[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég fékk smá stéttaskiptingar-æði eftir að ég flutti til Bretlands. Nú á dögum er ég heltekinn af því hversu mikinn sykur fólk setur út í teið sitt. Þess vegna lét ég það flakka að kaupa inn og lesa Respectable: Crossing the Class Divide .

Ég fékk smá stéttaskiptingar-æði eftir að ég flutti til Bretlands. Nú á dögum er ég heltekinn af því hversu mikinn sykur fólk setur út í teið sitt. Þess vegna lét ég það flakka að kaupa inn og lesa Respectable: Crossing the Class Divide . Bókin fjallar um upplifun höfundarins við að umbreyta sér úr fátækri-en-sniðugri stúlku úr útjaðri Birmingham yfir í millistéttarkonu. Hún lýsir tilfinningunni sem því fylgir að passa ekki inn neins staðar og mig grunar að tilfinningin sé svipuð því og að vera innflytjandi. Í útlöndum breytist þú ósjálfrátt til þess að passa inn í hópinn og einn daginn passar maður ekki alveg inn neins staðar. Til dæmis, nú þegar ég kem heim finnst mér Íslendingar dónalegir. Á sama hátt finnst mér óþolandi hversu kurteisir Bretar eru. Respectable lýsir svipuðu ferli og hvernig það hindrar marga í því að tryggja sér betri framtíð.

Ef þú vilt setja nútímann í samhengi verður þú helst að vita eitthvað um fortíðina. Með þetta í huga, ákvað ég að fjárfesta í Postwar: A History of Europe Since 1945 á Audible. Eftir 30 tíma hlustun finnst mér ég skilja minna um Evrópusögu en ég gerði áður. Hingað til hefur þessi „þekking“ fyrst og fremst skilað sér í því að með bros á vör tókst mér að leiðrétta bresku kærustu mína um Thatcher. Í kjölfarið stal ég upp úr bókinni samanburði milli þróunar breskra verkalýðsfélaga og sænska verkalýðskerfisins á 20. öldinni. Þetta var eins og „How do ya' like them apples“ senan úr Good Will Hunting – nema ég var leiðinlegi gæinn og hún varnarlaus. Ég mæli sterklega með þessari bók.