Herdís Tryggvadóttir fæddist í Reykjavík 29. janúar 1928. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 15. ágúst 2019.

Foreldrar hennar voru Herdís Ásgeirsdóttir, f. 1895, d. 1982, og Tryggvi Ófeigsson, f. 1896, d. 1987, útgerðarmaður. Systkini Herdísar: Páll Ásgeir, f. 1922, d. 2011; Jóhanna f. 1925, d. 2011; Rannveig, f. 1926, d. 2015; og Anna, f. 1935, sem er nú ein eftirlifandi þeirra systkina.

Herdís gekk í hjónaband 7. nóvember 1953 með Þorgeiri Þorsteinssyni, sýslumanni og lögreglustjóra á Keflavíkurflugvelli, f. 28. ágúst 1929, d. 27.11. 2013. Þau skildu. Foreldrar hans: Sigríður Þorvarðardóttir Kjerúlf, f. 1891, d. 1973, og Þorsteinn Jónsson, kaupfélagstjóri KHB, f. 1889, d. 1976. Börn Herdísar og Þorgeirs eru: A) Herdís, mannréttindalögfræðingur, f. 1954. Barn Herdísar og fyrri eiginmanns, Stefáns Erlendssonar: i) Herdís, f. 1987. Hennar maður: Dustin O'Halloran; barn þeirra: Ísold Aurelia, f. 2018. Börn Herdísar og síðari eiginmanns, Braga Gunnarssonar, þau skildu: ii) María Elísabet, f. 1993, iii) Gunnar Þorgeir, f. 1994, iv) Hörður Tryggvi, f. 1997. B) Þorsteinn, hagfræðingur, f. 1955. Maki: Ásta Karen Rafnsdóttir. Börn þeirra: i) Ásta Sólhildur, f. 1991. Hennar maður: Kristján Skúli Skúlason; barn þeirra: Tryggvi Veturliði, f. 2018, ii) Ásgeir Þór, f. 1994, Herdís Athena, f. 1997. C) Sigríður, prófessor, f. 1958, prófessor. Maki: Magnús Diðrik Baldursson. Barn þeirra: Elísabet, f. 1986. Maki: Christoph Buller; barn þeirra: Hekla Lúísa, f. 2018. D) Ófeigur Tryggvi, læknir, f. 1960. Maki: María Heimisdóttir. Synir þeirra: i) Tryggvi, f. 1991, ii) Gísli, f. 1998.

Herdís ólst upp í Reykjavík, bjó fyrst á Vesturgötu 32, á Hávallagötu 9, og næstum síðustu 40 ár ævinnar á Laugarásvegi 17a. Herdís var við nám í húsmæðraskóla Skarhult í Svíþjóð eftir seinni heimsstyrjöldina og lærði um skeið leiklist í skóla Lárusar Pálssonar. Herdís lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands og varð stúdent þaðan vorið 1950. Hún lagði síðar stund á ensku við Háskóla Íslands. Hún vann á skrifstofu Júpíters og Mars en var heimavinnandi eftir það, fyrir utan nokkur ár sem hún vann hjá Loftleiðum.

Herdís vann alla tíð að mannúðarmálum, ekki síst tengdum kirkjunni, málefnum kvenna og náttúru- og dýravernd. Hún studdi heilsugæsluverkefni á vegum Kristniboðssambandsins í Afríku, var stofnaðili að friðarsveitum Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, beitti sér innan samtakanna Herferð gegn hungri og átti þátt í stofnun samtaka gegn limlestingu á kynfærum kvenna, svo eitthvað sé nefnt. Herdís tók þátt í starfi bænahóps fyrir sjúka í Hallgrímskirkju um langt árabil. Hún tók virkan þátt í náttúruverndarbaráttu í upphafi þessarar aldar og birti fjölda blaðagreina um hugðarefni sín, þ.ám. um dýravernd, en hún neytti ekki kjöts frá unga aldri.

Útför hennar fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 15.

Við kveðjum í dag Herdísi Tryggvadóttur. Með Herdísi er gengin einstök kona sem átti engan sinn líka. Hún var hugsjónakona sem barðist fyrir öllu og öllum sem eru óréttlæti beittir eða standa höllum fæti; mönnum, dýrum, náttúrunni. Baráttuþrek sitt sótti Herdís ekki síst í sannfæringu trúarinnar. En hún prédikaði ekki trú sína í orði heldur lifði hana og sýndi í verki. Þannig var Herdís öllum sem henni kynntust lýsandi fyrirmynd.

Herdís var góða sálin í fjölskyldunni. Hún var kærleiksrík móðir, tengdamóðir, amma og langamma. Hún reyndist okkur fjölskyldunni alla tíð einstaklega vel, var hjálpsöm, ástrík, nærgætin og örlát. Herdís skildi eftir sig mikinn auð með afkomendum sínum og gaf þeim skilyrðislausa ást og umhyggju. Hún var ætíð hvetjandi og styðjandi og vék aldrei styggðaryrði að nokkrum manni heldur sá það besta í öllum.

Herdís var falleg ytra sem innra og í henni sló gullhjarta. Það var mikil gjöf að fá að verða samferða henni í 35 ár. Með hverju árinu sem leið dýpkaði vinátta okkar. Hún hafði skoðanir en var lærdómsfús, ævinlega opin fyrir nýjum hugmyndum og til í að ræða um hvað sem var. Og hún var skemmtileg og fyndin – smitandi hlátur hennar ómótstæðilegur. Allir sem umgengust Herdísi komu betri manneskjur af hverjum fundi við hana.

Ég kveð Herdísi Tryggvadóttur tengdamóður mína með söknuði, þakklæti og djúpri virðingu. Minning hennar mun lifa.

Magnús Diðrik Baldursson.

Elsku amma mín Herdís. Nú þegar ég kveð þig með trega í hjarta í hinsta sinn, elsku amma mín, finnst mér ég þurfa að kveðja svo miklu meira en bara þig sem manneskju. Ég þarf endanlega að kveðja æsku mína sem þú stóðst vörð um eins og klettur með óþreytandi jákvæðni, uppörvun, áhyggjum um hvort mér væri kalt eða ég þreytt, með ást og þolinmæði. Ömmur og afar eru verndarar barnsins innra með okkur og það er ein mesta gjöf lífs míns að hafa fengið að njóta þess fram á fullorðinsaldur að eiga eins merkilega manneskju að og amma mín Herdís var.

Það voru átök og áskoranir í lífi ömmu Herdísar sem við barnabörnin urðum aldrei vör við í æsku en hún ræddi svo fallega opinskátt um þegar við eltumst. Þegar ég hef sjálf þurft á að halda var hún alltaf traustur vinur, talaði í mig kjark, dæmdi aldrei, var hreinskilin og sýndi mér einlæga og mannlega hlið á sér. Hún kenndi mér að líta á erfiðleikana sem eðlilega kafla lífsins. Ég er ekki viss um að það sé til manneskja í þessari veröld sem var jafn full af gleði og þakklæti og hún – fram á síðustu ævidaga sína. Amma Herdís eltist og lést með einstakri reisn án þess að tapa nokkru sinni bjartsýni sinni eða fegurð.

Amma Herdís sagðist hafa getað hugsað sér að verða leikkona eða hjúkrunarfræðingur ef hún hefði farið í frekara nám, en í stað þess að fyllast eftirsjá lifði hún gildi þessara starfsstétta; var geislandi skemmtikraftur og húmoristi, umhyggjusöm við þá sem voru hjálparþurfi, gaf sig alla í umönnun fjölskyldu sinnar, var örlátari en flestir og sparaði aldrei hrós. Hún kynnti mig fyrir Albert Schweizer og hugmyndum sínum um hjálparstarf þegar ég var lítil stelpa sem gaf mér kjark til að ferðast á framandi slóðir og velja mér framtíðarstarf.

Heimsóknir mínar til Íslands síðastliðinn áratug hafa einkennst af því að fá að eyða sem mestum tíma með ömmu Herdísi; að fara saman í laugarnar þar sem hún flaut á bakinu í pottinum eins og svífandi engill, drekka 50:50-blöndu af neskaffi á tröppunum á Laugarásveginum, á Dalbraut og svo Grund, læra öll lög Sound of Music utan að, hafa hana sem heiðursgest í brúðkaupinu mínu, tala um guðinn hennar og lífið og allt það sem skiptir mestu máli, hlæja saman og skynja léttleika lífsins í samskiptum við hana. Enginn hafði jafn smitandi hlátur, eins og allir sem hana þekktu vita. Amma sýndi mér að það er í senn hægt að vera djúpvitur og bæði einlæg og sjálfstæð í hugsun – t.d. með því að hafa mynd af Línu langsokk á afmælistertunni í áttræðisafmæli sínu – og kenndi mér að í raun sé það einn og sami hluturinn.

Heimferðirnar munu aldrei verða samar héðan í frá en Reykjavík verður eins og þakin blómabreiðu úr minningum um ömmu sama hvert ég lít.

Ég hefði aldrei orðið að þeirri manneskju sem ég er í dag ef ekki hefði verið fyrir þig, elsku amma mín. Þú hefur mótað mig svo miklu meira sem persónu en þig gæti órað fyrir. Það er ein stærsta gjöfin í lífi mínu að hafa fengið að verið barnabarn þitt.

Þakklætið er óendanlegt.

Elísabet Magnúsdóttir Sigríðardóttir.

Amma mín var tímalaus kona. Hún lét sér hreyfingar mínútuvísisins í léttu rúmi liggja og ég sá hana aldrei drífa sig. Hún var líka tímalaus því hún hélt alltaf í barnið í sér, lífsglöð og forvitin til hinsta dags. Því þótti mér aldrei erfitt að ímynda mér hana á ólíkum æviskeiðum. Sem myrkfælið og draumlynt barn sem fletti hugfangið sögunni af Örkinni hans Nóa, sem ungling sem keyrði bíl föður síns próflaust, sem rúmlega tvítuga konu sem heimsótti sláturhús með tengdaföður sínum og borðaði aldrei kjöt framar. Hún var falleg og trúuð.

Amma mín var hugsjónakona. Hún klippti út allar greinar sem tengdust velferð dýra. Hvort sem umfjöllunarefnið var aðbúnaður selanna í Húsdýragarðinum eða siðferðileg hugvekja um kjötiðnaðinn. Lengi var það henni kappsmál að fá Kobba, roskna páfagaukinn í Blómavali, færðan yfir í stærra búr.

Húsið hennar var ævintýralegt eins og hún sjálf. Það var dulmagnaður og yndislegur staður. Veggirnir voru klæddir þykkri furu. Á efri hæðinni var japanskt vaxblóm, risavaxin hengiplanta með ljósbleikum og hvítum blómaklösum sem minntu á útskorið kertavax. Fíngerðir og mjúkir stilkar héngu yfir flöskugrænt handrið og slúttu niður á neðri hæð. Þar voru stórblómóttar gardínur fyrir gluggum, svo síðar að faldurinn lá í konunglegum fellingum á gólfinu. Hún bakaði súkkulaðiköku og bræddi suðusúkkulaði yfir, steikti pönnukökur með mörgum eggjum, samt brotnuðu þær þegar maður reyndi að rúlla þeim. Við sátum á heitri stétt fyrir utan útihurðina, með ullarteppi og sængur undir okkur. Ég með valinn hatt úr safni ömmu á kollinum. Amma sjálf svo kulsæl að hún var með alpahúfu og íklædd tveimur ullarpeysum í sólinni. Nágrannastrákurinn sló grasið og amma bað hann að sneiða framhjá fíflunum því henni fannst þeir svo fallegir.

Amma mín eignaðist vini hvert sem hún fór. Hún hafði einstaka útgeislun og sterka nærveru sem var uppfull af gleði og samkennd. Ég get ekki séð fyrir mér andlitið hennar öðruvísi en brosandi. „Þú þarft mikið að tala, Maja,“ sagði hún við mig þegar ég var barn. Hrifning hennar á allri einlægri tjáningarþörf var fölskvalaus. Mér fannst ég geta sagt ömmu allt og hún hlustaði á mig vaða elginn. „Ég var aldrei mikið fyrir skóla, ég var alltaf meira fyrir lífið,“ sagði hún glettin. „Og kannski verð ég fyrsta konan á Íslandi til að deyja úr leti,“ sagði hún líka enda hafði hún mikinn húmor fyrir sjálfri sér.

Sannleikurinn er sá að amma mín var frjáls andi. Viðjar kerfisins höfðu aldrei roð við henni. Hún var flugmælsk og þegar ég varð eldri skrifaði ég oft niður eftir henni. Í vor sagði amma við mig orðrétt: „Lífið er ekki að renna sér eftir sléttu skautasvelli. Það getur enginn verið blómaskraut kyrrt í vasa sem enginn snertir. Lífið tekur í mann og tuskar mann til. En útkoman er oft ágæt.“

Hjartans amma, kvik og ung sál, frjór hugur og viturt hjarta. Ég er Guði þakklát fyrir að hafa átt hana sem ömmu. Ég gleðst yfir lífi hennar, að hafa fengið að elska hana og þiggja allar hennar gjafir. Það er í hennar anda. Guð blessi ömmu.

María Elisabet Bragadóttir.

Elsku Heddý frænka, minningar streyma fram um góðar stundir þar sem fjölskyldur okkar nutu hvítu sandstrandanna á Flórída og æskuminningar frá flotastöðinni í Keflavík á meðan faðir minn, flug-skurðlæknir, var staðsettur þar með Önnu systur þinni og móður minni. Man eftir móanum og hrauninu sem var leikvöllur okkar frændsystkina og okkur að búa til flugvélar úr dagblöðum og að bralla ýmislegt. Og hvað pabbi minn hafði gaman af því að stríða þér, bara til að heyra hlátur þinn og sjá bros þitt! Hvað tíminn hefur liðið hratt! Man eftir húsinu þínu í Garðabænum þegar ég var orðinn aðeins stærri og okkur frændsystkinum, krökkunum þínum, að leika í kríuvarpi í grenndinni. Þá brosi ég við tilhugsunina um klikkaða hundinn þinn á heimili þínu á Laugarásvegi, nálægt stóru sundlauginni. Dásamlegir hádegisverðir og kvöldverðir á æskuheimili þínu á Hávallagötunni, skemmtilegar máltíðir á Hótel Sögu, sem í minningunni eru sérstakar, ekki síst vegna nærveru þinnar, glampans í augunum og brossins þíns sem var „bjart eins og nýsleginn túskildingur“. Hláturinn smitaði alla viðstadda. Við munum sakna þín sárt og erum öll betri manneskjur fyrir að hafa átt þig að í lífi okkar. Ég er einfaldlega þakklátur afa Tryggva Ófeigssyni og ömmu Herdísi Ásgeirsdóttur fyrir að koma til manns því afbragðsfólki sem ég kalla með stolti móðursystur: Heddý, Rönnu, Hönnu og Pál móðurbróður. Alveg er ég viss um að þau brosa breitt, með hlýju í hjarta og faðminn opinn þar sem þau bjóða þig nú velkomna heim. Guð hraði för þinni og blessi þig elsku Heddý.

Tryggvi McDonald.

Það var mikil gæfa að fá að vera samferða Heddý frænku og hennar fólki alla tíð. Hún og móðir mín, Rannveig, voru systur og aldursmunurinn var aðeins 14 mánuðir. Afar kært var með þeim og áttu þær margt sameiginlegt. Ég held ég megi segja að stuðningur þeirra hvorrar við aðra hafi verið ómetanlegur en þær urðu báðar einstæðar mæður, önnur með fjögur ung börn og hin fimm. Þetta var á tímum þegar skilnaðir voru fátíðir og öryggisnetið ekki eins þéttriðið og nú er.

Heimili Heddýjar stóð okkur systkinunum ávallt opið og var alltaf gaman að koma þangað. Ekki síst þar sem ég var svo heppinn að eiga þar jafnaldra og vin, Ófeig Tryggva, en mæður okkar fæddu okkur með fimm daga millibili.

Elskusemi Heddýjar og umhyggja fyrir öðrum, ásamt glaðværð og kímni, var afar einkennandi fyrir hana og ekki síður hversu vítt og breitt þessir eiginleikar teygðu sig. Allir nutu jafnt, hvort heldur fjölskylda, menn eða málleysingjar, vinir eða vandalausir.

Lýsandi dæmi um þetta er þegar nágranni hennar stóð í framkvæmdum við heimili sitt og bað um leyfi til að staðsetja kaffistofugám á heimreið Heddýjar um nokkurra mánaða skeið. Var það auðsótt mál, en hún bætti um betur og bakaði reglulega kökur ofan í vinnumennina og færði þeim með sínu breiða brosi.

Einhverju sinni er ég var u.þ.b. 13 ára ætlaði Heddý sér að hringja í móður mína en ég svaraði í símann. Furðaði hún sig á því að ég væri heima en ekki í skólanum. Ég svaraði sem var, að skólasystkinin væru í skíðaferðalagi, ég ætti ekki skíði og væri því heima. Henni fannst það afleitt og sagðist myndu sækja mig eftir hálftíma, sem hún og gerði. Því næst fórum við í Útilíf og þar gerði hún mig að stoltum skíðaeiganda. Fyrir þetta og svo margt annað er ég henni eilíflega þakklátur. Ekki síst umhyggjusemina gagnvart börnunum mínum.

Við Þuríður sendum öllum aðstandendum og vinum Herdísar Tryggvadóttur okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ég get ekki skilið við þessi orð án þess að geta þess hversu trúuð hún var, í fallegustu merkingu þess orðs.

Guð blessi þig Heddý mín og takk fyrir allt.

Tryggvi Hallvarðsson.

HINSTA KVEÐJA
Sólargeislinn Heddý frænka passaði mig í nokkra mánuði þegar ég var tveggja ára. Hún var með foreldrum mínum í Stokkhólmi þar sem faðir minn var í utanríkisþjónustunni. Sambandið sem myndaðist þá á milli mín og föðursystur minnar hélst alla tíð.
Takk, elsku Heddý frænka, fyrir skilyrðislausa ást og vináttu. Samúðarkveðjur frá okkur Þórhalli til fjölskyldunnar. Guð blessi þig.

Herdís Pálsdóttir.