Reynisfjall 100 metra breið skriða féll í Reynisfjöru á þriðjudaginn.
Reynisfjall 100 metra breið skriða féll í Reynisfjöru á þriðjudaginn. — Morgunblaðið/Hallur Már
Dæmi eru um það að ferðamenn hafi ekki fylgt fyrirmælum lögreglu og farið inn á lokað svæði í Reynisfjöru, þar sem skriða féll á þriðjudag. Þetta staðfestir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Dæmi eru um það að ferðamenn hafi ekki fylgt fyrirmælum lögreglu og farið inn á lokað svæði í Reynisfjöru, þar sem skriða féll á þriðjudag. Þetta staðfestir Björn Ingi Jónsson, verkefnastjóri almannavarna hjá lögreglunni á Suðurlandi.

„Það er alltaf nóg af fólki í Reynisfjöru og það hefur alveg komið fyrir síðan við settum þennan borða að fólk hefur farið inn fyrir hann,“ sagði Björn.

Samkvæmt 19. grein lögreglulaga er almenningi skylt að fylgja fyrirmælum lögreglu. Ferðamenn og aðrir vegfarendur sem gerast brotlegir við þau lög gætu átt von á 100 til 500 þúsund króna sekt.

Lögreglan hefur enn sem komið er ekki sektað neinn ferðamann fyrir að virða ekki lokun svæðisins en hún hefur leiðbeint ferðamönnum og sagt þeim að virða fyrirmælin, að sögn Björns.

Almannavarnir lokuðu aðgengi að þeim hluta Reynisfjöru sem er austan við Hálsanefshelli fram á föstudag, en þá verða aðstæður kannaðar að nýju.

Óljóst er hvenær aðgengi að hinu lokaða svæði verður leyft að nýju.

„Þessi lokun hefur ekki mikil áhrif á aðalaðdráttaraflið, sem er náttúrlega fjaran og stuðlabergið sem er þarna,“ sagði Björn.

Enn er laust efni í upptökum skriðunnar, sem var 100 metra breið, og má búast við því að áfram hrynji frá upptökum hennar næstu daga.