Nemendur í 2. og 3. bekk hefja nýtt skólaár við Seljaskóla einum degi síðar en samnemendur þeirra sökum þess að enn var brunalykt af húsgögnum í tveimur kennslustofum árganganna.
Kennsla átti að hefjast eftir skólasetningu í gær en daginn áður fengu foreldrar nemenda í 2. og 3. bekk tölvupóst þess efnis að nemendur færu heim eftir skólasetningu og kennsla hæfist daginn eftir, í dag.
Daginn fyrir skólasetningu kom í ljós að skipta þurfti út húsgögnum í einni skólastofu vegna reyklyktar og annarra eftirstöðva brunans sem varð í skólanum í mars síðastliðnum.
Magnús Þór Jónsson, skólastjóri Seljaskóla, segir að ástand skólastofanna hafi komið flatt upp á starfsmenn á miðvikudagsmorgun.
„Kennslustofurnar voru fullar af dóti og við áttum eftir að komast í gegnum það sem þurfti,“ sagði hann.
„Við þurftum að skipta út húsgögnum sem voru skemmd, sem varð til þess að við náðum ekki að byrja af fullum krafti í dag [í gær] þannig að við byrjum af fullum krafti á morgun [í dag],“ sagði hann.
Mikill eldur varð í Seljaskóla í Breiðholti í mars síðastliðnum. Þá var barist við eld í þaki einnar álmu hússins, en hluti þess féll niður. Frá brunanum hafa lagfæringar á húsnæðinu staðið yfir.
„Það var unnið kraftaverk hérna í sumar. Síðan kemur upp mál í gærmorgun alveg óvænt tengt húsgögnum. Það var orðið þannig að við þurftum að breyta áætluninni,“ sagði hann. Krakkarnir hefðu mætt í skólann í gær og mæti tilbúnir í slaginn í dag.