„Fyrir átta árum var ég tíu kílóum þyngri en ég er í dag og hreyfði mig ekki markvisst. Þá áttaði ég mig á því að ég þyrfti að taka til í lífsmynstri mínu og bæta svefn, mataræði og hreyfingu. Fyrsti sigurinn var að klára mitt fyrsta maraþon í Kaupmannahöfn sex mánuðum síðar. Þá kynntist ég í kjölfarið KR-skokki og fór að mæta á æfingar hjá þeim.“
Hvað þýðir góð heilsa fyrir þig?
„Góð heilsa þýðir vellíðan og grunnur að góðu lífi. Líkaminn okkar er ökutækið sem við keyrum á gegnum lífið og ef hann er ekki í lagi verður ferðalagið ekki eins ánægjulegt.“
Hvað borðar þú daglega?
„Fyrst og fremst reyni ég að borða reglulega og byrja daginn yfirleitt á hafragraut í morgunmat. Ég fæ mér eitthvað létt í hádeginu og hef verið að þróa síðustu ár að borða minna af kjöti og kvöldmaturinn því yfirleitt grænmetisréttur. Ég hef mikið dálæti á indverskri matargerð sem hentar vel grænkerum og eru kvöldmáltíðirnar oftar en ekki með indversku ívafi.“
Hvernig æfir þú?
„Ég er svo heppinn að hafa uppgötvað KR-skokk sem er hlaupahópur sem hleypur þrisvar í viku frá KR heimilinu. Þar matreiða þjálfararnir Haraldur, Margrét og Þorlákur gómsætar æfingar og skemmtilegt fólk mætir úr öllum áttum og við eigum frábæra stund saman.“
Hvernig hugsarðu?
„Ég reyni að temja mér jákvætt hugarfar og láta ekki mótlæti hafa of mikil áhrif á hugsanirnar. Að hlaupa maraþon er góð æfing fyrir hausinn því að þrátt fyrir góðan undirbúning vill hausinn oft byrja að stríða manni upp úr 30 km. Þá segir maður við sjálfan sig: „bara einn km í viðbót“ og hugurinn lætur til leiðast og markið birtist áður en varir.“
Hvað gerir þú til að verða besta útgáfan
af þér daglega?
„Góður svefn er undirstaðan að deginum. Ég mæli svefninn og vinn þannig markvisst að því að hafa hann góðan. Ég reyki ekki, neyti ekki áfengis og reyni að borða hollan mat og hef þannig heilbrigðan grunn til að takast á við verkefni dagsins. Ég var í markþjálfun í tvö ár hjá Erni Haraldssyni snillingi. Í gegnum markþjálfunina lærði ég heilmikið um sjálfan mig og fékk í hendurnar aðferðir við að þróa og bæta sjálfan mig.“
Hvað ætti fólk að hafa í huga um helgina?
„Bara að muna að mæta með bros á vör með alla fjölskylduna í Reykjavíkurmaraþonið um helgina og eiga frábæran dag með öðrum hlaupurum.“