Halla Björg hefur losnað við tæp tuttugu kíló á ketó-matarræðinu, en segir að andleg og líkamleg vellíðan skipti mestu máli.
Halla Björg hefur losnað við tæp tuttugu kíló á ketó-matarræðinu, en segir að andleg og líkamleg vellíðan skipti mestu máli. — Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Halla Björg Björnsdóttir tók mataræði sitt í gegn fyrir ári og byrjaði á ketó. Hún hefur misst fjöldann allan af kílóum en segir það aukaatriði. Hún segist nú vera orðin besta útgáfan af sér og hvetur aðra til að finna sínar leiðir í þessum efnum. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is

Síðan ég hóf minn ketó-lífsstíl hef ég verið óstöðvandi. Ég hef alltaf haft áhuga á matseld og bakstri og man ekki eftir mér öðruvísi en liggjandi yfir uppskriftum og aðferðum í eldhúsinu. Ég hef ávallt haft gríðarmikinn áhuga á matargerð frá öllum heimshornum og finnst nánast allt gott, hvaðan sem það kemur. Þessa dagana á ketó hug minn allan. Mér finnst dásamlegt að umbreyta öllum mínum uppáhaldsuppskriftum í ketó,“ segir hún.

– Hvernig var líf þitt hér áður?

„Ég hafði alltaf verið að leita að einhverju sem hentaði mér tengt heilsu og mataræði. Ég vissi að það var eitthvað sem ekki fór vel með mig. Ég var orðin samdauna ástandinu, en fyrir tíu árum byrjaði ég að fasta með reglulegu millibili. Það fór dásamlega vel í mig. En það var ekki nóg lengur. Ég fann að ég var komin á þennan aldur; breytingaskeiðið, þar sem þyngdaraukning var farin að herja á mig eins og svo oft gerist hjá konum. Síðan var ég farin að finna fyrir liðverkjum og sleni.“

Var í dimmum dal

Halla Björg segir að í sannleika sagt hafi hún verið komin á stað sem var dálítið eins og dimmur dalur.

„Ég vissi að svona vildi ég ekki eyða ævi minni. Mig langaði að njóta þess sem eftir er eins vel og ég gæti. En það var eitthvað að plaga mig sem ég vissi ekki hvað var. Svo þegar ég byrjaði á mataræðinu fann ég fyrir mikilli hugljómun þessu tengt.“

– Var ekki erfitt að taka út allan sykur?

„Í fyrstu, þegar þú ert að afeitra þig, fer líkaminn í svolítið sjokk yfir öllu því sem er að gerast. Ég er dugleg að lesa mér til, þannig að ekkert af því sem kom fyrir mig á þessum tíma var eitthvað sem ég ekki gerði ráð fyrir. Á Diet Doctor-síðunni (dietdoctor.com), sem er eins og alfræðiupplýsingasíða fyrir ketó-mataræðið og lágkolvetnalífsstíl, er talað um margar leiðir til að passa upp á líkamann á þessum tíma. Það er sem dæmi mikilvægt að drekka nógu mikið vatn og fá inn í líkamann sölt og steinefni.“

Þetta kom úr öllum áttum

Halla segist hafa farið ein af stað í þessa vegferð en smitað svo aðra í fjölskyldunni á leiðinni. Hún hafði heyrt svo marga tala um mataræðið. „Ég heyrði talað um þetta úti um allt. Þess vegna varð ég forvitin í upphafi. Strax á öðrum degi á mataræðinu leið mér betur. Þá varð ekki aftur snúið. Ég var strax áberandi orkumeiri og glaðari. Á þriðja og fjórða degi í ketó-flensunni kom erfiður tími sem ég vissi að myndi koma. Eftir það er tíminn á þessu mataræði búinn að vera dásamlegur. Í heilt ár hef ég ekki borðað hvítan sykur.“

– Hvað er jákvætt og skemmtilegt við ketó og hvað er neikvætt og leiðinlegt?

„Ég er svo heppin að hafa þessa ástríðu fyrir matargerð þannig að ég fagna þeirri áskorun að gera ketó-mat og sneiða hjá unnum matvörum og matreiða allt frá grunni. Þess vegna verð ég að segja að það sem er jákvætt er hversu fjölbreytt og skemmtilegt þetta er fyrir mig. Ég er dugleg að finna hráefni sem ég get notað til matargerðar og þótt úrvalið sé ennþá takmarkað hérna heima fer það hratt batnandi. Við erum samt einstaklega lánsöm með íslenskar landbúnaðarafurðir. Íslenskar mjólkurvörur og grænmetið er gott. Það er ekkert betra en nýupptekið íslenskt blómkál og svo má ekki gleyma kjötvörum beint frá bónda. Ég sæki mitt kjöt rétt fyrir utan borgarmörkin á Sogn holdnautabýli en þar er uppáhaldskjötbúðin mín.

Mér finnst ekkert neikvætt við þetta nema þá helst viðbrögð sumra sem hafa skoðanir á hvað maður er að gera.“

Síþreyta og kvíði heyra sögunni til

Halla Björg segir í þessu samhengi mikilvægt að minna sig á hvar hún var og hvar hún er stödd núna. „Ég hef að sjálfsögðu misst fullt af kílóum, en það er aðallega þessi stöðugleiki og vellíðan sem gerir þetta allt þess virði. Síþreyta og kvíði heyra sögunni til og mér finnst ennþá ótrúlegt hversu litlu ég þurfti að breyta til að snúa við blaðinu. Stundum fæ ég viðbrögð sem mér finnst minna á fordóma. Eins og sumum einstaklingum myndi líða betur ef ég væri ennþá vansæl að borða óhollan mat. Margir á ketó tengja við þetta.

Ég læt þetta ekkert á mig fá og held ótrauð áfram að kynna það sem ég er að gera á samfélagsmiðlum.“

Halla Björg segist beina athygli sinni að þeirri staðreynd að flestir eru jákvæðir á það sem hún er að gera og þess vegna heldur hún áfram að deila gleðinni áfram.

„Ég vil vera til staðar fyrir þá sem langar að breyta lífsstílnum og eru að prófa sig áfram tengt því. Ég svara spurningum, deili hugmyndum og uppskriftum. Engin spurning er vitlaus og ég geri mitt besta í að svara.“

Loksins að stjórna sjálf

– Hvað viltu segja um það sem þú ert að gera?

„Mig langar að segja að mér finnst ég loksins stjórna í mínu lífi en ekki eins og líkaminn sé að stjórna mér. Það finnst mér svo skemmtilegt að fá að upplifa. Síðan langar mig að segja að ketó-mataræðið er ekkert nýtt af nálinni. Það var notað hér á árum áður á sjúkrahúsum til að halda sem dæmi flogaveiki í skefjum.“

– Hefur þú losnað við fleiri líkamleg einkenni?

„Já ég hef losnað við flest ofnæmiseinkenni en hér áður var ég mjög viðkvæm og endalaust á ofnæmislyfjum. Önnur skrítin staðreynd er að ég hef alltaf verið bitin á sumrin af mýi og fengið mikil ofnæmisviðbrögð tengt því. Ég lendi ekki lengur í því að vera bitin. Þetta og fleira hef ég einmitt lesið um á ketó-síðum.“

– Hvað með hreyfingu?

„Ég stunda meiri hreyfingu en ég hef gert áður af því að ég er ekki með þetta slen yfir mér lengur. Ég er léttari á mér og léttari í lund. Mér líður stundum eins og aðalpersónunni í „Sound of Music“, sem syngur um að hæðirnar séu lifnaðar við. Ég er loksins að lifa lífinu sem ég á skilið.“

Halla segir að það finni allir þessar breytingar á henni sem umgangast hana daglega. „Eins sjást þessar breytingar á mér langar leiðir.“

Ekki láta umhverfið stjórna þér

– Hvaða ráð áttu fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu skref í ketó-mataræðinu?

„Taktu stjórnina í þínu lífi og ekki láta umhverfið segja þér hvað þú átt að gera. Hvaða leið sem þú finnur er leiðin þín. Ég hvet alla til að halda áfram að prófa sig áfram og ekki gefast upp þótt á móti blási.“

– Hvað borðar þú daglega?

„Suma dagana fasta ég í 17 klukkustundir og borða síðan í sjö klukkustundir á móti. Ég fasta fram til hádegis, drekk þá kaffi með MCT-olíu, smjöri og rjóma. Önnur sturluð staðreynd er að MCT-olía er einhver orkuríkasta fæða sem þú getur neytt og er notuð á spítölum sem næring fyrir fyrirbura. Ég á alltaf góða osta í ísskápnum og síðan fitubombur, sem eru litlar kúlur t.d. úr kókosolíu eða rjómaosti. Þessar kúlur eru til að viðhalda vellíðan og orku yfir daginn. Suma daga fæ ég mér millimál og aðra daga ekki. Ég borða kvöldmatinn minn snemma, eða um klukkan fimm á daginn. Svo fer bara eftir stemningu hvort ég fæ mér nasl eftir kvöldmatinn.“

– Ertu ekki svöng inn á milli?

„Nei, matarlystin er ekkert rosaleg og ég borða nóg af hitaeiningum yfir daginn. Ég vanda það sem ég borða og er full af orku og lífshamingju í staðinn.“

Höf.: Halla Björg Björnsdóttir