Stefanía Óskarsdóttir
Stefanía Óskarsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon Gunnlaugur Snær Ólafsson Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði það í viðtali í Kastljósi í fyrrakvöld að stefnt væri að því að tilkynna nýjan dómsmálaráðherra áður en þing hæfist í september. Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður föstudaginn 6. september.

Höskuldur Daði Magnússon

Gunnlaugur Snær Ólafsson

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði það í viðtali í Kastljósi í fyrrakvöld að stefnt væri að því að tilkynna nýjan dómsmálaráðherra áður en þing hæfist í september. Ríkisráðsfundur hefur verið boðaður föstudaginn 6. september.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir mun ekki gegna embættinu áfram að því er fram kom í máli Bjarna í þættinum. Hún tók sem kunnugt er við af Sigríði Á. Andersen til bráðabirgða í vor eftir afsögn hinnar síðarnefndu. Bjarni sagði aðspurður að hann teldi ekki ástæðu til að leita út fyrir þingflokk Sjálfstæðisflokksins við val á nýjum dómsmálaráðherra.

Viðmælendur Morgunblaðsins telja að all nokkrir kostir séu í stöðunni fyrir formanninn. Flestir muni þeir þó kalla á misjöfn viðbrögð, ánægju í einu horni en óánægju í öðru. Þau nöfn sem einna helst hafa verið nefnd sem líklegir kostir í embættið eru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins, Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, Bryndís Haraldsdóttir, Birgir Ármannsson þingflokksformaður og Brynjar Níelsson. Öll nema Bryndís eru lögfræðimenntuð en algengt hefur verið að lögfræðingar sitji í stól dómsmálaráðherra, þó að það sé ekki algild regla, samanber Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Ögmund Jónasson.

„Allir sem eru í pólitík vilja hafa sem mest áhrif og það væri eitthvað að mér ef ég hefði ekki áhuga á því,“ segir Brynjar Níelsson, spurður um hvort hann hafi áhuga á embætti dómsmálaráðherra.

Brynjar kveðst telja að hann hafi marga kosti sem nýtast myndu í ráðuneytinu. „Þingflokkurinn býr að því að hafa innan sinna raða mann sem hefur unnið áratugum saman innan dómskerfisins. Það væri ekki óskynsamlegt að nýta sér það.“

Ekki náðist í Áslaugu Örnu eða Sigríði Andersen í gær.

„Það virðist ljóst að Þórdís Kolbrún haldi áfram í sínu ráðuneyti og þá aukast kannski möguleikar á því að Áslaug Arna komi til sögunnar. Nema að gerðar verði einhverjar hrókeringar á ráðherraliðinu,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, þegar hún er beðin að leggja mat á stöðuna.

Hún kveðst telja að valið standi helst á milli Áslaugar Örnu og Sigríðar Andersen. Birgir Ármannsson komi vissulega til greina en Áslaug sé ofar á lista en hann og auk þess kona en áhersla á kynjajafnrétti innan ríkisstjórnarinnar vegi eflaust þungt. „Innan ríkisstjórnarinnar er auðveldast fyrir Bjarna að gera Áslaugu Örnu að ráðherra. En Sigríður er mögulega í sterkri stöðu gagnvart einhverjum í grasrótinni í Reykjavík. Ég myndi telja að Áslaug Arna hefði vinninginn.“

Stefanía rifjar upp að Bjarni hafi leitað til Ólafar Nordal í embætti innanríkisráðherra þegar Hanna Birna Kristjánsdóttir hrökklaðist þaðan. „Nú virðist ekkert álíka í stöðunni,“ segir hún.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við HÍ, segir að hlutfall kvenna sé heldur lágt í þingflokki Sjálfstæðisflokksins svo freistandi sé fyrir Bjarna að setja konu í embættið. „Mér finnst nú ólíklegt að Páll [Magnússon] eða Jón Gunnarsson verði valdir í embætti dómsmálaráðherra, hins vegar eru dómsmálin á sérsviði Brynjars Níelssonar. En þá kemur spurningin hvort flokkurinn telji nauðsynlegt að hafa eina konu til viðbótar í ráðherraembætti.“