Heimsókn Liðsmenn Hróksins heimsóttu meðal annars leikskólann í Kullorsuaq með bangsa handa börnunum. Hér sést Hrafn Jökulsson með þeim.
Heimsókn Liðsmenn Hróksins heimsóttu meðal annars leikskólann í Kullorsuaq með bangsa handa börnunum. Hér sést Hrafn Jökulsson með þeim.
„Þetta var sannkölluð ævintýraferð og gekk öllum vonum framar,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins. Á fimmtudag lauk hátíð Hróksins í Kullorsuaq, 450 manna þorpi á samnefndri eyju á 74.

„Þetta var sannkölluð ævintýraferð og gekk öllum vonum framar,“ segir Hrafn Jökulsson, forseti Hróksins. Á fimmtudag lauk hátíð Hróksins í Kullorsuaq, 450 manna þorpi á samnefndri eyju á 74. breiddargráðu við vesturströnd Grænlands, með sirkussýningu og fyrsta meistaramóti bæjarins í skák. Meirihluti bæjarbúa og nánast öll börnin í Kullorsuaq tóku þátt í hátíðinni, þar sem gleðin var allsráðandi. Hrókurinn skipulagði hátíðina annað árið í röð í samvinnu við heimamenn.

Sirkuslistamennirnir Axel Diego og Roberto Magro voru með sirkusskóla fyrir börn og fullorðna og slógu upp mikilli sýningu í íþróttahúsi bæjarins í hátíðarlok. Þeir voru líka í föruneyti Hróksins til Kullorsuaq í fyrra og segir Roberto að Kullorsuaq sé einstakur staður. „Ég hef sýnt og kennt í flestum heimsálfum, en aldrei kynnst öðru eins og hérna,“ sagði Roberto. Hann segir að jafnt ung börn sem veðurbarðir veiðimenn hafi sýnt einstaka takta og hæfileika. „Það býr einhver galdur hér í Kullorsuaq. Og að heilt þorp taki þátt í hátíð af þessu tagi er óviðjafnanlegt.“

Hrafn kenndi skák í grunnskólanum, þar sem eru um hundrað nemendur, og hann var ekki síður í skýjunum með árangurinn. „Við búum að heimsókninni í fyrra og þá var stofnað skákfélag í bænum. Börnin sýndu hreint undraverða leikni við skákborðið og öll voru þau jafn áhugasöm og yndislegt að upplifa leikgleðina,“ segir Hrafn og bætir við að undirbúningur fyrir næstu hátíð í Kullorsuaq sé þegar hafinn.