[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Aron Þórður Albertsson aronthordur@mbl.is Nói-Síríus hf. og Orkla ASA hafa komist að samkomulagi um kaup þess síðarnefnda á 20% hlut í Nóa-Síríusi, að undangengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Baksvið

Aron Þórður Albertsson

aronthordur@mbl.is

Nói-Síríus hf. og Orkla ASA hafa komist að samkomulagi um kaup þess síðarnefnda á 20% hlut í Nóa-Síríusi, að undangengnu samþykki Samkeppniseftirlitsins. Báðir aðilar eru ásáttir um að kaupverð verði ekki gefið upp að svo stöddu. Orkla er skráð á hlutabréfamarkað í Noregi og hefur fjárfest umtalsvert í matvælafyrirtækjum á Norðurlöndum. Á síðasta ári nam velta fyrirtækisins nær 570 milljörðum íslenskra króna, en Orkla er með ríflega átján þúsund starfsmenn á sínum snærum. Til samanburðar starfa um 150 manns hjá Nóa Síríusi og er velta félagins rétt um 0,6% af veltu Orkla.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði Nói-Síríus ekki auglýst eftir áhugasömum fjárfestum eða verið í söluhugleiðingum. Tilboð Orkla hafi því verið að eigin frumkvæði ásamt því að vera talsvert betra en tilboð annarra fjárfesta sem lýst höfðu áhuga á fyrirtækinu höfðu verið fram til þessa. Þá hafi framtíðarplön Orkla einnig haft mikið að segja, en fyrirtækið vonast til að styðja við frekari vöxt sælgætisgerðarinnar. Þannig verða starfsmenn Nóa-Síríus ekki varir við neinar breytingar auk þess sem vonir standa til að hægt verði að efla stöðu fyrirtækisins á markaði hér á landi. Þá herma heimildir Morgunblaðsins einnig að ólíkt öðrum áhugasömum fjárfestum hafi verið skýr vilji hjá Orkla að halda starfsemi Nóa-Síríusar með óbreyttu sniði. Með þessu kemst Orkla jafnframt inn á íslenskan markað og getur þannig styrkt stöðu sína meðal íslenskra neytenda.

Gætu keypt allt fyrirtækið

Athygli vekur að í tilkynningu sem Orkla sendi frá sér vegna yfirvofandi kaupa kemur fram að sælgætisframleiðandinn rótgróni geti með öllu verið kominn í eigu fyrrnefnda félagsins árið 2021. Í tilkynningunni segir orðrétt að „samkomulagið feli í sér möguleika á að kaupa þá hluti sem eftir eru þegar árið 2020 er liðið“.

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segir Finnur Geirsson, forstjóri Nóa-Síríusar, að alls sé óvíst að Orkla muni ganga frá kaupum á öllum hlutum í fyrirtækinu. „Það er talað um slíkt sem möguleika. Það er alls ekki víst að af því verði,“ sagði í svarinu, en að öðru leyti vildi Finnur ekki tjá sig um málið og vísaði í fréttatilkynningu Nóa Síríusar.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er kaupréttur Orkla ekki eins afdráttarlaus og ýjað er að í tilkynningu fyrirtækjanna. Þar segir, eins og fram kemur hér að framan, að Orkla geti keypt fyrirtækið endanlega eftir árið 2020, sem er vissulega rétt. Að því er heimildir Morgunblaðsins herma er þó hugsanlegt að Nói Síríus hafi sett inn ákvæði þar sem fyrirtækið getur sömuleiðis keypt Orkla út úr fyrirtækinu að nýju að framangreindum tíma liðnum.

Mikil ánægja með kaupin

Í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum lýstu stjórnendur beggja fyrirtækja yfir mikilli ánægju með samninginn. „Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu og hlökkum til að vinna með Orkla að rekstri félagsins. Nói-Siríus byggist á rótgrónum og traustum grunni og munum við halda áfram þeirri vegferð sem fyrirtækið hefur verið á undanfarin ár,“ er haft eftir Finni.

Jeanette Hauan Fladby, forstjóri Orkla, tók í svipaðan streng. „Við sjáum mikil tækifæri til að skapa virði með því að nýta styrkleika fyrirtækjanna þvert á markaði, auka skilvirkni í framleiðslu Nóa-Síríusar og styrkja stöðu Orkla á Íslandi, sem er vaxandi markaður.“