— Ljósmynd/Guðlaugur Óskarsson
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Frumkvæði að þessu máli er komið frá Snorrastofu.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Frumkvæði að þessu máli er komið frá Snorrastofu. Björn Bjarnason, sem er stjórnarformaður hér, gekk á fund ráðherra og stakk upp á því að þetta verkefni yrði þjóðargjöf í tengslum við 75 ára afmæli lýðveldisins á þessu ári,“ segir Bergur Þorgeirsson, forstöðumaður Snorrastofu.

Í gær undirrituðu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, og Björn Bjarnason, formaður stórnar Snorrastofu, samstarfsyfirlýsingu til fimm ára um þverfaglegar rannsóknir á ritmenningu íslenskra miðalda. Verður 35 milljónum króna varið til verkefnisins og umsýslu þess árlega í fimm ár frá næsta ári.

Verkefnið snýst um að efla rannsóknir sem tengjast þeim stöðum á Íslandi þar sem ritmenning blómstraði á miðöldum.

Í höndum Snorrastofu

„Vonir standa til að nákvæmar lýsingar á þeim bókmenntastöðum sem verða fyrir valinu verði unnar og rök færð fyrir menningarlegu vægi þeirra handrita og bókmenntaverka sem ritstofnunum tengjast,“ segir í fréttatilkynningu. Mun þá m.a. horft til staða eins og Reykholts, Odda, Þingeyra og Staðarhóls. Rannsóknir þessar munu m.a. tengjast fornleifafræði, sagnfræði, textafræði og bókmenntafræði.

Dagleg umsýsla með framvindu verkefnisins verður í höndum Snorrastofu í Reykholti sem starfrækt er sem menningar- og miðaldasetur. Verður þriggja manna fagráð Snorrastofu til stuðnings. Eiga sæti í því Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður og Ágúst Sigurðsson, sviðsstjóri Rangárþings ytra og formaður Oddafélagsins. Í samstarfsyfirlýsingunni segir að mennta- og menningarmálaráðuneytið fari með yfirstjórn verkefnisins og muni auglýsa eftir umsóknum um styrki og skipa sérstaka úthlutunarnefnd þegar umsóknir liggja fyrir. Mun nefndin gera tillögur um styrki í samstarfi við Rannís, en mennta- og menningarmálaráðherra tekur ákvörðun um úthlutun í samráði við forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.