[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Lítið hefur heyrst af Emil Hallfreðssyni, landsliðsmanni í knattspyrnu, síðustu vikur, en hann er án félags eftir að samningur hans við Udinese á Ítalíu rann út í júní.

Fótbolti

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Lítið hefur heyrst af Emil Hallfreðssyni, landsliðsmanni í knattspyrnu, síðustu vikur, en hann er án félags eftir að samningur hans við Udinese á Ítalíu rann út í júní. Hann bíður enn eftir því að finna sér nýja vinnuveitendur og þótt hann sé ekki bundinn því að finna sér félag áður en félagaskiptaglugganum í Evrópu er lokað um mánaðamót vonast Emil til þess að vera búinn að ganga frá sínum málum fyrir þann tíma.

„Ég hef verið að skoða þá möguleika sem hafa komið upp en þetta er allt ennþá í vinnslu. Það hefur kannski verið áhugi sem hefur ekki heillað mig og ég hef þá sett það til hliðar. Ég bíð bara eftir einhverju sem ég er til í. Þegar það gerist þá gerist það. Ég ætla að taka rétta ákvörðun á þessum tímapunkti,“ sagði Emil í samtali við Morgunblaðið.

Þegar blaðið ræddi við Emil í byrjun júlí beið hann eftir svörum frá forráðamönnum Udinese um hvort áhugi væri fyrir hendi að bjóða honum nýjan samning. Hann yfirgaf félagið síðasta sumar eftir þriggja ára dvöl og gekk í raðir Frosinone en eftir að hann meiddist illa á hné var samningi hans rift. Udinese bauð honum þá til sín á ný og því vildi Emil gefa félaginu forgang. Síðan hefur tíminn liðið, fyrsta umferð ítölsku A-deildarinnar er um helgina og Emil er ekki lengur að bíða eftir Udinese.

„Nei, í raun ekki. Ég er farinn að opna á alla möguleika núna. Ég er bara að halda mér í toppstandi á meðan og þegar kallið kemur verð ég tilbúinn. Því fyrr því betra, en ég geri ekki neitt nema ég sé ánægður með það,“ sagði Emil.

Ekki með kröfur frá Hamrén

Emil er 35 ára gamall og hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu síðustu ár, þar sem hann á 68 leiki að baki. Hann lék meðal annars allan leikinn í 2:1-sigri á Tyrkjum í undankeppni EM á Laugardalsvelli 12. júní. Næsti leikur í undankeppninni er eftir rétt rúmar tvær vikur, laugardaginn 7. september gegn Moldóvu hér heima, og svo tekur við útileikur gegn Albaníu þremur dögum síðar. Hefur Emil rætt við landsliðsþjálfarann Erik Hamrén um sín mál fyrir þetta næsta verkefni landsliðsins?

„Við höfum rætt saman einu sinni og áttum þá gott samtal. Ég vonast auðvitað eftir því að klára mín mál sem fyrst, en ég sagði við hann að ég væri meira en 100% klár í þessa leiki. Hann veit af því,“ sagði Emil, en hann hefur ekki fengið skilaboð frá landsliðsþjálfaranum um að hann þurfi að vera kominn í nýtt lið svo hann verði valinn í landsliðið.

„Ekki beint þannig, en hann tekur svo bara ákvörðunina um hvernig liðið verður. En ég sagðist vera klár, enda er ég í toppstandi. Og í betra standi en fyrir síðustu landsleiki myndi ég segja. Ég hef verið að æfa á fullu með FH og sjálfur líka eins og ég veit ekki hvað. Svo ég er alveg 100% klár í þessa leiki,“ sagði Emil Hallfreðsson við Morgunblaðið.

Emil Hallfreðsson
» 35 ára gamall og hefur leikið 68 A-landsleiki.
» Uppalinn hjá FH en hefur verið í atvinnumennsku síðan hann gekk í raðir Tottenham árið 2004.
» Síðan þá hefur hann leikið með Malmö í Svíþjóð, Lyn í Noregi, Barnsley á Englandi og Reggina, Verona, Udinese og Frosinone á Ítalíu.