— Morgunblaði/Arnþór Birkisson
Sirrý Hallgrímsdóttir verkefnastjóri hefur mikla ánægju af því að fara á skíði, í fjallgöngur, að hlaupa og í golf. Elínrós Líndal | elinros@mbl.is
Hvað gerir þú til að huga að heilsunni?

„Ég reyni fyrst og fremst að gera það sem veitir mér ánægju því ég held að það sé grundvöllurinn fyrir stöðugri ástundun. Ég fæ mikla ánægju út úr því að fara á skíði, í fjallgöngur, að hlaupa og fara í golf. Í raun hef ég gaman af hvers kyns útivist. Ég var í hestamennsku á tímabili og það má segja að það sé fjölskyldusportið sem ég stefni á að taka upp aftur í framtíðinni.

Það er líka mikilvægt að borða fjölbreyttan og hollan mat. Ég hef ekki trú á of miklum öfgum í þeim efnum en það er svo sem bara einstaklingsbundið hvað virkar best. Amma mín sem var jógakennari kenndi mér að hlusta vel á líkamann þegar kemur að því hvað maður borðar. Líkaminn kallar á þau efni sem hann þarf. Ég hef haft það að leiðarljósi.“

Hvað borðar þú daglega?

„Ég borða oftast hafragraut með chia-fræum á morgnana. Dagurinn verður bara miklu betri. Ef ég borða fulla máltíð í hádeginu fæ ég mér bara eitthvað létt á kvöldin eða öfugt. En ég reyni að borða eina góða máltíð á dag. Mér finnst skipta miklu máli að borða fjölbreytilegt fæði.“

Hvernig æfir þú?

„Á veturna fer ég í ræktina eftir vinnu og þá helst í tíma hjá Védísi og Ásu Valgerði í World Class á Seltjarnarnesi, þær eru bara algjörir snillingar. Miklar fagmanneskjur báðar tvær og æfingarnar hjá þeim þess vegna alveg frábærar. Saman við þetta blanda ég jógatímum hjá Þór, hann er með hot-jóga í bland við hugleiðslu. Það er dásamlegt að enda vinnuvikuna í slökun og hugleiðslu. En þegar snjór er í fjöllum og hægt að fara á skíði, þá er það í algjörum forgangi hjá mér.

Við erum svo heppin hér á höfuðborgarsvæðinu að það tekur ekki nema um það bil hálftíma að skutlast upp í fjall og á skíði eða fara í gönguferðir upp um fjöll og firnindi. Þvílík dásemd.

Á sumrin reyni ég að synda, hlaupa, ganga á fjöll og stunda líkamsrækt utan dyra eins og hægt er.“

Höf.: Sirrý Hallgrímsdóttir