Kollegar Píanóleikarinn Peter Máté mun flytja verk tónskáldsins Johns Speights víðs vegar um landið.
Kollegar Píanóleikarinn Peter Máté mun flytja verk tónskáldsins Johns Speights víðs vegar um landið. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is Píanóleikarinn Peter Máté hefur í kvöld tónleikaröð þar sem hann spilar verk tónskáldsins Johns Speights. Hann segir það sérstakt að efnisskráin sé tileinkuð einu nútímatónskáldi.

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Píanóleikarinn Peter Máté hefur í kvöld tónleikaröð þar sem hann spilar verk tónskáldsins Johns Speights. Hann segir það sérstakt að efnisskráin sé tileinkuð einu nútímatónskáldi. „Maður hefur gert svipað með Chopin, Beethoven eða Bach. Víkingur Heiðar hefur t.d. spilað eingöngu Bach á mörgum tónleikum. Þetta er ekki eins algengt með samtímatónlist.“

Það eru tvö eða þrjú ár síðan Peter ákvað að leggja í þetta verkefni, að halda tónleika með verkum Johns Speights. Hann segir undirbúninginn hafa tekið langan tíma, enda sé hann í kennslustarfi hjá Listaháskólanum og í fleiri verkefnum samhliða því. „Nú er þetta loksins komið á endapunktinn. Ég ákvað loksins að koma þessu í gang og spila þessa ferna tónleika í öllum landsfjórðungum. Ég fékk ferðastyrk frá Rannís svo ég færi ekki að stórtapa á því að koma mér til Egilsstaða, Eyjafjarðar og Ísafjarðar. Svo verða lokatónleikarnir í Hannesarholti,“ segir hann.

Í hlutverki leiðsögumanns

Á tónleikunum mun Peter spila sjö tónverk eftir John. Elsta verkið á dagskránni er 5 pieces frá árinu 1968 en það yngsta samdi John í fyrra, fimmtíu árum síðar.

„Það sem er sérstakt við þessi verk er að þótt fyrsta verkið sé frá 1968, frá námsárum Johns þegar hann er 23 ára, eru þar komin ákveðin einkenni sem haldast í gegnum ferilinn allan. Einhvers konar litbrigði eða samsetningar af hljómagangi eru orðin til í þessum litlu verkum sem hann samdi þegar hann var ungur og svo kemur þetta aftur fram í verkunum sem voru samin á árunum 1996 til 1998. Það er mjög spennandi að bera þetta saman,“ segir píanóleikarinn.

Verk Johns eru næstum öll það sem kallast „atonal“, þ.e. án heimatóntegundar, dúrs eða molls. „Tónlistin er kröfuhörð bæði við flytjandann og áheyrandann en við erum auðvitað komin á 21. öld og maður verður að halda áfram í nútímanum,“ segir Peter.

Á tónleikunum mun Peter kynna verkin fyrir áheyrendum áður en hann sest við píanóið. „Flestir tónleikagestir þurfa að fá smá hjálp við að skilja þessa tegund af músík sem þeir eru kannski ekki jafn vanir að hlusta á og t.d. sinfóníur Beethovens, svo ég ætla að láta nokkur orð fylgja til þess að útskýra hvernig þessi verk eru. Ég tala ekkert um um hvað tónlistin fjallar heldur ætla ég að benda á ákveðin litbrigði eða einkenni sem geta verið spennandi. Ég get hugsað mér að vera eins og leiðsögumaður. Ef maður hefur aldrei komið til útlanda er betra að hafa leiðsögumann þótt það geti auðvitað verið gaman að rölta einhvers staðar í útlöndum án þess að vita neitt.“

Stefnir á gerð geisladisks

Peter mun frumflytja nýtt verk Johns á tónleikunum. „Það tilheyrir starfi okkar tónlistarmanna á Íslandi að frumflytja tónlist vina okkar og kollega. Það er mjög spennandi að frumflytja verk. Það er alltaf ákveðin spenna í loftinu. Ég get lofað því að þetta síðasta verk, sem er stutt, er mjög frábrugðið hinum. Öll hin eru í hinum gamla „atonal“-stíl Johns en síðasta verkið heitir Hommage á Brahms og er eiginlega rómantískt.“

Fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni verða haldnir í kvöld, föstudagskvöldið 23. ágúst, kl. 20 í Egilsstaðakirkju. Á sunnudaginn, 25. ágúst kl. 15, verða svo tónleikar í Laugarborg í Eyjafjarðarsveit. Tveimur vikum síðar, sunnudaginn 8. september kl. 15, verður leikurinn endurtekinn í tónleikasalnum Hömrum á Ísafirði. Lokatónleikar verða svo haldnir miðvikudaginn 11. september kl. 20 í Hannesarholti í Reykjavík.

Með þessum fernum tónleikum er verkefninu ekki lokið. „Mig langar að halda fyrirlestur um tónskáldið og verk þess í Listaháskólanum þar sem ég kenni og annars staðar ef áhugi er fyrir því. Svo ætla ég líka að gera heildarupptöku af verkunum á geisladisk einhvern tímann seinna í vetur,“ segir Peter.