freydís Vigfúsdóttir, sérfræðingur við Háskóla Íslands og einn umsjónarmanna alþjóðlegrar rannsóknar á farhegðun kríunnar, en tækin sem nýtt eru til rannsóknarinnar eru nýkomin á markað.

„Eftir því sem við vitum best erum við fyrst til að setja þessi nýju tæki út til að kanna þetta langa árlega far kríunnar. Þetta eru GPS-ritar sem taka staðsetningu á klukkutíma fresti með GPS-nákvæmninni. Fram að þessu hefur þetta far verið kannað með svokölluðum ljósrita, sem er með um það bil 200 kílómetra nákvæmni og mælir hvorki hæð né hraða. Þetta er því mikil framför og vonandi fáum við fyrir vikið nákvæmari og betri svör við spurningum okkar um hegðun tegundarinnar. Það yrði mjög mikilvægt fyrir verndarlíffræði kríunnar og álíka tegunda,“ segir Freydís.

„Fylla á tankinn“ úti á reginhafi

Hún segir vísbendingar úr téðum ljósritum benda til þess að kríurnar nýti ákveðin ætisvæði úti á reginhafi, til dæmis suður af Grænlandi og austur af Nýfundnalandi, síðla sumars eða snemma á haustin til að nema staðar og „fylla á tankinn“ áður en þær halda för sinni áfram. Þá verði spennandi að sjá hvort þær komi við á fleiri stöðum, en vísbendingar eru um það; sem dæmi hafa hefðbundin fuglamerki af kríum endurheimst og kríur sést á fartíma við Afríkustrendur og strönd Brasilíu. „Við vitum afskaplega lítið um þetta í dag, til dæmis hvort fuglarnir eru að lenda á ströndum þar sem lítið er um fólk, hvað þá rannsóknafólk,“ segir Freydís.

Rannsóknin er unnin í samstarfi Háskóla Íslands, háskólans í Exeter á Englandi og Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum, en auk Freydísar og kollega hennar í hinum háskólunum hafa nemendur þeirra tekið virkan þátt í verkefninu.

Merkingarnar fóru fram fyrr í sumar í landi æðarbýlisins Norðurkots á Suðurnesjum, rétt við Sandgerði, en bændurnir, Sigríður Hanna Sigurðardóttir og Páll Þórðarson, voru svo almennileg að leyfa vísindafólkinu að athafna sig þar og veittu ómetanlega aðstoð.

Freydís segir merkingarnar hafa gengið vonum framar. „Þetta heppnaðist ljómandi vel og hópurinn vann sem ein manneskja. Aðferðin sem við beitum til að setja tækin á fuglana gekk ótrúlega vel. Við notum það sem við köllum lærabelti, en bandarísk samstarfskona mín, dr. Sara Maxwell, hefur beitt þeirri aðferð við að merkja sílaþernur og skyldar tegundir með góðum árangri í Bandaríkjunum.“

Að sögn Freydísar bendir ekkert til þess að tækið skaði fuglana, en þeir fuglar sem þegar hafa verið endurheimtir voru vel á sig komnir og sýndu engin ummerki um að tækið hefði teljanleg áhrif á þá. „Fuglarnir sem við merktum á prufutímabilinu í fyrra litu ljómandi vel út. Hafa ber þó í huga að lítil reynsla er komin á þetta og betur á eftir að koma í ljós hvernig fuglunum vegnar yfir árið.“

Leita mikið í stuttar ferðir

Um tuttugu fuglar voru merktir á síðasta ári og um sextíu í ár. Þegar hefur tekist að endurheimta nokkra fugla en gleggri mynd fæst væntanlega á næsta ári, þegar fuglarnir sem merktir voru nú snúa aftur til Íslands. Engar bráðabirgðaniðurstöður liggja enn fyrir varðandi farið en á hinn bóginn eru komnar bráðabirgðaniðurstöður sem snúa að fæðuferðum kríunnar meðan á varpi stendur, sem er hliðarverkefni rannsóknarinnar.

„Meðan við vorum að prófa nýju tækin settum við þau út og tókum þau til baka nokkrum dögum síðar. Við erum líka með aðra týpu af tækjum, VMS, sem hlaða upplýsingum niður í beini og í gegnum þau fengum við gögn úr fæðuferðum um tíu fugla meðan á varptíma og álegu stóð. Kríurnar leituðu mikið í stuttar ferðir beint vestur af Sandgerði en líka markvert inn á Faxaflóa, sem er afskaplega fróðlegt. Þetta gefur okkur ekki bara vísbendingu um hegðun kríunnar heldur felst einnig í þessu tækifæri til að skoða notagildi hafsvæðisins í kringum okkur með hliðsjón af sjálfbærri auðlindanýtingu sjávar. Eins möguleg verndarsvæði í hafi. Þetta er raunar með sterkari tækjum í því sambandi vegna þess að fuglarnir eru svo góðir áttavitar á lífríki hafsins og segja okkur mjög fljótt hvar æti er að hafa, en þeir leita oftar en ekki í sama æti og fiskarnir okkar og hvalirnir. Þess vegna hefur þessi rannsókn heilmikla þýðingu fyrir okkur Íslendinga.“

Í því sambandi nefnir hún að sjaldgæft sé að vísindamenn hafi upplýsingar um líffræði far-dýra á borð við sjófugla yfir vetrartímann eins og í þessari rannsókn enda bera fuglarnir tækið allt árið um kring. „Fyrir vikið gerir þessi nýja tækni okkur kleift að spyrja spurninga sem annars væri ekki hægt að spyrja.“

Freydís bendir á að tækni sambærileg við þá sem stuðst er við í þessari rannsókn muni nýtast við rannsóknir á mun fleiri dýrategundum en fuglum og fyrir vikið séu góðar líkur á því að þekkingu manna á hegðun dýra muni fleygja hratt fram. „Sérstaklega vegna þess að þessi tækni nýtist ekki bara í stórum rannsóknum, heldur ekki síður í smærri rannsóknum sem hafa ekki margar milljónir króna á bak við sig.“

Langar að færa verkefnið út

Freydís hefur væntingar til þess að fleiri rannsóknarstyrkir fáist á komandi árum og misserum svo að færa megi kríuverkefnið enn frekar út. Með því að setja fleiri tæki út á öðrum varpsvæðum og fleiri tegundum fáist svör við því hvort þeir fuglar nýti sér þessi sömu fæðusvæði, sem gefur um leið ómetanlegar upplýsingar sem nýtast til verndar og sjálfbærrar nýtingu sjávar.

Freydís hefur stundað kríurannsóknir í meira en áratug og segir þær afar spennandi. „Út frá vísindalegum sjónarhóli er krían afskaplega áhugaverð vegna þess að spurningarnar sem vakna þegar horft er á lífsferil fugls eins og kríu eru svo margþættar. Það eru til dæmis grunnvísindaspurningar, eins og hvernig er mögulegt fyrir svona lítinn fugl að fara yfir svona langan veg? Hvaða sérstöku tækni beitir krían? Er hún að nýta sér einhverja sérstaka háloftavinda eða annað slíkt? Er eitthvað sérstakt í líkamsbyggingu og lífeðlisfræði kríunnar sem gerir henni kleift að fara alla þessa leið? Og svo framvegis. Það er líka ótvíræður kostur við kríuna að hún er mjög fljót að gefa okkur vísbendingar um það sem er að gerast í hafinu í kringum okkur. Það skiptir svo miklu máli að fá upplýsingar hratt og skilmerkilega um strandsvæði sjávarins.“

Staðan heldur að skána

Krían hefur verið friðuð tegund á Íslandi frá árinu 1882. Hrun í sandsílastofninum, sem meðal annars má trúlega rekja til loftslagsbreytinga, hefur haft neikvæð áhrif á afkomu kríunnar á Íslandi á umliðnum árum. Varpárangur kríunnar hefur verið mjög lélegur í meira en áratug og samkvæmt válista Náttúrufræðistofnunarinnar frá árinu 2018 er krían nú metin í nokkurri hættu.

„Þegar stórt er spurt,“ dæsir Freydís þegar spurt er hvernig stofninum reiði af. „Mér þætti afskaplega gaman að hafa svarið við því og hef í nokkur ár reynt að afla rannsóknastyrkja til að geta skoðað það betur. Það er erfitt að segja til um þetta með einhverri nákvæmni þegar engar slíkar rannsóknir eru í gangi á landinu í heild.“

Hún segir kríurnar hafa verið viku seinna í álegu á suðvesturhluta landsins í ár en í fyrra, bæði á Seltjarnarnesi og eins suður með sjó. Best sé þó að spyrja að leikslokum hvað þetta varðar enda skipti höfuðmáli að upp komi eitthvert æti meðan þær eru með ungana. „Það virtist ganga mun betur núna á Suðvesturlandi en í fyrra og fleiri ungar komust á legg; þannig að þetta virðist ekki hafa verið eins bagalegt og undanfarin ár. Ungavöxtur var víða nokkur þrátt fyrir að álegan hafi byrjað seint; það heyrir maður í fréttum og sér á myndum á samfélagsmiðlum. Það eru í það minnsta ungar í ár, sem var alls ekki raunin mörg árin sem ég var við mælingar víða á Vestur- og Norðvesturlandi. Þá drápust þeir hreinlega áður en þeir komust á legg. Eigum við því ekki að segja að staðan virðist víða hafa verið heldur skárri en undanfarin ár, svo ég reyni nú að svara spurningunni. Það eru góðar fréttir og vonandi heldur sú þróun áfram. Við höfum þó engar vísbendingar um að þessu sjófuglakrepputímabili, sem við höfum búið við um langa hríð, sé lokið og því er nauðsynlegt að fylgjast áfram með og sinna rannsóknum og vöktun á þessu sviði.“