Karítas Jóhannsdóttir fæddist á Húsavík 25. desember 1961. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Þorlákshöfn 9. ágúst 2019.

Karítas ólst upp hjá foreldrum sínum og systkinum á Húsavík og gekk þar í barna- og gagnfræðaskóla. Foreldrar hennar eru Jóhann Helgason, fæddur 29. apríl 1943, og Helga Þórey Jónasdóttir, fædd 23. júlí 1942. Karítas var önnur í röð sex systkina en þau eru: Jónas Jóhannsson, f. 26. janúar 1959 og á hann tvo syni, Hildiþór og Unnstein Almar. Helgi Jóhannsson, f. 17. maí 1963, maki hans er Selma Dröfn Birgisdóttir og eiga þau fimm börn, Jónu Lind, Hörpu Rún, Jóhann Örn, Ásgeir Snæ og Birgi Þór. Kristjana Laufey Jóhannsdóttir, f. 25. júní 1967, maki hennar er Pétur Ólafur Pétursson og börn hennar eru Laufey Sunna, Huginn Frár og Auður Ísold. Jóhann Jóhannsson, f. 15. apríl 1977, maki hans er Katrín Ósk Björnsdóttir og eiga þau tvö börn, Ylfu og Styrmi. Tinna Jóhannsdóttir, f. 1. júlí 1980. Börn hennar eru Gabríela og Elmar Daði.

Karítas byrjaði ung að vinna. Hún vann við fiskvinnslu á sínum yngri árum, einnig var hún háseti og kokkur á loðnuskipi nokkrar vertíðir og vann við matseld og ýmis þjónustustörf í landi. Hún bjó nokkur ár í Vestmannaeyjum og starfaði þá meðal annars sem þerna og kokkur á Herjólfi. Hún bjó í nær áratug í Portúgal og stundaði þar ýmis þjónustustörf.

Karítas eignaðist tvær dætur og tvö barnabörn. Dætur hennar eru: Thelma Eyfjörð Jónsdóttir, f. 26. júlí 1987, maki hennar er Þór Rúnar Þórisson, dóttir Thelmu frá fyrra sambandi er Alexandra Guðný og synir Þórs eru Alexander og Guðmundur Þórir. Jóhanna Helga Gunnlaugsdóttir, f. 29. apríl 1992, maki hennar er Örvar Elíasson og dóttir þeirra Thelma Björk, sonur Örvars er Matthías Bent.

Útförin fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 13.

Í dag fylgi ég elskulegri frænku minni Kæju síðasta spölinn. Líf okkar Kæju hefur einhvern veginn alltaf fléttast saman í gegnum árin þar sem við ólumst upp saman á Húsavík. Þar sem feður okkar eru bræður og mæður okkar systur þá var aldrei haldin sú veisla eða ættarmót í fjölskyldunni að þessar tvær fjölskyldur hittust ekki. Eftir að við urðum unglingar og fluttar á höfuðborgarsvæðið áttum við margar skemmtilegar stundir. Það var aldrei nein lognmolla í kringum Kæju á þeim árunum enda alveg sérstaklega léttlynd og með skemmtilegan húmor. Hún var um leið alveg einstaklega hlý manneskja og sparaði ekki faðmlögin, knúsin og hrósið til fólksins í kringum sig. En það var þó ekki svo að lífshlaup Kæju hafi allt verið á léttu nótunum því að í gegnum lífið tók hún margar dýfurnar sem sumar hverjar voru óafturkræfar og reyndist lífshlaupið því ansi flókið og þyrnum stráð. Hún náði einhvern veginn ekki stöðugleika í líf sitt og ró í sálina nema ef vera skyldi allra síðustu ár. Ekki hitti ég Kæju án þess að hún nefndi hve þakklát hún væri og stolt af stelpunum sínum, Thelmu og Jóhönnu Helgu, og hvað þær væru duglegar, heilbrigðar og yndislegar ungar konur þrátt fyrir mikið mótlæti og áföll í æsku. Hún sá ekki sólina fyrir ömmustelpunum sínum, Alexöndru Guðnýju og Thelmu Björk, og hlakkaði mikið til að fá að fylgjast með þeim vaxa og dafna í framtíðinni. En henni var það ekki ætlað.

Kveð ég þig með miklum söknuði, mín kæra.

Elsku Thelma, Jóhanna Helga og fjölskyldur, Jói, Helga, Jónas, Helgi, Kristjana, Jóhann, Tinna og fjölskyldur, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Jóney.

Karitas frænka mín, oftast kölluð Kæja, var mikill sólargeisli. Hún var glaðvær, hress og kát, einstaklega hjartahlý og tilbúin að styðja og aðstoða aðra. Hún var orðheppin með þvílíkan húmor að ég man varla slíka. Hún gat komið heilum matsölustað til að hlæja, en það gerðist einmitt hjá okkur í Portúgal í fyrra. Þá vorum við frænkurnar í sólarlandaferð saman, sem ég er nú afar þakklát fyrir. Við höfðum ekki hist mikið undanfarin ár þar sem hún bjó ekki í bænum og var alltaf með annan fótinn erlendis, en þrátt fyrir allt var alltaf sterk tenging á milli okkar. Þarna fengum við tækifæri til að hittast og vera saman.

Við mældum okkur mót á sólarströnd þar sem hún hafði búið og þekkti vel til, en var þessi elska altalandi á portúgölsku. Hún var þá að koma frá Póllandi þar sem hún hafði dvalið í nokkra mánuði.

Það var notalegt að spjalla saman úti á svölum langt fram eftir kvöldi, hlæja og deila með hvor annarri innstu leyndarmálum.

Kæja var næm og góður vinur sem var alltaf tilbúin að hlusta á allar mans raunir.

Hún var góðhjörtuð og hjálpsöm við aðra þótt hún ætti sjálf við ýmsa erfiðleika að stríða. Þessi gleðigjafi lét ekki sitt ekki eftir liggja við fórnaði sér fyrir allt og alla sem voru hjálparþurfi. Það eru ófáir hér og erlendis sem hafa notið góðs af hjálpsemi hennar. Í þeirra hópi eru margir sem áttu erfitt uppdráttar og stóðu höllum fæti í tilverunni.

Síðasta árið var ekki létt hjá elsku frænku. Hún var búin að vera á faraldsfæti og átti í raun engan fastan stað í tilverunni, en ömmubörnin skiptu hana öllu máli og nálægt þeim vildi hún vera.

Þannig var að hún kom með mér heim frá Portúgal og var hjá mér í rúman mánuð á meðan hún leitaði að húsnæði. Þegar hún tók saman dótið sitt eftir að hafa fundið herbergi hjá indælishjónum sagði hún við mig „ég vona að þetta verði í síðasta skiptið sem ég flyt“. Mér fannst það afar ósennilegt þar sem herbergið var inni á öðrum, en þessi orð voru samt sögð með sanni.

Lífið var flókið fyrir elsku frænku og hún orðin þreytt. Hún átti trú á Drottin Jesú sem þekkir, sér og skilur allt og hún hefur fengið að fara heim í hvíldina, kærleikann og gleðina í faðm föðurins á himnum.

Elsku Kæja mín tók ekki alltaf rétt á málum eða réttar ákvarðanir, en hún vildi vel þótt hún réði ekki alltaf við hlutverkið, það verður henni ekki reiknað til ranglætis vegna góðra meininga og fallegs hjartalags.

Það var alltaf gaman að hringja í Kæju frænku og spjalla við hana í símann. Hennar hlýju, húmors, hjálpsemi og föðurlandsástar verður sárt saknað og alls góða spjallsins sem við höfum átt saman.

Já, elsku kæra Kæja mín. Ég ætlaði einmitt að fara hringja í þig í þessari viku. Þú varst nánasta frænka mín og það vissir þú. Ég á eftir að sakna þín mikið, en ég veit og við vitum báðar að nú ertu á betri stað þar sem þér er tekið opnum örmum.

Knús og kveðja frá mér til þín, elsku fallega frænka mín. Það verður leiðinlegt að geta ekki hringt í þig, en við sjáumst síðar og það verður eintóm gleði. Elska þig.

Inga Guðrún

Halldórsdóttir.

Mig langar að minnast góðrar vinkonu minnar, Karitasar Jóhannsdóttur sem kölluð var Kæja. Ég og Kæja vorum vinkonur til margra ára. Mig setti hljóða þegar ég frétti af andláti hennar. Ég mun sakna hennar mikið. Hún skrifaði alltaf svo fallega til mín. „Flott ertu mín kæra.“ Þessa setningu mun ég varðveita alltaf. Elsku Kæja mín, takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman, takk fyrir allt. Guð veri með þér.

Ég votta dóttur Kæju, Thelmu Eyfjörð, og fjölskyldu, foreldrum, systkinum og fjölskyldunni allri mína dýpstu samúð. Guð veri með ykkur öllum.

Ykkar vinkona,

Guðrún Lára Pálsdóttir.