Bandaríska kvikmyndaverið Universal hefur frestað sýningum á ofbeldis- og ádeilumyndinni The Hunt sem fjallar um hóp ríkisbubba sem fer á mannaveiðar, grár fyrir járnum. Dagblaðið The Independent segir frá því að aðstandendum myndarinnar hafi verið hótað lífláti en ástæðan fyrir ákvörðun Universal er líklega einnig sú að þrjú fjöldamorð hafa verið framin nýverið í Bandaríkjunum með skotvopnum.
Í myndinni leika m.a. Hilary Swank, Betty Gilpin, Emma Roberts og Justin Hartley og er hún sögð pólitísk ádeila um átök stríðandi fylkinga í Bandaríkjunum, vinstri- og hægrimanna. Mikið er um manndráp í myndinni og blandaði Donald Trump Bandaríkjaforseti sér nýverið í umræðuna og sagði myndina bæði mjög hættulega og hlaðna kynþáttafordómum. Þessi ummæli forsetans eru þó ekki talin ástæðan fyrir því að Universal hefur ákveðið að bíða með að senda kvikmyndina frá sér.