[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Auður Lilja Erlingsdóttir fæddist 23. ágúst 1979 í Uppsölum í Svíþjóð þar sem foreldrar hennar lögðu stund á nám.

Auður Lilja Erlingsdóttir fæddist 23. ágúst 1979 í Uppsölum í Svíþjóð þar sem foreldrar hennar lögðu stund á nám. Æskuárin voru flest í Einarsnesi í Skerjafirðinum yfir veturinn en á sumrin dvaldi Auður Lilja jafnan í sveit hjá afa sínum og ömmu og öðrum tengdum ættingjum austur í Breiðdal á sveitabænum Þrastahlíð.

„Þegar ég var sjö ára flutti ég í Borgarnes með fjölskyldunni. Pabbi kenndi í grunnskólanum og mamma vann á fræðslumiðstöðinni. Ég tók svo 10. bekk úti í Svíþjóð þegar mamma og pabbi fóru í viðbótarnám. Það var bara í ár og þegar ég kom heim fór ég í beinu framhaldi í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Tók rútuna á milli Borgarness og Akraness í stuttan tíma en komst svo á vistina og leigði úti í bæ síðar.

Mamma og pabbi fluttu á þessum tíma á Blönduós og síðar á Húnavelli, þar sem mamma tók við skólaskrifstofunni og pabbi varð aðstoðarskólastjóri/skólastjóri. Ég flutti tímabundið heim eftir að hafa hætt í skóla, kynntist frábæru fólki á Blönduósi en tók svo fljótt aftur upp þráðinn í námi. Ég plataði eina bestu vinkonu mína, Drífu Baldursdóttur, til að flytja búferlum með mér og við byrjuðum í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki, þar sem við bjuggum fyrst úti í bæ og síðar á heimavistinni.“

Auður Lilja tók fyrstu skrefin í pólitískum aktívisma á Sauðárkróki. „Einhverju sinni hafði skólayfirvöldum dottið í hug að koma upp eftirlitsmyndavélum um alla heimavist meðan nemendur voru í fríi. Við söfnuðum undirskriftum, fjölluðum um þetta í skólablaðinu og héldum opinn fund á heimavistinni undir yfirskriftinni – Hvað næst? Rimlar fyrir gluggana? Málið var síðar kært og mér skilst að Persónuvernd hafi úrskurðað meginþorra myndavélanna ólöglegan. Á Sauðárkróki kynntist ég barnsföður mínum og fyrrverandi eiginmanni og stóru fjölskyldunni hans í Flugumýrarhvammi.“

Auður Lilja fór beint í Háskóla Íslands eftir útskrift úr Fjölbraut á Sauðárkróki 1999. Hún hóf nám í félagsfræði, síðan atvinnulífsfræði en lauk BA-námi í stjórnmálafræði 2003. Hún lauk síðan MPA-námi í opinberri stjórnsýslu 2006. Hún var virk í stúdentapólitíkinni og kom ásamt fleirum að stofnun Háskólalistans, komst inn í Stúdentaráð og í stjórn Félagsstofnunar stúdenta.

„Ég byrjaði að feta mig í átt að almennari stjórnmálaþátttöku á þessum árum en varð þó ekki virk fyrr en eftir að ég hætti í stúdentapólitíkinni. Ég er í grunninn mikill friðarsinni og femínisti svo að Vinstri-græn lágu beinast við. Ég starfaði mikið innan þeirra raða. Var formaður ungliðahreyfingarinnar og sat í stjórn hreyfingarinnar. Ég var varaþingkona á árunum 2007-2013, kom oft inn á þing þar sem ég lagði áherslu á réttindi námsmanna, friðarmál, trúfrelsi og aðskilnað ríkis og kirkju.

Ég eignaðist frumburðinn Freyju Sigrúnu árið 2005 og Erling Kára 2009. Þeirra fyrstu ár einkenndust af mikilli fundarsetu og ég óttast að ég hafi skemmt áhuga þeirra á stjórnmálum fyrir lífstíð.“ Auður Lilja starfaði sem framkvæmdastýra VG árin 2010-2014. „Þá hóf ég störf hjá Reykjavíkurborg í starfi sem tengist frekar mínu námi þótt vissulega hafi áhugi minn á launajafnrétti haft mikið að segja um nýjan starfsvettvang. Þegar flokksráðsfundur VG samþykkti svo að hefja ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum sagði ég skilið við Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Ég hef þó ekki slitið öll tengsl. Er ennþá einlæg stuðningskona margra innan VG og á enn mína kima innan þeirra raða sem ég held tryggð við.

Ég er aktívisti í eðli mínu, óháð formlegri stjórnmálaþátttöku. Ég er í Samtökum hernaðarandstæðinga þar sem ég sat í stjórn og gegndi formennsku um árabil. Ég er líka í óteljandi femínistahópum í raun- og netheimum þar sem ég fæ útrás fyrir tilraunir mínar til að bæta heiminn.“

Í dag starfar Auður Lilja sem skrifstofustjóri yfir Verkefnastofu starfsmats, en Verkefnastofan vinnur að launasetningu, mati á störfum fyrir sveitarfélög í landinu og ráðgjöf um jafnlaunamál til að tryggja fylgni við jafnréttislög. Auður Lilja er einn af lykilstarfsmönnum við innleiðingu jafnlaunastaðals hjá Reykjavíkurborg.

„Í frítíma mínum dreifist tíminn á milli fjölskyldu og margvíslegra áhugamála. Ég les í törnum, reyni að komast reglulega í sjósund, er líka í annars konar hreyfingu – sundi, fjallgöngum o.fl. Ég sinni þjóðmálaumræðu af kappi, gjarnan með góðum konum á bar.“ Auði Lilju finnst einnig gaman að taka þátt í spurningakeppni á börum, stundum nefnt barsvar (pub quiz), þá aðallega á Ölstöfunni og nefnist keppnin þar Drekktu betur. Hún hefur sjálf oft verið spurningahöfundur í þeim keppnum. „Ég er líka einlæg áhugakona um karókí en ég reyni að komast í karókí í flestum borgum sem ég heimsæki.“

Fjölskylda

Kærasti Auðar Lilju er Páll Arnar Þorsteinsson, f. 18. nóvember 1981, kafbátasérfræðingur. Foreldrar hans eru hjónin Þorsteinn Jakob Þorsteinsson sölumaður, f. 17.1. 1953, og Sigríður Þórðardóttir leikskólastjóri, f. 29.10. 1957, búsett í Kópavogi. Fyrrverandi eiginmaður Auðar Lilju er Freyr Rögnvaldsson, f. 1. júní 1978, blaðamaður. Foreldrar hans eru hjónin Rögnvaldur Ólafsson og Sigrún Þorsteinsdóttir í Flugumýrarhvammi í Akrahreppi í Skagafirði.

Börn Auðar Lilju og Freys eru Freyja Sigrún, f. 14.3. 2005, og Erling Kári, f. 29.8. 2009. Sonur kærastans er Hilmir, f. 20.2. 2013.

Hálfsystkini Auðar Lilju sammæðra eru Gísli Magnússon, f. 9.5. 1974, tónlistarmaður og safnvörður, og Þórður Magnússon, f. 25.2. 1973, tónskáld. Faðir þeirra er Magnús Þór Jónsson (Megas).

Foreldrar Auðar Lilju eru hjónin Erling Ólafsson, f. 3.3. 1947, kennari, og Bergþóra Gísladóttir, f. 3.1. 1942, sérkennslustjóri. Þau eru búsett í Reykjavík.