Ágúst Þorvaldur Bragason fæddist í Neskaupstað 26. febrúar 1948. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans í Reykjavík 9. ágúst 2019 eftir skammvinn veikindi.

Foreldrar hans voru Signý Sigurlaug Margrét Þorvaldsdóttir verkakona, f. 27.12. 1916, d. 7.9. 2009, og Bragi Jónsson verkamaður, f. 26.1. 1914, d. 26.11. 1994. Systkini Ágústs eru Ari Guðmar, f. 1938, d. 2014, Dórothea, f. 1940, d. 2004, Margrét, f. 1942, d. 2018, Hermann, f. 1943, og Vilhjálmur, f. 1954. Uppeldisbræður hans eru Bragi Einarsson, f. 1960, og Grétar Miller, 1963.

Ágúst giftist Ólínu Öldu Karlsdóttur 10. apríl 1977 og átti með henni tvö börn. Leiðir þeirra skildi. Börn þeirra eru Gréta, f. 5.12. 1976, og Jón Karl, f. 8.12. 1977. Maki Grétu er Aayush Sharma og börn hennar: Viktor Patrik, Sóldís Kara og Brynja Dís. Maki Jóns Karls er Anita Elefsen og sonur þeirra Óskar Berg, dóttir Jóns Karls af fyrra sambandi er Katrín Helga.

Eftirlifandi sambýliskona hans er Anna Kristjánsdóttir, f. 28.6. 1954, og bjuggu þau saman á Hólavegi 10 á Sauðárkróki. Börn Önnu eru Kristján Björnsson, f. 1974, í sambúð með Halldóru Gestsdóttur, Tómas Pétur Heiðarsson, f. 1984, giftur Agnesi Ósk Gunnarsdóttur, Sólrún Harpa Heiðarsdóttir, f. 1984, gift Gunnari Oddi Halldórssyni og Unnur Fjóla Heiðarsdóttir, f. 1988, gift Pétri Inga Gíslasyni. Barnabörnunum fjölgaði um sex eftir að Ágúst og Anna hófu sambúð, en í hópinn bættust Ívan Otri, Daníel Guðni, Vigdís Hekla, Fanney Embla, Orri Freyr og Klara Sjöfn.

Ágúst, eða Gústi eins og hann var ævinlega kallaður, bjó fyrstu æviárin í Neskaupstað en flutti í Garðinn sex ára gamall og bjó þar fram á fullorðinsár. Hann stundaði sjómennsku frá unga aldri, bæði á fiskiskipum og fraktskipum. Eftir að hann hætti á sjónum starfaði hann við beitningu, flökun og fiskvinnslu. Á tíunda áratugnum flutti hann til Keflavíkur og var þar búsettur til ársins 2011, en þá hóf hann sambúð með Önnu sinni norður á Sauðárkróki, þar sem hann bjó til dánardags.

Útför Gústa fer fram frá Útskálakirkju í dag, 23. ágúst 2019, klukkan 13.

Elsku Gústi minn.

Nú er svo komið að ég kveð þig í hinsta sinn. Hér sit ég við eldhúsborðið okkar og fer yfir síðustu ár. Við áttum yndislegan tíma saman. Okkur þótti gaman að ferðast og keyra um landið okkar, heimsækja börnin okkar og barnabörn.

Höggið kom fljótt, alltof fljótt. Þú barðist eins og hetja en því miður dugði það ekki til. Ég veit að þér líður betur núna, verkjalaus.

Það verður mjög tómlegt að koma heim eftir vinnu á daginn og þú verður ekki þar, tilbúinn með kaffibollann minn.

Elsku Gústi, takk fyrir öll yndislegu árin okkar.

Þín verður sárt saknað.

Minnig þín lifir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Grátnir til grafar

göngum vér nú héðan,

fylgjum þér, vinur. Far vel á braut.

Guð oss það gefi,

glaðir vér megum

þér síðar fylgja' í friðarskaut.

(Valdimar Briem)

Þín

Anna.

Elsku pabbi

Ég er buguð af sorg. Sársaukinn nístir hjarta mitt. Tíminn með þér var ekki nógu langur. Minningarnar streyma um hugann og leita til barnæskunnar. Í seinni tíð urðu tengslin enn sterkari og er ég svo þakklát fyrir þau ár. Þakklát að vera við hlið þér í þessum erfiðu veikindum sem tók fljótt af. Þrjár vikur. Þrjár vikur til að bæði meðtaka þennan þunga dóm og kveðja þig.

Ég man síðasta spjallið, síðustu snertinguna, síðasta kossinn, síðasta andardráttinn.

Ég mun alltaf muna.

Takk fyrir allt, elsku pabbi.

Ég sakna þín nú og alla tíð.

Ef ég ætti eina ósk

ég myndi óska mér

að ég fengi að sjá þig

brosa á ný.

Eitt andartak á ný í örmum þér

á andartaki

horfinn varstu mér.

Ég trúi því

á andartaki

aftur verð hjá þér.

Þín elskandi dóttir,

Gréta.

Elsku afi.

„Einstakur“ er orð sem notað er þegar lýsa á því sem er engu öðru líkt, faðmlagi eða sólarlagi, eða manni sem veitir ástúð með brosi eða vinsemd. „Einstakur“ lýsir fólki sem stjórnast af rödd síns hjarta og hefur í huga hjörtu annarra. „Einstakur“ á við þá sem eru dáðir og þeirra skarð verður aldrei fyllt. „Einstakur“ er orð sem lýsir þér.

Minning þín er ljós í lífi okkar.

Viktor Patrik, Sóldís Kara og Brynja Dís.