Blómasetrið – Kaffi Kyrrð er blómabúð, kaffihús og gistiheimili í Borgarnesi sem notið hefur mikilla vinsælda hjá bæjarbúum og aðkomufólki.
„Blómasetrið er fjölskyldufyrirtæki sem var stofnað árið 2006,“ segir Katrín Huld Bjarnadóttir, sem rekur Blómasetrið – Kaffi Kyrrð ásamt móður sinni, Svövu Víglundsdóttur, og stjúpföður sínum, Unnsteini Arasyni. Fyrst um sinn var Blómasetrið aðeins blóma- og gjafavöruverslun en árið 2013 byrjaði fjölskyldan að bjóða upp á kaffi.
„Þetta byrjaði smátt og síðan hefur náttúruleg breyting og stækkun átt sér stað. Núna er þetta líka kaffihús og gistiheimili.“
Svava og Unnsteinn bjóða upp á heimagistingu á heimili sínu, auk þess að fjölskyldan er með herbergi og íbúðir sem hægt er að leigja. „Við viljum aldrei missa tenginguna við blómin,“ segir Svava. „Blóm gefa svo góða orku. Það er svo einlægt og fallegt að vera með lifandi jurtir í kringum sig. Þess vegna ætlum við aldrei að hætta að selja blóm.“
Mæla með vinstribeygjunni
„Við viljum alltaf að fólki líður betur þegar það fer héðan út en því gerði þegar það kom inn,“ segir Katrín. „Einkunnarorðin okkar eru „lifið, elskið, njótið.“ Það á einkum við um litlu hlutina í lífinu. Falleg blóm, góður kaffibolli, kaka, það sem kætir og gleður og hlýjar. Þegar maður veitir þessum litlu atriðum athygli geta þau gefið mjög mikið.“Fjölskyldan segir að fleiri Íslendingar hafi lagt leið sína inn í Borgarnes í sumar. „Við hittum marga Íslendinga sem hafa aldrei komið inn í þennan hluta bæjarins. Margir hafa aldrei tekið vinstribeygjuna,“ segir Katrín.
Þjóðvegur 1 liggur í gegnum Borgarbyggð, en vegurinn beygir síðan til hægri, út úr bænum. Fjölskyldan í Blómasetrinu, hins vegar, hvetur fólk að taka vinstri beygju og skoða inn í bæinn.
„Ég held að það sé sterk ímynd að Borgarnes tengist Hyrnunni. Maður stoppar bara og pissar í Borgarnesi,“ segir Svava, „en Borgarnes hefur upp á margt að bjóða. Hér er menningarlegur og fallegur staður.“
Katrín tekur undir það. „Það hefur verið mikil gróska í rúm sex ár. Landnámssetrið kom fyrir tíu árum og traffíkin inn í bæinn hefur aukist mikið síðan.“
Alltaf með blóm til sölu
Í dag eru nær eingöngu inniplöntur seldar í Blómasetrinu, þótt sumarblóm séu einnig seld yfir sumarmánuðina.„Inniplöntur eru orðnar vinsælli. Það er í tísku að hafa blóm inni hjá sér og í kringum sig,“ segir Svava.
Fjöldi inniplanta er á víð og dreif í Blómasetrinu, en þar eru ýmsir viðburðir á borð við prjónakaffi og Borgnesingahitting.
„Við erum með stór plön og viljum halda fleiri skipulagða viðburði í framtíðinni,“ segir Svava, „en þótt við séum að verða meira og meira kaffihús og gistiheimili verðum við alltaf með blóm til sölu.“