Trump er hættur við að sækja Dani heim. Katrín okkar er hins vegar á harðahlaupum undan varaforseta hans til að reyna að róa niður innanflokksupphlaup hjá sér og fann hún heldur óburðuga afsökun fyrir flótta sínum.
Dönskum fjölmiðlum brá nokkuð við tilkynningu Trumps og bentu sumir þeirra á að Danir væru í hópi allra nánustu bandamanna stórveldisins.
Þá rifjaðist upp er þáverandi forsætisráðherra Dana sótti Obama forseta heim í Hvíta húsið. Af því tilefni sagði Obama í ræðu að Danir væru í hópi allra nánustu vina og bandamanna Bandaríkjanna.
Dönum þótti mjög vænt um þessa einstæðu yfirlýsingu og var þessi setning spiluð oft og reglubundið í ljósvakamiðlum.
Þá tóku sig til gamansamir blaðamenn. Þeir skönnuðu nærri 40 ræður Obama að taka á móti erlendum fyrirmennum. Í þeim öllum kom setningin góða að sú þjóð sem þá átti þar fulltrúa „væri í hópi allra nánustu vina og bandamanna Bandaríkjanna“. Danir hafa ekki spilað setninguna góðu eftir það.
Og nú bentu þeir gamansömu á að Trump væri vorkunn að orða kaup á landi við Dani. Bandaríkjamenn hefðu keypt af þeim Dönsku Jómfrúareyjar fyrir 25 milljónir dollara í gulli árin 1916-17. Og Jómfrúareyjar hefðu jú nýlega verið nokkuð í umræðu þar vestra. En það er önnur saga.