Eftirlit Lax er enn að ganga í árnar. Þessi 68 sentímetra fiskur gekk í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi í gær. Hann er greinilega ekki af eldisstofni.
Eftirlit Lax er enn að ganga í árnar. Þessi 68 sentímetra fiskur gekk í Laugardalsá í Ísafjarðardjúpi í gær. Hann er greinilega ekki af eldisstofni. — Skjáskot úr myndavélaeftirliti
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Hafrannsóknastofnun hefur ekki fengið neinar tilkynningar um að eldislax hafi veiðst eða sést í laxveiðiám í sumar. Sumarið er ekki liðið og ef eldislax er að svamla við ströndina gæti hann gengið upp í ár síðsumars.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Hafrannsóknastofnun hefur ekki fengið neinar tilkynningar um að eldislax hafi veiðst eða sést í laxveiðiám í sumar. Sumarið er ekki liðið og ef eldislax er að svamla við ströndina gæti hann gengið upp í ár síðsumars.

Matvælastofnun og Fiskistofa hafa fengið tvær tilkynningar á þessu ári um göt á netpokum sjókvía. Báðar eru frá Arnarlaxi, annars vegar í janúar vegna kvíar við Hringsdal í Arnarfirði og hins vegar í lok síðustu viku vegna kvíar við Laugardal í Tálknafirði. Í hvorri kví eru hátt í tvö hundruð þúsund laxar, innan við 300 gramma seiði að meðaltali í Tálknafirði og 1,3 kg lax í Arnarfirði.

Ekki er talið líklegt að lax hafi sloppið úr þessum kvíum, allavega ekki margir. Við hvoruga kvína fannst lax og ekki varð vart við breytingar á lífmassa. Viðkomandi stofnanir, Matvælastofnun og Fiskistofa, treysta sér þó ekki til að gefa neitt út um það hvort lax hafi sloppið eða ekki.

Gætu átt eftir að koma

Hafrannsóknastofnun er með vöktun á lífríki laxveiðiánna, meðal annars með tilliti til erfðablöndunar við eldislax. Engin tilkynning hefur borist um að eldislax hafi veiðst í sumar og eldislax hefur ekki sést við myndavélaeftirlit sem er í nokkrum ám. Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun, bendir á að lítið vatn hafi verið í ánum og lítið hafi veiðst. Þá hafi ekki verið mikið um óhöpp í eldinu. Hann tekur fram að eldislaxar komi yfirleitt seint inn í árnar. Þeir taki strauið upp þegar þeir verða kynþroska. Það gerist oft síðla sumars og þess vegna geti eldislax enn átt eftir að finnast í ánum.

Þess ber að geta að ef seiði hafa sloppið úr kví Arnarlax í Tálknafirði nú í ágúst ganga þau til hafs og skila sér ekki til baka fyrr en eftir að minnsta kosti tvö ár.

Á síðasta ári fékk Hafró 12 eldislaxa sem veiddir voru í laxveiðiám. Þeir fóru í arfgerðargreiningu hjá Matís. Þeir níu fiskar sem greindir voru reyndust allir koma úr þremur strokum fyrr á því ári, hjá Arnarlaxi í Hringsdal í Arnarfirði og Laugardal í Tálknafirði. Laxarnir höfðu gengið í ár á Vestfjörðum en einnig einn í Dölum, annar í Vatnsdal og sá þriðji í Eyjafirði.

Margir fylgjast með

Hafrannsóknastofnun er að auka myndavélaeftirlit í laxveiðiám. Í sumar var eftirlit í 4-5 ám en stefnt er að því að það verði í 12 ám innan þriggja ára. Einnig er stunduð rafveiði til að kanna hvort seiði eldislax eða blendingar eru í ánum. Hafró heldur úti sérstakri vefsíðu um þessa vöktun. Ragnar segir að mikið sé fylgst með, sérstaklega myndavélunum þegar laxinn er að ganga í árnar, og fái starfsfólk Hafró hjálp frá notendum vefjarins til að fylgjast með eldislaxi. Þar er jafnframt hægt að tilkynna grun um eldislax í ám.