Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Lars Løkke Rasmussen, formaður mið- og hægriflokksins Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra, svaraði gagnrýni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á framlag Danmerkur til varnarmála í fyrrinótt og sagði að Danir hefðu misst hlutfallslega jafnmarga hermenn í Afganistan og Bandaríkjamenn.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Lars Løkke Rasmussen, formaður mið- og hægriflokksins Venstre og fyrrverandi forsætisráðherra, svaraði gagnrýni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta á framlag Danmerkur til varnarmála í fyrrinótt og sagði að Danir hefðu misst hlutfallslega jafnmarga hermenn í Afganistan og Bandaríkjamenn.

Trump hefur haldið áfram að gagnrýna stjórnvöld í Danmörku eftir að hann ákvað að hætta við fyrirhugaða heimsókn sína til landsins 2.-3. september. Hann sagði ástæðuna þá að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefði neitað að ræða tillögu hans um að Bandaríkin keyptu Grænland. Seinna gagnrýndi hann forsætisráðherrann fyrir að hafa sagt að tillagan væri „fáránleg“, sagði ummæli hennar hafa verið „andstyggileg“ og vanvirðingu við Bandaríkin. Talsmenn allra stjórnmálaflokka Danmerkur í utanríkismálum höfðu tekið í sama streng og forsætisráðherrann og sagt að hugmyndin væri fáránleg.

Trump hélt síðan gagnrýninni áfram á Twitter og sagði að þótt Danmörk væri auðugt land væru fjárframlög þess til varnarmála aðeins 1,35% af landsframleiðslunni „en ekki 2,0% eins og þau ættu að vera“. NATO-ríkin samþykktu á leiðtogafundi árið 2014 að stefna að því að verja að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu til varnarmála ekki síðar en árið 2024 og það markmið var staðfest á leiðtogafundi í fyrra.

Lars Løkke var fljótur að svara ummælum Trumps. „Og eins og ég sagði þér á leiðtogafundi NATO í Brussel í fyrra höfum við (að tiltölu) misst nákvæmlega jafnmarga hermenn í Afganistan og Bandaríkjamenn. Við höfum alltaf verið staðfastir og til reiðu – þannig að við samþykkjum það ekki að vilji okkar í varnarmálum snúist aðeins um prósentur.“

Hafa verið dyggir bandamenn

Stjórnmálaskýrandi Politiken sagði ummæli Lars Løkke til marks um uppsafnaða gremju hans vegna framgöngu Trumps síðustu ár og hann gæti látið hana í ljós fyrst núna þegar hann er ekki lengur forsætisráðherra. Hann hefði greitt atkvæði með því að senda danska hermenn til Afganistans og síðan Íraks, seinna þurft að hringja í foreldra sem misstu syni sína og hlusta síðan á Trump gagnýna Dani fyrir að leggja ekki nóg af mörkum til öryggismála.

Politiken sagði í forystugrein að Danir hefðu verið dyggir bandamenn Bandaríkjanna og ekkert land hefði misst jafnmarga hermenn í Afganistan og Danmörk miðað við höfðatölu. Danir sendu 9.500 hermenn til Afganistans á árunum 2002 til 2013 og 37 þeirra biðu bana í átökum og sex í slysum. Sjö danskir hermenn létu lífið í Írak. „Launin fyrir hollustu Dana voru þau að forseti Bandaríkjanna hirti þá opinberlega fyrir að neita að selja hluta af landi sínu,“ sagði Politiken .

„Ég tel þetta sorglegt, í hreinskilni sagt, vegna þess að svona koma menn ekki fram við bandamenn sína,“ sagði Rufus Gifford, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna í Kaupmannahöfn.

Varnarmálaráðherra Danmerkur sagði í janúar að samkomulag hefði náðst á þinginu um að fjárframlögin til varnarmála yrðu aukin í 1,5% af vergri landsframleiðslu árið 2023. Það myndi kosta Dani 10,5 milljarða danskra króna (185 milljarða íslenskra) á ári að ná 2%-takmarkinu.

Mikaa Mered, sérfræðingur í málefnum norðurslóða við ILERI-stofnunina í París, telur að tillögu Trumps um að Bandaríkin kaupi Grænland megi túlka sem skilaboð til Kínverja, sem hafi sýnt áhuga á að auka áhrif sín á norðurslóðum með því að fjárfesta í námum og samgöngumannvirkjum á Grænlandi. „Skilaboðin til Kínverja eru þessi: við leyfum ykkur ekki að ná fótfestu á Grænlandi.“

Dregur athyglina frá öðru

Mered telur einnig hugsanlegt að lokamarkmið Trump-stjórnarinnar sé ekki að kaupa Grænland heldur grænlensk landsvæði á borð við Grønnedal-herstöðina „sem Danir hættu við að selja árið 2017 vegna þess að Kínverjar voru þeir einu sem sýndu henni áhuga“.

Mered telur líklegt að Trump haldi áfram karpinu um Grænland til að draga athyglina frá vandamálum heima fyrir og koma í veg fyrir að sviðsljósið beinist að forsetaefnum demókrata í aðdraganda forkosninga flokksins vegna forsetakosninganna á næsta ári. Fram hafa komið vísbendingar um að blikur séu á lofti í efnahagsmálum í Bandaríkjunum og Trump hefur hag af því að fjölmiðlarnir beini sjónum sínum frekar að Grænlandi.