Í Grafarvogi Rasmus Christiansen úr Fjölni og Ástbjörn Þórðarson úr Gróttu takast á í gær.
Í Grafarvogi Rasmus Christiansen úr Fjölni og Ástbjörn Þórðarson úr Gróttu takast á í gær. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Óvænt úrslit urðu í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi, Inkasso-deildinni, þegar Haukar náðu í stig á Akureyri gegn Þór. Þórsarar sem eru í mikilli baráttu um sæti í efstu deild jöfnuðu raunar á 87.

Óvænt úrslit urðu í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi, Inkasso-deildinni, þegar Haukar náðu í stig á Akureyri gegn Þór. Þórsarar sem eru í mikilli baráttu um sæti í efstu deild jöfnuðu raunar á 87. mínútu og eru enn stigi á undan Gróttu sem gerði jafntefli á útivelli gegn toppliði Fjölnis.

Aron Freyr Róbertsson kom Haukum yfir með marki úr víti á 24. mínútu en Rick ten Voorde jafnaði á 87. mínútu fyrir Þór, einnig úr víti. Haukar eru í 10. sæti með 15 stig og þar af leiðandi kom gangur leiksins mjög á óvart.

Fjölnir náði ekki að slíta sig frekar frá Þór og Gróttu þar sem liðið gerði 0:0 jafntefli gegn Gróttu. Fjölnir er með þriggja stiga forskot á Þór á toppnum með 35 stig. Fín úrslit fyrir Seltirninga og útlit fyrir að lokasprettur sumarsins verði spennandi fyrir þá enda geysilega mikið í húfi. Grótta sem er nýliði í deildinni hefur einungis tapað tveimur leikjum af sautján.

Í Breiðholti unnu Leiknismenn sætan sigur á Þrótti en þar skoraði Ernir Bjarnason sigurmarkið á 89. mínútu. Leiknir er með 29 stig og er þremur stigum á eftir Þór og Breiðhyltingar eiga því ágæta möguleika á að komast upp í efstu deild á ný en þar var liðið sumarið 2015. Þrótttarar eru hins vegar í neðri hluta deildarinnar með í 8. sæti með 21 stig. Þeir teljast þó ekki í fallhættu enda átta stigum fyrir ofan fallsæti.

Keflvíkingar geta einnig gert sér einhverjar vonir um að komast upp um deild eftir að hafa lagt Ólsara að velli í Keflavík 2:1 en Keflavík féll úr efstu deild í fyrra. Dagur Ingi Valsson skoraði sigurmarkið á 71. mínútu og er Keflavík með 25 stig en Víkingur Ó er með 24 stig.

kris@mbl.is