Á leiðinni Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur hingað til lands. Að öllu óbreyttu mun forsætisráðherra þó ekki hitta Pence.
Á leiðinni Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur hingað til lands. Að öllu óbreyttu mun forsætisráðherra þó ekki hitta Pence. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur til Íslands 4. september. Mun hann einnig sækja Bretland og Írland heim í ferð sinni og hitta þar m.a.

Sviðsljós

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, er væntanlegur til Íslands 4. september. Mun hann einnig sækja Bretland og Írland heim í ferð sinni og hitta þar m.a. forsætisráðherra, utanríkisráðherra og forseta Írska lýðveldisins. Er þetta í þriðja skipti sem sitjandi varaforseti Bandaríkjanna sækir Ísland heim, en áður voru það þeir Lyndon B. Johnson, árið 1963, og George H.W. Bush, árið 1983. Bæði Johnson og Bush áttu fund með þáverandi forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mun ekki taka á móti Pence við komu hans hingað. Mun hún þess í stað sitja norrænt verkalýðsþing og hefur hún í samtali við Morgunblaðið sagst ekki sjá ástæðu til að breyta áformum. Þessi ákvörðun forsætisráðherra hefur fangað athygli fjölmiðla og stjórnmálaskýrenda, hér heima og erlendis.

Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir það „óvenjulegt“ að forsætisráðherra landsins skuli ekki taka á móti varaforsetanum.

„Það er greinilegt að þetta hefur vakið töluverða athygli erlendis og augljóst að margir túlka þetta sem svo að hún sé að láta í ljós afstöðu sína til ríkisstjórnar Trumps, hvort sem það er rétt eða rangt,“ segir Ólafur, en sumir fjölmiðlar erlendis hafa m.a. tengt þessa ákvörðun Katrínar við nýlega uppákomu milli Bandaríkjanna og Danmerkur. Hætti þar Donald Trump Bandaríkjaforseti skyndilega við opinbera heimsókn sína til Danmerkur eftir að ráðamenn þar og í Grænlandi hófu að tjá sig um hugmynd sem sögð er koma úr Hvíta húsinu um hugsanleg kaup á Grænlandi.

Aðspurður segist Ólafur ekki eiga von á því að fjarvera Katrínar muni skaða samskipti Íslands og Bandaríkjanna til lengri tíma. „Samskipti Bandaríkjanna við vini sína og bandamenn í Evrópu eru þó vægast sagt mjög einkennileg þessi misserin,“ segir hann.

Fágætt tækifæri glatast

Morgunblaðið setti sig í samband við alla formenn þingflokka á Alþingi og spurði þá út í ákvörðun forsætisráðherra. Þingflokksformenn stjórnarflokka auk Pírata og Flokks fólksins voru jákvæðir í garð þeirrar ákvörðunar Katrínar að vera erlendis þegar Pence kemur, en fulltrúar Miðflokksins, Viðreisnar og Samfylkingar gagnrýndu fjarveruna mjög.

„Þessi ákvörðun forsætisráðherra er í besta falli stórundarleg. Hér er að líkindum um að ræða annan valdamesta mann heims, varaforseta ríkis sem hefur verið helsti bandamaður okkar, og við höfum átt í sérstöku samstarfi við Bandaríkin áratugum saman. Mér finnst því mjög sérstakt af forsætisráðherra að hitta ekki þennan mann,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, formaður þingflokks Miðflokksins, og bætir við að hann gefi lítið fyrir skýringar Katrínar á fjarveru sinni.

„Þetta eru rök sem halda engu. Þarna er hún fyrst og fremst að taka hagsmuni flokks síns fram yfir hagsmuni lands og þjóðar. Fyrir Ísland skiptir jú meira máli að eiga í góðu samstarfi og samskiptum við Bandaríkin en verkalýðsforystuna á Norðurlöndum. Auk þess efast ég ekki um að forkólfar verkalýðshreyfinga muni skilja það að forsætisráðherra þurfi að taka á móti varaforseta Bandaríkjanna,“ segir hann.

Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingar, segir Ísland missa af tækifæri til að koma mikilvægum skilaboðum á framfæri við varaforsetann milliliðalaust. Á hún þar við áherslur Íslands í loftslags-, mannréttinda- og jafnréttismálum, en Oddný segir Katrínu hafa vigt í þessum málaflokkum og því hefði fundur hennar með Pence getað skipt máli. „Það að velja frekar að tala við verkalýðsleiðtoga á Norðurlöndum er bara eins og að messa yfir eigin söfnuði.“

Hanna Katrín Friðriksson, formaður þingflokks Viðreisnar, segir í ljósi fyrri samskipta við Bandaríkin það „æskilegt“ fyrir forsætisráðherra að taka á móti Pence.

„Hún hefði átt að nýta tækifærið, taka á móti honum og ræða brýn málefni á borð við loftslagsmál og öryggis- og varnarmál. En hún forgangsraðar auðvitað sínum verkefnum,“ segir Hanna Katrín og bætir við: „Ég verð samt að segja að ég er mjög hissa á þessari forgangsröðun því forsætisráðherra Íslands á alla jafna gott aðgengi að aðilum vinnumarkaðar á Norðurlöndum.“

Katrín útskýrt málið vel

Birgir Ármannsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir forsætisráðherra hafa gefið skýringar á aðstæðum sínum. „Hún metur sína stöðu í þessu og hvaða skuldbindingum hún hefur að gegna. Ég hef ekki athugasemdir við það.“

Willum Þór Þórsson, formaður þingflokks Framsóknar, tekur í svipaðan streng. „Forsætisráðherra hefur útskýrt þetta ágætlega sjálf.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, segist skilja Katrínu vel. „Ég myndi ekki vilja hætta við mín plön til að hitta nákvæmlega þennan mann.“

Þá segist Guðmundur Ingi Kristinsson, formaður þingflokks Flokks fólksins, skilja vel að Katrín vilji síður breyta fyrri áformum.