Hafdís Hannesdóttir fæddist 19. febrúar 1950. Hún lést 24. júlí 2019.

Útför Hafdísar fór fram 2. ágúst 2019.

Kær vinkona hefur fengið hvíld eftir löng og erfið veikindi.

Í gegnum árin höfum við oft setið og spjallað saman, í seinni tíð var hún í hjólastólnum sínum eða þá komin upp í rúm þegar ég birtist í fimmtudagsheimsókninni minni.

Umræðuefnin voru næg og viskubrunnur Hafdísar var bæði stór og djúpur.

Dagbókin hennar fékk með tímanum aukið vægi og var gott að geta stuðst við hana þegar við vorum að rifja upp og setja hlutina í samhengi.

Saman bættum við svo nýjum texta í bókina þann daginn.

Á tímabili ferðuðumst við saman með Heimsatlasinn hennar fyrir framan okkur.

Þannig var hægt að skoða fjarlæg lönd og staði sem voru Hafdísi kærir. Oft skruppum við til Noregs.

Hafdís tókst á við hvert áfallið á fætur öðru en hún bar ekki byrðar sínar ein, til þess voru þær of þungar. Hún lagði þær í hendur Guði og það, ásamt hennar einstaka upplagi, bjartsýni og þrautseigju, gerði henni mögulegt að takast á við daglegt líf.

Hafdís skilur ótalmargt eftir sig fyrir okkur sem eftir sitjum. Hún sá gleðina og jákvæðu hliðarnar svo víða. Hún dáði blómin og dásamlega sumarbirtuna og bláa Esjuna gat hún séð út um stofugluggann sinn.

Það var gott að eiga vináttu Hafdísar. Hvíli hún í friði.

Sigríður Ísleifsdóttir.