Þau hafa verið þung sporin út af vellinum hjá íslenska karlalandsliðinu í körfubolta eftir tapið fyrir Sviss í fyrrakvöld. Þetta var með því grátlegra sem maður hefur orðið vitni að.
Þau hafa verið þung sporin út af vellinum hjá íslenska karlalandsliðinu í körfubolta eftir tapið fyrir Sviss í fyrrakvöld. Þetta var með því grátlegra sem maður hefur orðið vitni að.

Það var engin lygi að liðið var í draumastöðu fyrir leikinn, enda mátti Ísland tapa með 19 stigum en samt vinna riðilinn sinn í forkeppni EM. Sviss er ekki hátt skrifuð þjóð í körfuboltaheiminum en tókst engu að síður að vinna 24 stiga sigur, skora miklu meira en það hefur gert í landsleik í mörg ár og útiloka alla möguleika Íslands á að komast á næsta stórmót.

Þessi leikur var algjört skólabókardæmi um það hversu mikilvæg andlega hliðin er í íþróttunum. Undirbúningurinn fyrir leikinn var eflaust óhjákvæmilega öðruvísi en venjulega, þar sem menn hafa vitað af þessari líflínu að mega tapa með 19 stigum. En svo þegar átti að treysta alfarið á hana þá að sjálfsögðu slitnaði línan og menn lentu harkalega á jörðinni. Hausinn var bara ekki á réttum stað.

Þó að það hafi verið nógu ömurlegt að tapa svona er framhaldið ekki síður slæmt. Lokakeppni EM fer fram 2021 og Ísland verður ekki með í undankeppninni. Fær liðið þá einhvern alvöru landsleik næstu tvö árin eða svo?

Svo er það peningahliðin. Þetta mun eflaust hafa neikvæð áhrif á rekstur KKÍ, sem eins og mörg önnur sérsambönd hér heima treystir á allar krónur sem berast í kassann. Þegar Ísland verður svo ekki með í heilli undankeppni hlýtur það að koma niður á framlagi til sambandsins.

En það er best að spyrna sér frá botninum. Vonandi er þetta bara lítið bakslag fyrir íslenskan körfubolta á alþjóðavísu.