Kim Jong-un
Kim Jong-un — AFP
Einræðisstjórnin í Norður-Kóreu hélt áfram eldflaugatilraunum sínum í gær og kvaðst hafa ákveðið að hafna hvers konar viðræðum við stjórnvöld í Suður-Kóreu. Einræðisstjórnin kenndi leiðtogum Suður-Kóreu um þessa ákvörðun.

Einræðisstjórnin í Norður-Kóreu hélt áfram eldflaugatilraunum sínum í gær og kvaðst hafa ákveðið að hafna hvers konar viðræðum við stjórnvöld í Suður-Kóreu. Einræðisstjórnin kenndi leiðtogum Suður-Kóreu um þessa ákvörðun.

Daginn áður hafði Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, flutt ræðu og lofað að stefna að því að Kóreuríkin sameinuðust ekki síðar en árið 2045. Hann hvatti einnig til þess að ríkin hæfu að nýju viðræður um kjarnorkuafvopnun og friðarsamning milli ríkjanna til að binda formlega enda á Kóreustríðið sem lauk með vopnahléi árið 1953.

Stjórn Kims Jong-uns, einræðisherra Norður-Kóreu, gagnrýndi sameiginlegar heræfingar Bandaríkjanna og Suður-Kóreu. Hún sagði að það væri „heimskulegt“ af Moon Jae-in að tala um frið en halda áfram heræfingum til að búa sig undir hernað sem miðaði að því að eyða meginhluta hers N-Kóreu á þremur mánuðum. Hún gagnrýndi hins vegar ekki Bandaríkin fyrir að taka þátt í heræfingunum.

Sjötta eldflaugatilraunin

Norður-Kóreuher skaut tveimur skammdrægum eldflaugum í gær og þær lentu í Japanshafi. Þar með hefur hann skotið sex eldflaugum í tilraunaskyni á tæpum mánuði. Stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur gert lítið úr þýðingu tilraunanna vegna þess að flaugarnar ógna ekki borgum á meginlandi Bandaríkjanna. Trump hefur einnig gert lítið úr ógninni sem stafar af kjarnorkuherafla Norður-Kóreu.