Löggæsla Lögreglan er við öllu búin á borgarhátíðum. Mynd úr safni.
Löggæsla Lögreglan er við öllu búin á borgarhátíðum. Mynd úr safni. — Morgunblaðið/Kristinn
Guðni Einarsson Þorgerður Anna Gunnarsdóttir Verklag lögreglu á hátíðum á vegum Reykjavíkurborgar var rætt á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs í gær.

Guðni Einarsson

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir

Verklag lögreglu á hátíðum á vegum Reykjavíkurborgar var rætt á fundi mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs í gær.

„Við fórum yfir verklag á borgarhátíðum og útskýrðum starfsumhverfi okkar,“ sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu (LRH). Hún sagði að þessar hátíðir væru bundnar þeim skilyrðum að lögreglan væri með gott utanumhald. „Þetta fer allt fram í góðu samstarfi og er skipulagt á vinnufundum með borginni og þeim sem að hátíðunum standa,“ sagði Sigríður.

Á morgun eru Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og Menningarnótt, síðustu stóru viðburðir sumarsins í borginni. Sigríður sagði að ríkislögreglustjóri hefði gefið út nýtt hættumat fyrir bæjarhátíðir fyrir um þremur árum. LRH hefði hagað skipulagi sínu í samræmi við það. Þar er m.a. kveðið á um aukinn sýnileika lögreglu á hátíðunum, að sérstaklega sé gætt að lokunum m.a. til að koma í veg fyrir að hægt sé að aka inn í mannfjölda og að lögreglan sé viðbragðsfljót ef eitthvað gerist.

Réttmæti aðgerða dregið í efa

„Það hefur ekki farið framhjá neinum sem hefur fylgst með í sumar að það hafa komið upp mál þar sem réttmæti aðgerða lögreglu á hátíðum eru dregnar í efa, svo sem leitir án dómsúrskurðar á Secret Solstice og nýlegt mál þar sem ung kona var handtekin vegna gruns um mótmæli á Hinsegin dögum,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi og formaður ráðsins. Hún sagði að einstök mál yrðu ekki rædd heldur væri þetta tækifæri til að fara skipulega yfir vinnureglur og hvert þeir sem teldu lögreglu hafa brotið á sér gætu leitað. Með þessu vildi borgin sýna ábyrgð og bæta sambandið milli lögreglu og borgarbúa.

Sigríður lögreglustjóri kvaðst ekki geta rætt einstök mál en sagði aðspurð um atvikið á Hinsegin dögum að LRH hefði tryggt allar upptökur af því og sent þær til nefndar um eftirlit með lögreglu og óskað eftir að hún skoðaði málið.