Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Fellur snjór úr fjallsins hlíð.
Fallaskipti eru tíð.
Djúpi hestur dvelur í.
Dóu syndugir í því.
Helgi Seljan svarar:
Snjóflóð grandað fjölda fá,
flóð að ströndum berast má.
Flóðhest má af myndum sjá,
mun ei syndaflóðið ná.
Guðrún Bjarnadóttir á þessa lausn:
Snjóflóð féll í fjallsins hlíð.
Á flóði þarabreiðan hvarf.
Flóðhestsvömbin sveiflast síð.
Syndaflóð gaf Nóa starf.
Helgi R. Einarsson leysir gátuna þannig:
Tengist fjöru og fjalli,
fákur Afríku í,
freistingin varð að falli.
Flóðið lausnin er því.
Síðan bætir Helgi við: „Syndaflóðið kemur hér við sögu, því fær þessi að fylgja með, – Mikil synd“:
Ég þekki' eina lífsins lind
við lífbeinið neðan við þind.
Mig furðar það æ
og aldrei því næ
hví eðli vort spyrt er við synd.
Eysteinn Pétursson svarar:
Í snjóflóðum margir bana bíða,
breyta sjávarföll ásýnd landa.
Flóðhestum vilja fáir ríða.
Flóðið synda réð mörgum granda.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Mörg af snjónum falla flóð.
Flóðin sjávar eru tíð.
Flóðhestar á fiskaslóð.
Flóðið Synda drekkti lýð.
Og síðan kemur ný gáta eftir Guðmund:
Gátu hef ég saman sett,
sem er kannski ívið létt
hyggin fyrir hal og sprund.
Heilann brjótið nú um stund:
Nauðstöddum hún lífið lér.
Líka nafn er svanni ber.
Fyrir stungu fingur ver.
Fæða góð er handa þér.
Ólafur Briem á Grund orti:
Nauts á hrygginn maður mátt
meira pískinn spara.
Jafningja þinn aldrei átt
illa með að fara.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is