Kári Jónsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, verður fjórði íslenski leikmaðurinn sem spilar í finnsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Helsinki Seagulls staðfesti í gærmorgun að Kári hafi skrifað undir samning við félagið. Eins og fram kom hér í blaðinu í gær höfðu þeir Antti Kanervo, sem varð bikarmeistari með Stjörnunni síðasta vetur, og finnski landsliðsmaðurinn Shawn Huff gengið í raðir félagsins fyrr í sumar.
Keflvíkingurinn Falur Harðarson var brautryðjandi hvað Finnland varðar þegar hann gekk til liðs við ToPo árið 1999 en hann lék einnig með Playboys Honka. Eyjamaðurinn Friðrik Stefánsson lék með Lappeenranta og Njarðvíkingurinn Logi Gunnarsson með ToPo.
Þá lék Kanadamaðurinn Keith Vassell með KTP og Porvoon Tarmo en Vassell fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2003. Við þetta má bæta að margir bandarískir leikmenn hafa farið úr íslensku deildinni í þá finnsku í gegnum árin. Er þar nærtækt að nefna Jeb Ivey, leikmann Njarðvíkur.
Helsinki Seagulls var ekki stofnað fyrr en 2013 en tók þá í raun við af ToPo og þar af leiðandi má segja að Kári sé þriðji íslenski leikmaðurinn sem spilar með liðinu. Með fullri virðingu fyrir Fal, Loga og Kára þá teljast þeir ekki frægustu leikmenn sem komið hafa við hjá þessu félagi. Sá heiður fellur væntanlega í skaut margföldum NBA-meisturum frá Bandaríkjunum, Scottie Pippen og Dennis Rodman. Pippen lék tvo leiki með liðinu árið 2008, þá 42 ára, og Rodman lék einn leik með því árið 2005. kris@mbl.is