Það var bara eitt vandamál. Samherjinn, René Houseman, kallaður „Sá galni“ var ekki inni á vellinum; heldur handan hliðarlínunnar að hita upp.

Í þeim fallega og göfuga leik knattspyrnu er ekkert eins þokkafullt og velheppnuð löng sending. Eða lööööng sending, eins og Bjarni Fel. myndi kalla það. Sending sem svífur eins og haförn 60 til 70 metra uns tuðran steypist niður og steindrepst á túkalli við tærnar á samherja. Það er eitthvað svo ljóðrænt og fagurt við sendingar af þessu tagi að þær veita manni ekki bara andlega, heldur hreinlega líkamlega fróun (má ég vinsamlegast biðja dónakalla og -kerlingar þessa lands að snúa ekki út úr þessari fullyrðingu!) Maður skekur sér allur af unaði, hvort sem maður er staddur á sjálfum pöllunum eða á sófanum heima í stofu.

Mögulega hefur það mótað mig að alast upp við að horfa á kempur sem höfðu afburðavald á löngum sendingum; menn eins og Michel Platini, Liam Brady og Glenn Hoddle, að ekki sé talað um Ásgeir okkar Sigurvinsson, sem var á heimsmælikvarða þegar kom að þessu tignarlega formi listrænnar tjáningar.

Eina frægustu og fallegustu löngu sendingu sparksögunnar átti vinstri-bakvörður Argentínu á HM í heimalandinu sumarið 1978, Alberto Tarantini. Þar sem hann var staddur aftarlega á eigin vallarhelmingi, vinstra megin, kom Tarantini auga á dauðafrían samherja framarlega á hægri vængnum. Í vænlegri sóknarstöðu. Kappinn hlóð í og sendingin sveif alla þessa leið af þokkafullri nákvæmni sem helst mætti vænta af ruðningskappanum Tom Brady (sem þó notar hendurnar) og lenti á stóru tánni á samherjanum. Þúsundir áhorfenda risu að vonum úr sætum og klöppuðu án afláts – uns blóð vall úr lófum.

Það var bara eitt vandamál. Samherjinn, René Houseman, kallaður „Sá galni“ var ekki inni á vellinum; heldur handan hliðarlínunnar að hita upp. Þessi tímamótasending kom með öðrum orðum ekki að meira gagni en blómavasi á dekkjaverkstæði. Hitt liðið fékk innkast. Þögn sló á leikvanginn. Aumingja Tarantini fylltist hryllingi þegar hann áttaði sig á mistökum sínum og Houseman laumaðist svo lítið bar á í burtu.

Gjörningurinn hafði á hinn bóginn þær afleiðingar að varamönnum var upp frá þessu stranglega bannað að hita upp í keppnisbúningum sínum við hliðarlínuna; allar götur síðan hafa þeir þurft að klæðast yfirhöfnum eða íþróttavestum. Tarantini ugglaust til ómældrar gleði.

René Houseman gekk síðar í raðir KR. Alveg satt. Sendi raunar bróður sinn á undan til að kanna aðstæður. Óyndi greip á hinn bóginn bróðurinn sem lét sig hverfa jafnharðan. René kom aldrei til landsins. Hann sálaðist í fyrra.