Ég hitti karlinn á Laugaveginum fyrir utan Skólavörðustíg 13, þar sem Davíð, einn af félögunum á Þórshöfn, var nýlenduvörukaupmaður þegar ég var lítill og kvæntur Halldóru – ungfrúnni góðu sem Laxness segir frá og fleiri raunar. Um þetta vorum við að tala, karlinn og ég, þegar hann hnykkti höfðinu skyndilega afturábak til vinstri og tautaði:
Fyrir vestan Trump á tvitter trompar alla;
ég gaman hef af gaspri slíku.
Og Grænland kaupir Ameríku.
Og var þotinn án þess að kveðja.
Pétur Stefánsson yrkir:
Hver og einn sinn djöful dregur,
dapurlegt er það að sjá.
Trump er býsna barnalegur,
blöðum um það fletta má.
Björn Ingólfsson segir:
Boðið í partí, vel skal veitt,
veitingar allar á hæsta prís,
en ég er í fýlu og fer ekki neitt
ég fæ ekki að kaupa mér Grænlandsís.
Hér í Vísnahorni var limra í gær eftir Pál Imsland, sem Skírnir Garðarsson hefur gefið þá einkunn, að bara snillingar leyfi sér að ballansera svona á nöfinni, þessi var tæp, þó vel sé ort.
Síðan kemur Skírnir með annan vinkil:
Á skrúðhúsdyr biskup einn barði,
á barmfagran kvenprest svo starði,
svo hjá sér hann fór,
og hæverskur sór,
„ég hempuna í fer úti í garði“.
Síðan bætti Skírnir við: „Þetta tengist þeirri nýbreytni að karl- og kvenprestar þurfa gjarna að nota sama skrúðhús til fataskipta, áður var það ekki vandamál, en með nútímavæðingunni er þetta orðið þannig.“
Ísólfur Gylfi Pálmason birti mynd af stórum svepp á facebook og fylgdu með efasemdir hans um að óhætt væri að borða hann. Hann gæti tapað framsóknartrúnni og jafnvel orðið mótfallinn næsta orkupakka. Fyrrverandi samþingmaður, sr. Hjálmar Jónsson, varaði hann sterklega við:
Ekki þekki ég þetta kyn
og því er ég hræddur við sveppi.
Ef éturðu gorkúlur, góði vin,
geturðu endað á Kleppi.
Halldór Blöndal
halldorblondal@simnet.is