Sigurður Jónsson fæddist 13. desember 1946 á Akureyri. Hann lést á heimili sínu 17. ágúst 2019.

Foreldar hans voru Jón Matthías Hauksson, f. 4. ágúst 1923, og Halldóra Ingibjörg Kristjánsdóttir, f. 15. janúar 1920. Bræður Sigurðar eru Kristján Jónsson og sammæðra Árni Haukur Harðarson sem er látinn.

Fyrri kona Sigurðar var Oddný B. Vatnsdal Axelsdóttir og eignuðust þau dótturina Guðrúnu Dóru. Maki Guðrúnar er Peter E. Nielsen. Börn Guðrúnar eru H. Alexander Harðarson, Telma Lovísa Harðardóttir og Isabella Oddný Nielsen. Sambýlismaður Telmu er Ólafur Pálsson og eiga þau dótturina Júlíu Hrafney Ólafsdóttur. Seinni kona Sigurðar heitir Júlía Sjöfn Sigurjónsdóttir. Dóttir þeirra er Sigrún Ásdís og eiginmaður hennar er Óskar Bragason. Börn Sigrúnar eru Sigurður Orri Sigurðarson, Ingimar Andri Ómarsson, Ísabella Júlía Óskarsdóttir og Bragi Dór Óskarsson. Synir Júlíu frá fyrra hjónabandi eru Sigurjón Einarsson og Jóhann Ingi Einarsson. Eiginkona Sigurjóns er Guðlaug Þóra Reynisdóttir. Dætur þeirra eru Júlía Rós og Aldís Ösp. Sonur Júlíu Rósar er Nóel Breki Júlíuson. Eiginkona Jóhanns er Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir. Dætur þeirra eru Júlíana Mist og Sara Mjöll.

Sigurður ólst upp á Akureyri. Hann lærði vélvirkjun og lauk meistaranámi árið 1972 og vann við þá iðn um tíma. Nam hann síðan húsasmíði og lauk meistaranámi árið 1979. Vann hann við þá iðn til starfsloka. Hann var nokkuð virkur í hestamannafélaginu Létti og stundaði hestamennsku í mörg ár. Vann hann ýmis störf fyrir félagið.

Útför Sigurðar Jónssonar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 13.30.

Elsku afi minn.

Eins ósátt og ég er yfir því hversu alltof snemma þú varst tekinn frá okkur þá er ég um leið svo óendanlega þakklát fyrir allar stundirnar okkar saman.

Afi var alveg sér á báti. Stríðinn og markmiðin hans voru alltaf að reyna að ljúga mann fullan af allskonar rugli.

Það var alltaf líf og fjör hjá ömmu Diddu og afa Sigga og öll mín unglingsár tók maður partíin hjá ömmu og afa fram yfir bæjarlífið, blandaði sér landa í kók, Villi Vill í spilarann og sungið langt fram á nótt.

Við eigum óteljandi minningar fullt af göngutúrum, tónleikum, hestaferðalögum og þá sérstaklega á Sörlastaði sem afa þótti alltaf svo vænt um.

Við gátum setið endalaust og talað um allt og ekkert og ég elskaði að heyra þig tala um öll dýrin sem þú hafðir átt í gegnum tíðina og sem þér þótti svo vænt um.

Þegar ég keypti mér íbúðina mína kom aldrei neitt annað til greina en að afi Siggi kæmi með mér að skoða hana, svo nenntir þú að brasast endalaust með mér í að græja hana og gera.

Þú varst alltaf svo góður við mig og vildir alltaf allt fyrir mig gera. Það eru fáir sem hafa hrósað mér jafn mikið í gegnum tíðina og þú og þá sérstaklega sem móður. En þú hlakkaðir alltaf svo til að sjá mig sem mömmu og ég er svo glöð að þið Nóel Breki, Nói þinn, hafið átt þessi tæp þrjú ár hans saman og mun ég passa að halda minningu þinni í hjörtum okkar alla okkar tíð.

Hvíldu í friði, elsku besti afi minn, þangað til næst.

Á litlum skóm ég læðist inn

og leita að þér, afi minn.

Ég vildi að þú værir hér

og vært þú kúrðir hjá mér.

Ég veit að þú hjá englum ert

og ekkert getur að því gert.

Í anda ert mér alltaf hjá

og ekki ferð mér frá.

Ég veit þú lýsir mína leið

svo leiðin verði björt og greið.

Á sorgarstund í sérhvert sinn

ég strauminn frá þér finn.

Ég Guð nú bið að gæta þín

og græða djúpu sárin mín.

Í bæn ég bið þig sofa rótt

og býð þér góða nótt.

(S.P.Þ.)

Júlía Rós.

Elsku Siggi minn, það sem ég er heppin að hafa fengið að kynnast þér. Þú ert sá allra besti vinur og tengdapabbi sem hægt er að hugsa sér. Strax urðum við miklir vinir og félagar. Þú kenndir mér svo ótrúlega mikið. Alltaf, alltaf gat ég leitað til þín, alveg sama hvað var. Erum við búin að eiga margar yndislegar stundir saman, með hestana okkar, hunda, smíða, mála og margt fleira. Þú hafðir svör við öllu, ef ekki þá laugstu því bara, þér og öðrum til skemmtunar. Sérstaklega hafðir þú gaman af að fíflast í krökkunum, þau áttu nú oft erfitt með að vita hvort þú værir að gantast eða ekki. Einnig var svo gaman þegar við ferðuðumst saman, síðast fórum við í desember saman til Reykjavíkur. Það sem við vorum búin að hlæja og hafa gaman. Þú sást alltaf spaugilegu hliðarnar á öllu. Mikið sem ég á eftir að sakna þín. En næst þegar við hittumst þá dönsum við saman. Efast ekki um að Sámur minn hafi tekið vel á móti þér. Elsku Siggi, hvíldu í friði.

Kveðja,

Guðlaug Þóra

Reynisdóttir (Lauga).