Troy Sanders í eldmóð með Mastodon á Rokkjötnum fyrir fjórum árum.
Troy Sanders í eldmóð með Mastodon á Rokkjötnum fyrir fjórum árum. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Enda þótt meira en þrír áratugir séu liðnir frá andláti forsprakkans Phils Lynotts er írska rokksveitin Thin Lizzy enn í fullu fjöri og hefur nýlokið tónleikaferð um Evrópu.

Enda þótt meira en þrír áratugir séu liðnir frá andláti forsprakkans Phils Lynotts er írska rokksveitin Thin Lizzy enn í fullu fjöri og hefur nýlokið tónleikaferð um Evrópu. Listinn yfir menn sem komið hafa við sögu hins fornfræga bands, sem stofnað var árið 1969, er farinn að slaga upp í gömlu góðu símaskrána, en sá síðasti sem slóst í hópinn er enginn annar en Troy Sanders úr bandaríska proggmálmbandinu Mastodon, sem plokkaði bassann á téðum túr á dögunum af sinni alkunnu snilld. Óhætt er að hnýta því hér við að Sanders heyrir til hópi Íslandsvina, en Mastodon hefur í tvígang troðið upp hér í fásinninu, síðast á Rokkjötnum á Hlíðarenda árið 2015.

Synd væri að segja að Thin Lizzy sé að viðra nýtt efni á tónleikum sínum í seinni tíð, en síðasta breiðskífa sveitarinnar, Thunder and Lightning, kom út árið 1983. Lynott sálaðist þremur árum síðar eftir langvarandi rimmu við fíkniefni.

Enginn upprunalegur

Enginn upprunalegur meðlimur er enn til staðar í Thin Lizzy, en gítarleikarinn Eric Bell hætti sem kunnugt er á miðjum tónleikum á gamlárskvöld 1973; henti bæði gítarnum og magnaranum út í áhorfendahafið og strunsaði á dyr. Og hefur ekki sést síðan.

Trymbillinn Brian Downey lék inn á allar plötur Thin Lizzy en hvarf á braut skömmu eftir fráfall Lynotts. Þeir Bell eru báðir enn á lífi.

Af núverandi bandingjum á Scott Gorham gítarleikari lengsta sögu, en hann var í Thin Lizzy frá 1974 til 1983 og aftur frá 1996. Darren Wharton hljómborðsleikari gekk fyrst í bandið 1981, Ricky Warwick söngvari 2010, Damon Johnson gítaristi 2011 og Scott Travis trymbill 2016, en hann er þekktastur fyrir veru sína í Judas Priest.

Það væri að æra óstöðugan að nefna alla þá menn sem komið hafa við sögu Thin Lizzy þessa hálfu öld sem bandið hefur starfað en skoðum þó suma.

Margir tengja gítarvirtúósinn Gary heitinn Moore við Thin Lizzy og vissulega kom hann lítillega við sögu á fyrstu plötunum. Hann gekk hins vegar ekki í bandið fyrr en 1974; hætti skömmu síðar og sneri aftur 1978. Moore tók aðeins fullan þátt í gerð einnar breiðskífu, Black Rose: A Rock Legend 1979.

Nokkrir málmhausar

Málmhausum eru nokkur nöfn töm, svo sem annað gítarséní, John Sykes, sem var í Thin Lizzy frá 1982-83; gítarleikarinn Vivian Campbell og trymbillinn Tommy Aldridge, en þeir komu mun síðar við sögu bandsins. Allir hafa þeir líka verið í Whitesnake; öðru langlífu rokkbandi þar sem starfsmannavelta hefur jafnan verið mikil. Að ekki sé talað um gítarleikarann Richard Fortus, sem kom hingað til lands með Guns N' Roses á síðasta ári. Þeir leynast víða, Íslandsvinirnir.

Midge Ure, sem jafnan er kenndur við breska nýbylgjubandið Ultravox, var til skamms tíma í Thin Lizzy eftir að Gary Moore lét sig hverfa 1979. Þá söng sjálfur Sir Bob Geldof með sveitinni á einum tónleikum eftir andlát Lynotts, en þeir voru haldnir til styrktar atvinnulausum í Dyflinni sumarið 1986. Geldof gamli er sjaldan langt undan þegar leggjast þarf á árarnar með lítilmagnanum.

Loks má ekki gleyma Snowy nokkrum White, gítarleikara, sem var í Thin Lizzy í bláupphafi níunda áratugarins. En þó, merkilegt nokk, aldrei í Whitesnake. Hver man ekki eftir honum? orri@mbl.is