Nýliði Frank Aron Booker lék sinn fyrsta landsleik á dögunum.
Nýliði Frank Aron Booker lék sinn fyrsta landsleik á dögunum. — Morgunblaðið/Hari
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Kristján Jónsson kris@mbl.is Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tekur í dag á móti Portúgal í forkeppni EM 2021 í Laugardalshöllinni.

Körfubolti

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik tekur í dag á móti Portúgal í forkeppni EM 2021 í Laugardalshöllinni. Ísland þarf á sigri að halda til að eiga möguleika á því að vinna riðilinn og halda voninni um að komast á EM 2021 á lífi. Leikirnir gegn Portúgal og Sviss í riðlinum til þessa hafa verið afar spennandi.

„Liðin hafa skipst á að vera með forystuna í þessum leikjum fram og til baka. Maður hefur því verið að farast úr spennu en svona er körfuboltinn. Það er ofboðslega gaman að spila svo spennandi leiki eða horfa á þá. Boltinn fór ekki ofan í fyrir okkur á lokasekúndunni í Portúgal en á lokasekúndunni í síðasta leik gegn Sviss fór boltinn ofan í fyrir okkur. Körfuboltaguðirnir voru með okkur í liði í það skiptið en við þurfum að einbeita okkur að því að spila íslenskan körfubolta,“ sagði Frank Aron Booker þegar Morgunblaðið spjallaði við hann á landsliðsæfingu.

„Þegar við unnum Sviss voru allir búnir að vinna alla í riðlinum. Hver sigur er því mikilvægur en við þurfum bara að sjá hvernig þetta spilast. Við verðum að hugsa um næsta leik í stað þess að hugsa of mikið um hvernig fór hjá Portúgal og Sviss eða hver lokaniðurstaðan verður í riðlinum. Þessi þrjú virðast bara vera mjög jöfn að getu. Enda hafa leikirnir spilast þannig og eins og stundum gerist í körfuboltanum þá skipast liðin á að ná áhlaupi í leikjunum.“

Þakklátur fyrir tækifærið

Frank Aron á íslenska móður en bandarískan föður. Muna körfuboltaunnendur vel eftir honum, Franc Booker eldri, enda var hann mjög atkvæðamikill með ÍR, Val og Grindavík. Frank Aron lék ekki með yngri landsliðum Íslands og gat ekki gefið kost á sér þegar hann lék með býsna sterku liði í bandaríska háskólaboltanum NCAA, Oklahoma. Leikurinn úti í Portúgal á dögunum var því ekki bara hans fyrsti A-landsleikur heldur fyrsti landsleikurinn fyrir Ísland.

„Ég er mjög ánægður að geta spilað fyrir landið og þakklátur fyrir tækifærið. Loksins er ég í aðstöðu til að spila með landsliðinu en þegar ég var í háskólanámi þá var það ekki möguleiki. Núna get ég einbeitt mér að landsliðinu og hugsa bara um það í sumar.“

Spurður um hvort hann hafi fengið mikil viðbrögð eftir að hann þreytti frumraun sína með íslenska landsliðinu sagði hann svo vera. „Það eru allir í fjölskyldunni að fylgjast með og var gaman að sjá mitt fólk í stúkunni á móti Sviss. Ég hef aldrei spilað fyrir framan fólkið úr móðurættinni og er mjög ánægður með að fá tækifæri til þess. Ég hlakka til næsta leiks á móti Portúgal og er afskaplega ánægður. Ég á skyldfólk á Selfossi, í Hafnarfirði, í Garðabæ og systir mín mun koma á leikinn að norðan.“