Eva Magnúsdóttir
Eva Magnúsdóttir
Eftir Evu Magnúsdóttur: "Tilvistargrundvöllur sem byggist á sjálfbærni er okkar skýrasta tækifæri til frekari vöruþróunar."

Hvernig getur tilvistargrundvöllur fyrirtækja, ástæða þess að fyrirtækið er til staðar, hjálpað því til þess að ná framúrskarandi árangri í rekstri og taka þátt í að bjarga heiminum í leiðinni? Samkvæmt rannsókn sem PwC gerði fyrir nokkrum árum þróast fyrirtæki hraðar og eru virkari í nýsköpun ef þau hafa skýran tilgang eða tilvistargrundvöll. Í rannsókninni kom jafnframt fram að 79% leiðtoga sem þátt tóku í könnuninni trúa því að tilgangurinn á bak við stofnun fyrirtækisins sé hjartað í árangri þess í rekstri.

Þetta eru mjög áhugaverðar niðurstöður en einnig er fullyrt að viðskiptavinir telja fyrirtæki sem leggja mikla áherslu á tilganginn með stofnun þess séu umhyggjusamari og þyki vænna um viðskiptavini sína. Það leiðir af sér að viðskiptavinir eru þeim tryggari. Á þessum síðustu og verstu þar sem loftslagsbreytingar ógna tilveru okkar og veðrabreytingar hafa þegar haft áhrif þurfa fyrirtækin að velta enn frekar fyrir sér tilgangi sínum sem getur gert vörumerkið einstakt og hjálpað til við aðgreiningu.

Það er bæði mögulegt að vera góður í viðskiptum og jafnframt ábyrgur, t.d. að vinna eftir sjálfbærnistefnu, tryggja tilvist sína til framtíðar og aðstoða við björgun heimsins í leiðinni. Mikilvægast af öllu er að fyrirtæki og sveitarfélög átti sig á því að sjálfbærni verði hluti af stefnunni og tengist gildum þess. Öll viljum við að fyrirtækin sem við skiptum við hafi góða sögu að segja okkur um af hverju þau eru hér og hvert sé þeirra framlag til heimsins. Til þess að breyta reglunum í viðskiptalífinu þurfum við stundum að ákveða að hætta að skipta við fyrirtæki sem ekki standa sig í þessum efnum. Á samfélagsmiðlunum ferðast fréttir hratt um fyrirtæki sem misnota gjafir náttúrunnar, menga og hugsa illa um starfsmenn sína. Það skiptir því jafn miklu máli fyrir okkur sem rekum fyrirtækin að vera breytingin sem við boðum.

Fyrirtæki með engan tilgang annan en gróða eru til lengdar ekki líkleg til að njóta tryggðar okkar í framtíðinni. Á samfélagsmiðlum eru sagðar sögur af litlu búðinni sem selur eingöngu snyrtivörur sem aldrei hafa verið prófaðar á dýrum. Í annarri búð geturðu komið og fyllt á þvottaefni og fleira og skilað af þér umbúðum. Þessi litlu fyrirtæki hafa mjög skýran tilvistargrundvöll. Tilvistargrundvöllur sem byggist á sjálfbærni er okkar skýrasta tækifæri til frekari vöruþróunar í framtíðinni og tryggir áframhaldandi tilvist okkar allra.

Höfundur er stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Podium ehf.

Höf.: Evu Magnúsdóttur