Ég fór með Breiðabliki til Bosníu á dögunum þar sem spilað var í undanriðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu.
Ég fór með Breiðabliki til Bosníu á dögunum þar sem spilað var í undanriðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu. Blikarnir tókust þar á við alls kyns mótlæti, eins og að spila í steikjandi hita gegn skrautlegum andstæðingum, en komust virkilega vel frá sínu og fóru af öryggi áfram í 32ja liða úrslit.

Ég er ekkert að ýkja þegar ég segi að andstæðingarnir hafi verið skrautlegir. Ég hef fengið töluverð viðbrögð við því að hafa blótað í textalýsingu í öðrum leiknum í Bosníu þar sem mótherjinn var Dragon, meistaraliðið frá Norður-Makedóníu. Það hefur líka aldrei verið ástæða til, fyrr en nú. Þeirra leikmenn einbeittu sér að því að sparka, hrinda, toga í treyjur og meira að segja bíta og klóra. Já og kýla í andlit. Blikanir hefðu ekki getað svarað því betur og unnu 11:0.

Öll liðin í riðlinum voru á sama hóteli uppi í fjöllum sunnan Sarajevó og það var erfitt að halda aftur af glottinu þegar leikmenn Dragon mættu eftir leik. Það var eins og liðið væri að koma úr stríði, flestar voru draghaltar og markvörðurinn var kominn í fatla. Þeim var nær að spila svona.

Það sem var skrautlegast af öllu er að í lokaleik Dragon í riðlinum var markvörðurinn ennþá með umbúðir um höndina. Hún var þá bara sett í vörnina og sú sem spilaði í vinstri bakverðinum gegn Breiðabliki var sett í markið! Það er skemmst frá því að segja að sá leikur tapaðist 7:0.

Það má hlæja að þessu, en staðreyndin er sú að það er fullt af svona liðum á þessu stigi keppninnar. Það er óskandi að Ísland fái í framtíðinni aftur tvö sæti fyrir kvennalið í keppninni. Þá væri líka loksins komin ástæða til þess að berjast ekki bara um Íslandsmeistaratitilinn, heldur einnig að ná öðru sætinu.