Hverfisgata Þjóðleikhúsið er afgirt frá götunni vegna framkvæmdanna.
Hverfisgata Þjóðleikhúsið er afgirt frá götunni vegna framkvæmdanna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Það er ekki nokkur leið að komast að Þjóðleikhúsinu frá Hverfisgötu.

„Það er ekki nokkur leið að komast að Þjóðleikhúsinu frá Hverfisgötu. Menn þurfa að fara krókaleiðir frá Lindargötu og það getur verið erfitt, ekki síst fyrir prúðbúna frumsýningargesti og dömur á háum hælum,“ sagði Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri. Hann sagði að nýtt leikár hæfist mánudaginn 19. ágúst með setningarathöfn. Um leið verður miðasalan opnuð. Margir koma þangað að kaupa kort, einkum eldra fólk sem kaupir ekki á netinu. Fyrsta frumsýning leikársins á stóra sviðinu, Brúðkaup Fígarós, verður 7. september. Það að loka Þjóðleikhúsið af með framkvæmdum við Hverfisgötu í upphafi nýs leikárs er grafalvarlegt, að mati Ara. „Það er skylda okkar að tryggja að sjúkra- og slökkvibílar hafi greiðan aðgang að húsinu þegar sýningar hefjast. Ég veit ekki hvernig það á að vera hægt við þessar aðstæður,“ sagði Ari.

Hann kvaðst árum saman hafa verið í sambandi við Reykjavíkurborg og sagt í hvert skipti að upplýsa þyrfti leikhúsið tímanlega um allar framkvæmdir. Síðast hafði hann samband í vor og var sagt að framkvæmdunum lyki um Menningarnótt. „Þjóðleikhúsið fékk engar upplýsingar um breytingar á þeim áætlunum. Ég las um þær í blöðunum,“ sagði Ari. „Það koma 120.000 gestir í Þjóðleikhúsið á hverju ári, margir börn og fólk sem á erfitt með að komast um. Þess vegna er mikilvægt að við séum vel upplýst. Mögulega verðum við fyrir tjóni vegna þess að fólk kemst ekki til að njóta þess sem við höfum kynnt með ærnum tilkostnaði.“ Tekið skal fram að upplýsingafulltrúi frá Reykjavíkurborg hafði samband við Ara í gær.

„Ég hef líka ítrekað rætt við Reykjavíkurborg um hvað svæðið í kringum Þjóðleikhúsið er illa lýst upp, bæði á dauflýstri Lindargötu og Hverfisgötu. Nú fer að verða dimmt á kvöldin og mjög mikilvægt að svæðið sé vel upplýst svo gestir leikhússins komist greiðlega um,“ sagði Ari. gudni@mbl.is