Alexander Gunnar Kristjánsson alexander@mbl.is Þrotabú WOW air hefur höfðað eitt riftunarmál á hendur Títan, félagi Skúla Mogensen, þar sem þess er krafist að 108 milljóna greiðsla til félagsins vegna kaupa WOW á félaginu Cargo Express verði rift.

Alexander Gunnar Kristjánsson

alexander@mbl.is

Þrotabú WOW air hefur höfðað eitt riftunarmál á hendur Títan, félagi Skúla Mogensen, þar sem þess er krafist að 108 milljóna greiðsla til félagsins vegna kaupa WOW á félaginu Cargo Express verði rift. Greiðslan var innt af hendi tæpum þremur mánuðum fyrir eindaga þrátt fyrir að félagið hefði á þeim tíma verið í miklum fjárhagserfiðleikum. WOW var orðið gjaldþrota er greiðslan var á gjalddaga, í lok apríl.

Þetta kom fram á skiptafundi WOW, þeim fyrsta, sem var haldinn á Hótel Nordica í Reykjavík í gær.

Þá greindu skiptastjórar einnig frá því að þeir hefðu til skoðunar 8 milljónir dala, um milljarðs króna, greiðslu WOW til Títans vegna kaupréttar á flugvélum sem Títan hafði sjálft tryggt sér kauprétt að án endurgjalds. Voru þessar greiðslur einnig inntar af hendi áður en þörf var á, eða um ári áður en WOW keypti vélarnar og bar að greiða.

Áður hefur mbl.is greint frá því að kröfur Skúla og félaga sem tengjast honum, í þrotabúið, hljóði upp á 3,8 milljarða króna.

Orðið ógjaldfært um mitt ár 2018

Fram kom á fundinum að fjárhagsstaða WOW hefði um hríð verið verri en talin var, og er það mat endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte, sem vann úttekt fyrir skiptastjóra, að félagið hafi verið orðið ógjaldfært eigi síðar en um mitt síðasta ár, áður en boðað var til skuldabréfaútboðs þar sem um 50 milljónir evra söfnuðust.

Við gjaldþrot nam lausafé WOW air hf. aðeins þremur milljónum króna, en eftir sölu eigna úr þrotabúi er eigið fé búsins nú 1,1 milljarður. Það hrekkur skammt því kröfur í búið nema 151 milljarði. Þar af eru forgangskröfur um fimm milljarðar og samanstanda þær að mestu af launakröfum, auk þóknunar skiptastjóra og starfsmanna þeirra. Kostnaður við skipti búsins stendur nú í 121 milljón kr. en þar af eru rúmar 33 milljónir tilkomnar vegna skiptastjórnanna tveggja, sem rukka 29.500 kr. á tímann að viðbættum virðisaukaskatti.

Sögðu skiptastjórar það berum orðum á fundinum að engar líkur væru á að neitt fengist upp í aðrar kröfur og hefði því ekki verið haft fyrir því að taka afstöðu til þeirra.

Spurt um tengsl við Ballarin

Í samtali við mbl.is segir Sveinn Andri að vinna skiptastjóra geti staðið yfir í 3-4 ár ef til umfangsmikilla málaferla kemur, þótt vissulega hægist fljótlega um hjá skiptastjórum.

Í máli Þorsteins Einarssonar, annars skiptastjóra, kom fram að þær eignir sem eftir er að selja væru fyrst og fremst tölvukerfi og vörumerki gjaldþrota félags. Ef einhverjir tugir milljóna fengjust upp í það væri slíkt gleðiefni, en upphæðirnar sem um ræðir væru ekki jafnstórkostlegar og einhverjir vildu vera láta.

Tilefni athugasemdarinnar var fyrirspurn frá kröfuhafa sem spurði um tengsl Sveins Andra Sveinssonar, annars skiptastjóra, við fjárfestinn Michel Ballarin, sem hyggur á kaup á eignum WOW og vörumerki þess. Benti kröfuhafinn á að lögmaður Ballarin og Sveinn Andri hefðu aðstöðu í sama húsi í Grjótaþorpinu í miðbæ Reykjavíkur. Skiptastjórar höfnuðu því alfarið að þeir hefðu nokkur tengsl við Ballarin og bentu á að gengið hefði verið að tilboði hennar, sem síðar var reyndar rift vegna vanefnda, þar sem hún hefði boðið best. Ítarlegri umfjöllun um skiptafund WOW er að finna á mbl.is.