Stundum er hún havaískyrtan sem var svo flippuð í búðinni en eitthvað svo glötuð heima. Eða kúbverski hatturinn sem gaf manni kaldastríðslega dulúð við mátun en svo er maður bara perralegur þegar heim er komið.

Þú stendur í mátunarklefanum í útlöndum. Sólin hefur leikið við þig allan daginn og svei mér þá ef þú hefur ekki bara tekið lit. Smá vín í kroppnum og þér finnst þú algjörlega vera með þetta. Yfir þig hellist notaleg tilfinning: Það væri kannski ekki svo galið að búa hérna. Og þá er ekkert annað í stöðunni en að vera eins og alvöru útlendingur til að falla í hópinn.

Þú veist að þú hefur ekkert með hörskyrtu að gera og tölfræðin segir að þú eigir aldrei eftir að nota hana. En á þessum degi, þessari stundu, líður þér eins og landsliðsmanni í fótbolta í brúðkaupi á Ítalíu. Þú ferð í skyrtuna og skítlúkkkar. Þú kaupir hana, ferð með hana heim og notar hana aldrei framar.

Þetta er í stuttu máli útskýring á nýrri kenningu minni um mannlegt eðli sem ég kýs að kalla hörskyrtustundina.

Þetta snýst ekkert bara um þessa skyrtu. Hún er í raun aukaatriði í þessari kenningu. En samt ekki. Í henni birtist það einkenni að gera sér ekki grein fyrir takmörkunum sínum, miklast yfir því sem við höldum að við séum og þekkja ekki okkar stað í tilverunni.

Flestir eiga sína hörskyrtu. Stundum er hún hvítur jakki, sem smellpassar í mátunarklefa í París en hentar engan veginn í láréttri rigningunni í Reykjavík. Stundum er hún rúskinnsskór sem enda innst í skóskápnum með stórum bletti á leið á nytjamarkað. Stundum er hún havaískyrtan sem var svo flippuð í búðinni en eitthvað svo glötuð heima. Eða kúbverski hatturinn sem gaf manni kaldastríðslega dulúð við mátun en svo er maður bara perralegur þegar heim er komið.

Hún getur líka verið ferðabar sem var akkúrat málið fyrir útskriftarveislu í garðinum en kemst svo hvergi fyrir og endar í stofunni. (Hér er ekki útilokað að ég tali af reynslu.)

Hörskyrtustundin er augnablikið þegar þú mislest salinn og rennir í vafasaman brandara, af því að þér finnst stemningin vera þannig. Hún er stundin þegar þér finnst eins og eitt glas í viðbót sé akkúrat það sem þetta kvöld þarf á að halda. Jafnvel þótt barþjónninn skilji þig ekki þegar þú reynir að panta það. Hörskyrtustundin er líka þegar söngvarinn ákveður að bíða ekki eftir uppklappinu og tekur þrjú mjög óumbeðin lög í viðbót.

Hörskyrtustundin er augnablikið þegar þú finnur hin frábæru rök til að enda þras á Facebook og eyðir svo öllu kvöldinu í að útskýra hvað þú áttir raunverulega við. Hún er líka stundin þegar þú segir hátt og skýrt að það sé ekkert mál að leggja parket, vitandi að þú hafir aldrei gert það og hafir ekki hugmynd um hvernig það gengur fyrir sig.

Hörskyrtustundin er seinni lakkríspokinn. Eða fimmta serían af Lost. Hún getur verið allt mögulegt.

Sumir virðast hreinlega leita að hörskyrtum. Þeir tala eins og þeir viti allt á meðan allir, og stundum meira að segja þeir sjálfir, gera sér grein fyrir því að þeir vita í raun ekki neitt. Þeir virðast alltaf vera með á hreinu hvað þeir eru frábærir og þurfa reglulega að deila því með okkur.

Við þetta fólk vil ég bara segja eitt: Næst þegar þú ferð til útlanda. Taktu með þér hörskyrtuna sem þú keyptir í síðustu ferð.